Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kláðamaur

Kaflar
Útgáfudagur

Kláðamaur (e. scabies) er sníkjudýr sem lifir í húð manna og er algengur um allan heim.

Einkenni

  • Algengasta einkennið er kláði og er hann mest áberandi á meðan sofið er. Kláðinn kemur 2-6 vikum eftir smit og kemur samfara útbrotum.
  • Útbrot eru vanalega litlar rauðar bólur en einnig sjást stundum blöðrur eða hnökrótt þykkildi. Útbrotin eru vanalega mest áberandi á innanverðum lærum, handarkrikum, kringum nafla, á rasskinnum og við kynfæri.
  • Erfitt getur verið að greina fylgsni maursins í húðþekjunni því gangarnir aflagast eða eyðileggjast þegar húðin er klóruð. Algengast er þó að finna þá á milli fingra, á úlnliðum og olnbogum. Þeir líta út eins og fínar, hlykkjóttar, gráleitar, dökkar eða silfurlitar línur 2-15 mm langar. Einnig má greina þetta á ökklum, fótum, á kynfærum og á geirvörtum.

Smitleiðir

Kláðamaur smitast eingöngu með beinni snertingu, húð við húð. Til dæmis við kynmök, umönnun og í íþróttum þar sem snerting er mikil. Kláðamaurinn borar sig inn í húðina og myndar göng í henni. Maurinn verpir eggjum sínum í göngin þar sem þau klekjast og ný kynslóð kláðamaura verður til.

Greining

Kláðamaur er vanalega greindur út frá sögu og einkennum. Greiningin getur verið erfið og oft þarf að taka sýni til að staðfesta greiningu. 

Meðferð

Meðferðin er fólgin í lyfjameðferð og góðu hreinlæti. Lyfin eru borin á húðina. Mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda. Fylgiseðil Tenutex má sjá hér.

  • Oftast er ráðlagt að allir heimilismenn fái meðhöndlun á sama tíma. Meta þarf hvert tilfelli eftir því hversu náið samneyti heimilismanna er.
  • Skipta þarf á rúmum og þvo rúmfatnað. 
  • Föt sem hinn smitaði hefur notað sl. 3 daga þarf að þvo eða setja í hreinsun. 
  • Hlutir sem ekki er hægt að þvo eða hreinsa má setja í plastpoka og geyma í viku. Maurinn þolir ekki meira en 2 til 3 daga utan mannshúðar.
  • Eftir meðferð er ekki hætta á að smita aðra.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Hafir þú grun um kláðamaurssmit er ráðlegt að leita til heilsugæslunnar eða húðsjúkdómalæknis til að fá greiningu.

Finna næstu heilsugæslustöð.