Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hundaæði

Kaflar
Útgáfudagur

Hundaæði (e. Rabies) er ólæknandi veirusjúkdómur sem á sennilega uppruna sinn í leðurblökum en getur sýkt önnur spendýr sem geta borið hann til manna. Hundar eru valdir að 99% tilfella af hundaæði í fólki. Sjúkdóminn er ekki að finna á Íslandi.

Einkenni

Fyrstu einkenni hundaæðis koma venjulega fram innan 3-12 vikna eftir útsetningu fyrir veirunni. Fyrstu einkenni eru:

  • Hiti
  • Höfuðverkur
  • Vanlíðan
  • Þreyta

Eftir því sem sjúkdómurinn ágerist geta komið fram alvarlegri einkenni:

  • Kyngingarerfiðleikar
  • Ofskynjanir
  • Ruglástand
  • Vöðvakrampar
  • Flog
  • Lömun

Orsök

Veiran berst með munnvatni sýktra spendýra, aðallega hunda. Smit berst í fólk við bit eða klór af sýktum dýrum, en einnig ef dýrin sleikja opin sár eða munnvatn þeirra kemst í nálægð við munn eða augu fólks. Hundaæði smitast ekki í gegnum heila húð. Til eru dæmi um smit milli manna við ígræðslu á hornhimnu eða árásir veikra manna á umönnunaraðila. 

Meðferð

Meðferð skal hefjast sem fyrst, helst innan klukkustunda frá biti eða klóri. Rétt meðferð veitir fullan bata en sjúkdómurinn er banvænn hefjist meðferð ekki áður en einkenni koma fram.

  • Sárahreinsun
  • Bóluefni við hundaæði. Bólusettir fá tvo skammta með nokkurra daga millibili en óbólusettir fá fjóra skammta á einum mánuði
  • Í sumum tilfellum eru gefin virk mótefni í og í kringum sárið, það veitir tafarlausa en skammtímavernd ef verulegar líkur eru á smiti

Hvað get ég gert?

Sé fólk bitið eða klórað af dýri í landi þar sem hundaæði er landlægur sjúkdómur skal:

  • Hreinsa sárið strax með volgu vatni og sápu í nokkrar mínútur
  • Sótthreinsa sárið með sótthreinsivökva sem inniheldur alkóhól
  • Fara strax á næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku
  • Ekki bíða með að fá læknishjálp þar til ferðalagi lýkur

Forvarnir

  • Öruggasta vörnin er bólusetning gegn hundaæði
  • Ef ferðast er til lands þar sem hundaæði er landlægur sjúkdómur er bólusetning gegn sjúkdómnum mikilvæg. Þetta á einkum við ef stefnt er á að vera í mikilli nálægð við dýr eða vinna með dýrum. 
  • Forðast nálægð við villt dýr, bæði lifandi og dauð.
  • Hindra að leðurblökur komist nærri sofandi ferðalöngum, sérstaklega börnum sem geta ekki sagt frá atvikum

Bóluefnið

  • Bóluefnið er notað sem forvörn og meðferð
  • Á netspjallinu hér á síðunni er hægt að sækja um bólusetningarráðgjöf vegna ferðalaga. Ráðgjöfin byggir á fyrri bólusetningum viðkomandi ásamt upplýsingum um ferðalagið. 
  • Hér má sjá gjaldskrá fyrir bólusetningar.