Heilahristingur er tímabundinn áverki á heila sem verður vegna höfuðhöggs. Flest höfuðhögg leiða sem betur fer ekki til alvarlegs áverka á heilann, enda er heilinn vel varinn inn í höfuðkúpunni.
Í öllum tilvikum getur höfuðhögg verið alvarlegt. Því ber alltaf að taka alvarlega. Sá sem verður fyrir höfuðhöggi á skilyrðislaust að hvíla strax eftir höggið en ekki halda áfram með hreyfingu á höfðinu. Við höggið kemst ójafnvægi á vökvann sem umlykur heilann. Eftir högg er heilinn því ekki jafn vel varinn og fyrir höggið, sem eykur líkurnar á alvarlegum afleiðingum.
Einkenni
Venjulega koma einkenni heilahristings fram nokkrum mínútum eða klukkustundum eftir höfuðhögg. Einstaka sinnum eru einkennin ekki greinanleg í nokkra daga. Þess vegna þarf að fylgjast með ef breytingar verða á líðan fyrstu dagana eftir höfuðhögg.
Helstu einkenni eru:
- Höfuðverkur sem hverfur ekki, eða minnkar ekki þrátt fyrir verkjalyfjagjöf
- Þreyta og/eða sljóleiki
- Ógleði og/eða uppköst
- Einstaklingi finnst hann utan við sig eða ringlaður
- Minnisleysi – einstaklingur man ekki hvað gerðist rétt fyrir eða eftir höfuðhöggið
- Klaufska eða ójafnvægi
- Óeðlileg hegðun – pirringur eða skapsveiflur
- Sjóntruflanir – einstaklingur sér óskýrt, er með tvísýni eða sér „stjörnur“
- Einstaklingur missir meðvitund eða á erfitt með að halda sér vakandi
Erfiðara getur verið að sjá einkenni heilahristings hjá ung- og smábörnum. Horfið eftir breytingum á hegðun til dæmis:
- Mikill grátur
- Breytingar á svefni
- Breytingar á matarvenjum
- Áhugaleysi á fólki eða hlutum sem áður voru áhugaverðir.
Hikið ekki við að hafa samband við heilsugæsluna ef áhyggjur eru af barni eftir höfuðhögg. Einnig má fá ráðleggingar og aðstoð á netspjallinu hér á síðunni.
Hvað get ég gert?
Venjulega þarf ekki aðstoð heilbrigðisstarfsfólks ef einkenni eru lítil og hverfa fljótt eftir höfuðhöggið, eins og:
- Höfuðverkur sem hverfur af sjálfu sér eða með verkjalyfi
- Smávegis þreyta
- Veikindatilfinning
- Einstaklingi finnst hann vera aðeins utan við sig
Gott er að:
- Hvílast og forðast áreiti
- Taka verkjalyf t.d. paracetamól
- Fylgjast með meðvitund einstaklings og hegðun
Bati eftir heilahristing
Ef einstaklingur hefur verið greindur með heilahristing á sjúkrahúsi er hann útskrifaður þegar honum er farið að líða betur og búið er að ganga úr skugga um að ekki sé um alvarlega heilaáverka að ræða.
Flestir ná sér á nokkrum dögum eða vikum en sumir sérstaklega börn eru lengur að ná sér.
Góð ráð til að flýta bata
- Hvíld og forðast streituvaldandi aðstæður.
- Fylgjast með viðkomandi einstaklingi næstu 48 klst svo hægt sé að sjá ef einhver vandamál eru eða breytingar eins og t.d. á hegðun eða skynjun.
- Takið paracetamol við höfuðverk.Forðist aspirin eða bólgueyðandi lyf t.d. lyf með ibuprofeni þar sem þau geta valdið blæðingu í áverkanum.
- Neytið ekki áfengis.
- Auka virkni smám saman eftir því sem batinn kemur og einkenni hverfa. Komi einkenni fram við virkni er ráð að stoppa. Hlustaðu á líkamann.
