Vörtur (e. warts and verrucas) eru veirusýking í húð. Vörtur á húð eru yfirleitt saklausar en þær geta verið til ama. Þá geta þær valdið kláða og verið sársaukafullar. Það eru til mismunandi leiðir til að meðhöndla vörtur og margt sem fólk getur gert sjálft til að eyða þeim eða draga úr óþægindum.
Einkenni
Lýsa má vörtum sem hörðum og hrjúfum hnútum á húð. Þær eru algengastar á höndum sérstaklega handarbökum og á kjúkum. Þá er ekki óalgengt að sjá þær á hnjám og undir iljum. Venjulega eru vörtur húðlitaðar. Flestar vörtur eru alveg kringlóttar en sumar hafa grófar útlínur þar sem þær eru svo hrjúfar. Vörtur geta verið stakar en þær geta líka birst í klösum þ.e. nokkrar saman í hóp á ákveðnu húðsvæði.
Vörtur undir iljum geta verið mjög sársaukafullar. Þær hafa venjulega svarta sjáanlega punkta eða doppur undir mjög hörðu skinni.
Orsakir
Veirusýking berst annars vegar með beinni snertingu t.d. handabandi eða við að snerta sýkta hluti. Staðir sem hætta er á smiti er þar sem finna má raka, t.d. í búningsklefum eða á sundlaugarbökkum.
Greining
Flestir heilbrigðisstarfsmenn geta greint vörtur með því einu að horfa á þær. Í einstaka tilfellum þarf læknir að taka sýni af vörtunni til að senda á rannsóknarstofu til greiningar. Það er gert til að útiloka aðrar tegundir af hnútum eða æxlum sem vaxið geta á húð.
Helstu tegundir varta:
- Frauðvörtur - litlar glærar vökvafylltar bólur, einkum meðal barna
- Vörtur á höndum og fótum meðal barna og fullorðinna - þykkildi
- HPV kynfæravörtur
Meðferð
Vörtur á höndum og fótum eru almennt skaðlausar og án meðhöndlunar hverfa þær venjulega á 6 – 24 mánuðum. Ef sársauki kemur frá vörtu er gott að leita til lheilsugæslunnar til að fá meðferð. Þá er einnig mikilvægt að fara til læknis ef vörtur koma fram á andliti eða á kynfærum.
Algengustu meðferðir hjá læknum til að fjarlægja vörtur:
- Frysting - Byrjað er á að skafa aðeins ofan af vörtunni. Þá er köfnunarefni úðað á svæðið sem frystir húðfrumurnar í efsta lagi vörtunnar. Þessi meðferð er endurtekin nokkrum sinnum með 2-3 vikna millibili eða þar til vartan hverfur.
- Penslun - Byrjað er á skafa aðeins ofan af vörtunni. Þá er vörtudrepandi efni penslað á hana. Efnið er látið liggja á vörtunni í nokkrar klukkustundir og loks skolað af. Efnið eyðir veirusýktum húðfrumum en meðferðina þarf yfirleitt að endurtaka í einhver skipti með nokkurra vikna millibili.
- Leysigeisli – Vartan er brennd með leysigeisla. Ein heimsókn til læknis dugar venjulega.
Hvað get ég gert?
Hægt er að meðhöndla allar vörtur heima við nema þær sem eru í andliti og á kynfærum. Í lyfjaverslunum er hægt að fá ýmsar vörur til að fjarlægja vörtur. Má nefna krem, plástra og sprey. Vörtur er miserfiðar viðureignar og meðferð getur tekið margar vikur, jafnvel marga mánuði. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum og ekki gera hlé á meðferð. Starfsfólk lyfjaverslana getur aðstoðað við val á þessum vörum.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Farðu til heimilislæknis eða húðsjúkdómalæknis ef þú hefur:
- Áhyggjur af fyrirferð/bólu á húð
- Vörtu sem ekki fer eða kemur aftur þrátt fyrir meðferð
- Stóra eða sársaukafulla vörtu
- Skyndilegur verkur í vörtu
- Vörtu sem blæðir úr eða breytir um lögun
- Vörtu í andliti eða á kynfærum
Finndu næstu heilsugæslu hér.
Forvarnir
Til að koma í veg fyrir smit eða útbreiðslu varta er hreinlæti mikilvægt. Sé húð rofin eða rök eru meiri líkur á smiti. Sérstakar varúðar skal gæta á blautum gólfum í búningsklefum þar sem fólk er berfætt og sérstaklega útsett fyrir smiti.
- Forðastu að klóra eða kroppa í vörtu
- Handþvottur er mikilvægur til að koma í veg fyrir smit eftir snertingu við sýkta húð
- Deila ekki með öðrum handklæðum, fatnaði, sokkum eða skóm
- Skipta um sokka daglega ef varta er á fæti
- Nota sandala í búningsklefum og setja plástur yfir vörtu þegar farið er í sund