Gallsteinar

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Gallsteinar (e. gallstones) eru litlir steinar sem myndast í gallblöðrunni. Flestir eru búnir til úr kólesteróli sem frásogast úr fæðunni. Einstaklingar sem mynda gallsteina fá sjaldan einkenni vegna þeirra en líkur á fylgikvillum gallsteina eru um 2% á ári.  

Einkenni

Myndun gallsteina er einkennalaus en ef gallsteinar stífla gallrás getur það valdið miklum skyndilegum verk kallað gallkveisa (e. biliary colic). Verkurinn er oftast ofarlega hægra megin í kviðnum:

 • Kviðverkur sem varir í meira en hálftíma en gengur síðan yfir á nokkrum klukkustundum 
 • Það geta liðið vikur/mánuðir á milli verkjakasta
 • Þegar gallsteinar fara að valda einkennum eru 10-30% líkur á að einstaklingur fái aftur einkenni innan árs 

Ef gallsteinar stífla gallblöðrurásina varanlega getur gall safnast fyrir í gallblöðrunni sem getur leitt til sýkingar og gallblöðrubólgu.  

Áhættuþættir

 • Fjölskyldusaga  
 • Konur eru í meiri áhættu en karlar fram að breytingaskeiði en þá eru líkurnar milli kynjanna svipaðar  
 • Aukin áhætta hjá öllum eftir 40 ára aldur
 • Konur sem hafa eignast börn 
 • Ofþyngd 
 • Mikið þyngdartap á stuttum tíma  

Meðferð

Flest þeirra sem fá gallsteina eru einkennalaus og þá er ekki þörf á meðferð. Önnur meðferð getur verið verkjalyf og hjá takmörkuðum hópi má reyna lyfjameðferð til að leysa upp steinana. Í einstaka tilfellum er gerð skurðaðgerð þar sem gallblaðran er tekin. 

Hvenær skal leita aðstoðar?

 • Kviðverkur varir lengur en 8 klst
 • Slæmur kviðverkur sem ekki lagast við legubreytingar/hvíld 
 • Hár hiti og hrollur 
 • Gul húð eða gula í augum

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku hér

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.