- Óhætt er að snúa til vinnu, skóla eða íþróttaiðkunar þegar bata hefur verið náð og einkenni eru að mestu horfin.
- Forðast skal íþróttaiðkun og erfiðar æfingar í a.m.k. viku. Ef hætta er á árekstrum og höggum í íþróttum ætti að láta líða að minnsta kosti 3 vikur frá högginu áður en íþróttaiðkun hefst aftur.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leitaðu til næstu heilsugæslu ef:
- Óvissa með einkenni
- Höfuðverkur fer ekki
- Einkenni eru enn til staðar tveimur vikum eftir höfuðhöggið
- Ef óvissa er með hvenær óhætt sé að snúa aftur til vinnu eða íþróttaiðkunar.
Alltaf er hægt að hringja eða koma á heilsugæsluna og ráðfæra sig við heilbrigðisstarfsfólk ef áhyggjur eru af ástandinu.
Farið á næstu bráðamóttöku ef eitthvað af eftirfarandi er til staðar eftir höfuðhögg:
- Tímabundið meðvitundarleysi
- Minnistruflanir
- Höfuðverkur sem fer ekki
- Uppköst
- Breyting á hegðun, s.s. óeðlilegur pirringur
- Hafi einstaklingur farið í aðgerð á höfði eða er á blóðþynningarlyfi
- Áfengisneysla og/eða notkun sljóvgandi lyfja
Hringið á 112 og óskið eftir sjúkrabíl ef eitthvað af eftirfarandi er til staðar:
- Meðvitundarleysi
- Erfiðleikar með að halda sér vakandi
- Erfiðleikar með að tala, skilja, ganga eða halda jafnvægi
- Dofi eða máttleysi í einhverjum líkamshluta
- Sjóntruflanir
- Vökvi rennur úr eyrum eða nefi
- Blæðing úr eyra eða marblettir aftan við annað eða bæði eyru
- Glóðarauga án sjáanlegra áverka í kringum auga
- Krampi
Afleiðingar heilahristings
Það fer eftir alvarleika höfuðhöggsins hversu langan tíma tekur að jafna sig. Í sumum tilvikum eru höfuðhögg lífshættuleg. Venjulega tekur það frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur að ná sér eftir heilahristing. Í sumum tilvikum fá einstaklingar langvarandi einkenni af völdum heilahristings. Í vægari tilfellum er hægt að meðhöndla afleiðingar höfuðhöggs heima en í alvarlegri tilvikum er nauðsynlegt að leita til bráðamóttöku strax.
Sumir einstaklingar hafa einkenni heilahristings í nokkra mánuði.
Einkenni geta verið:
• Höfuðverkur
• Þreyta
• Erfiðleikar með minni og einbeitingu
• Ójafnvægi
• Þunglyndi, kvíði og breytingar á hegðun
Ef einkenni eru enn til staðar eftir 3 mánuði þarf að leita til heimilislæknis
Forvarnir
Það er engin örugg forvörn gegn heilahristingi en nokkrir einfaldir hlutir geta minnkað líkurnar á heilahristingi eftir höfuðhögg.
- Klæðist þeim hlífðarbúnaði sem mælt er með við íþróttaiðkun þar sem hætta er á árekstrum og höggum, s.s. hjálmum.
- Nota þann öryggisbúnað sem lög gera ráð fyrir í bílum.
- Nota hjálm þegar eitthvað er notað til að hraðinn verði meiri en líkaminn ræður við að framkvæma án hjálpartækja. Hér er meðal annars átt við mótorhjól, vespu, reiðhjól, hesta, hjólaskauta, skauta, hjólabretti, hjólaskó, hlaupahjól og skíði.
Mikilvægt er að forðast endurtekinn höfuðhögg þar sem ítrekaðir áverkar á heila geta valdið langvarandi vandamálum.