Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Efnainnihald tóbaks

Kaflar
Útgáfudagur

Í reyktóbaki eru um það bil 7.000 efnasambönd. Rúmlega 70 þeirra eru krabbameinsvaldar. Dæmi um efni í tóbaki: ammoníak, kvikasilfur, blý, formaldehýð og vetnisklóríð (saltsýra). Lítum nánar á nokkur efni sem eru í tóbaki.

Tjara

Tjara er klístrað brúnt efni sem litar fingur og tennur reykingamannsins gular eða gulbrúnar. Þegar reyknum er andað ofan í lungu verður 70% af tjörunni eftir í lungunum. Vitað er að mörg þeirra efna sem eru í tjöru valda krabbameini og skaða á lungnaberkjum og bifhárum sem hafa það hlutverk að verja lungun fyrir óhreinindum og sýkingum.

Kolsýringur

Eitruð lofttegund sem myndast þegar kveikt er í sígarettu. Í stórum skömmtum er hún lífshættuleg. Allt að 15% af blóði reykingamanns ber kolsýring um líkamann í stað súrefnis. Þetta er ástæða þess að þol reykingamanna er minna en það væri ef þeir reyktu ekki. Frumur og vefir líkamans þurfa súrefni til að geta starfað. Kolsýringur er sérstaklega skaðlegur á meðgöngu þar sem hann dregur úr súrefnisflutningi til fóstursins.

Nikótín

Er kröftugt, skjótvirkt og eitt mest ávanabindandi efni sem til er. Flestir sem reykja eru háðir nikótíninu í sígarettunum. Þegar kveikt er í sígarettunni fer nikótínið út í blóðrásina og er komið til heilans 7 til 10 sekúndum síðar. Nikótínið hefur margþætt áhrif á líkamann. Þar á meðal eykur það hjartslátt, hækkar blóðþrýsting og örvar efnaskipti. Nikótín hefur einnig áhrif á lundarfar og hegðun reykingamanns.

Dæmi um önnur efni í tóbaki

Aceton Almennt notað sem leysir, til dæmis til að ná naglalakki af nöglum
Ammóníak Eitrað við innöndun og ætandi
Arsenik Eitrað við innöndun og inntöku
Benzen Notað sem leysir í bensín og við efnaframleiðslu
Cadmium Mjög eitraður málmur. Notaður meðal annars í rafhlöður
Formaldehýð      Eitrað í snertingu við húð, við innöndun og inntöku. Notað við varðveislu líkamsleifa
Hýdrazín Eitrað og ætandi krabbameinsvaldandi efni

 

Léttar sígarettur

Gefið er í skyn að léttar eða mildar sígarettur valdi minni skaða en aðrar sígarettur. Þetta er ekki rétt. Slíkar villandi merkingar hafa víða verið bannaðar á umbúðum og í auglýsingum.

Hægt er að fá meðferð og stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 5131700. 

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína