Rófubeinið (e. coccyx) er staðsett neðst á hryggjasúlunni og liggur niður við rassvöðva. Ýmsar ástæður geta verið fyrir verkjum í rófubeini, einstaka sinnum er orsök verkja í rófubeini óþekkt.
Einkenni
Ef viðkomandi finnur fyrir verkjum í rófubeini er algengast að birtingarmyndin sé viðvarandi verkur við beinið með sterkari verkjaköstum inn á milli.
Algengt er að verkurinn versni við að:
- Beygja sig fram
- Hafa hægðir
- Hafa tíðarblæðingar
- Setjast niður eða standa upp
- Sitja löngum stundum
- Stunda kynlíf
Orsök
Orsök getur verið:
- Endurtekið álag á rófubeinið til dæmis langar setur í bíl eða á hjóli
- Meðganga eða fæðing barns
- Meiðsli svo sem fall á rófubeinið
- Ofþyngd eða vannæring
- Ofhreyfing liðamóta (aukinn hreyfanleiki liðamóta) við rófubeinið
- Slæm líkamsstaða
Meðferð
- Verkjalyf: Fyrsta meðferð við verkjum í rófubeini er verkjalyf svo sem paracetamol og bólgueyðandi lyf eins og ibuprofen.
Ef ráð og verkjastilling heima skila ekki árangri getur verið þörf á
- Sjúkraþjálfun
- Verkja/stera sprautur við rófubein
- Aðgerð
Hvað get ég gert?
Verkir geta verið til staðar í nokkrar vikur, jafnvel lengur. Til eru ýmis ráð til þess að minnka verki eða koma í veg fyrir slæm verkjaköst.
- Forðast að klæðast þröngum buxum þar sem þær geta aukið þrýsting og óþægindi á svæðinu
- Gott getur verið að hita og kæla svæðið til skiptis
- Grindabotnsæfingar geta hjálpað, sérstaklega á meðgöngu
- Huga að góðri líkamsstöðu þegar er setið, gott getur verið að hafa aukinn stuðning við mjóbakið. Ekki sitja löngum stundum í einu
- Liggja á hliðum frekar en baki/kvið til þess að minnka álag á rófubeinið
- Nota hægðalosandi lyf til þess að mýkja hægðir og gera hægðalosun auðveldari
- Nota rófubeinspúða eða svipaðann púða þar sem minnkað álag er á rófubeinið við setu. Einnig getur hjálpað að sitja á æfingabolta