Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Þetta ættir þú að vita um kynlíf

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Það eru ótal sögusagnir um kynlíf og ekki alltaf auðvelt að vita hvað er satt og rétt. Hér eru nokkrar staðreyndir.

Þú verður ekki ólétt ef þú ..

Þær eru margar kenningarnar um það sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir þungun. Staðreyndin er sú að kona getur orðið barnshafandi ef hún hefur samfarir í leggöng. Eina leiðin til að vera 100% viss um að verða ekki ólétt er að hafa ekki samfarir í leggöng. 

Kona getur orðið ólétt þó:

  • Hún hafi samfarir standandi
  • Hún sé á blæðingum
  • Hún sé að hafa samfarir í fyrsta sinn
  • Karlmaðurinn hafi ekki sáðlát í leggöngin
  • Hún hafi aldrei haft blæðingar
  • Samfarirnar eigi sér stað í sturtunni

Eina leiðin til að koma í veg fyrir að kona verði þunguð er að nota getnaðarvarnir.

Gerir áfengi þig betri í rúminu?

Nei áfengi gerir engan betri í rúminu. Fólk finnur kannski meiri kynlöngun eftir neyslu áfengis en hjá körlum minnkar kyngetan við áfengisneyslu. Sannleikurinn er líka sá að áfengisneysla slævir dómgreindina þannig ertu líklegri til að taka slæmar ákvarðanir þegar þú ert undir áhrifum áfengis. Þú ert líklegri til þess að taka ákvarðanir um kynlíf sem þú sérð eftir ef þú ert undir áhrifum.

Einkenni kynsjúkdóma

Einkenni kynsjúkdóma eru hjálpleg þegar þau láta svo lítið að gera vart við sig. En staðreyndin er sú að um helmingur fólks fær engin einkenni og hefur því oft ekki hugmynd um hvort það er smitað af kynsjúkdómi.

Helstu einkenni þeirra eru verkir og sviði við þvaglát, útferð úr typpi eða leggöngum, slappleiki og sár á kynfærum.

Til þess að ganga úr skugga um hvort þú hefur fengið kynsjúkdóm þarftu að láta skoða það. Þú getur farið með þvagprufu á næstu heilsugæslustöð og beðið um rannsókn.

Geta konur smitað hvor aðra af kynsjúkdómi?

Já konur sem stunda kynlíf geta smitað hvor aðra af kynsjúkdómi. Þetta getur bæði gerst með höndum þar sem bleyta úr leggöngum fer á hendur og sem svo snerta kynfæri hinnar konunnar og einnig getur þetta gerst með leiktækjum. Hér má lesa um örugga notkun hjálpartækja ástarlífsins.