Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Gallblöðrubólga

Kaflar
Útgáfudagur

Bráð gallblöðrubólga (e. cholecystitis) er þegar gallblaðran bólgnar upp og er orsökin oftast gallsteinn sem hefur stíflað gallrásina. Bráð gallblöðrubólga getur verið alvarleg án meðferðar. 

Nánar

Gallblaðran er lítið líffæri fyrir neðan lifrina. Gall er framleitt í lifrinni og safnast saman í gallblöðrunni sem seytir því síðan áfram í meltingarveginn eftir þörfum. Gallblaðran kemur því að góðum notum í líkamanum en er þó ekki lífsnauðsynleg. Ef gallblaðran veldur óþægindum getur verið þörf á að fjarlægja hana með skurðaðgerð.  

Einkenni

  • Skyndilegur verkur ofarlega hægra megin í kviðnum. Getur leitt upp í hægri öxl eða herðablað
  • Eymsli í kvið við snertingu, mest undir hægri rifjaboga
  • Verkur versnar við að draga djúpt andann, er stöðugur og hverfur ekki innan nokkurra klukkustunda

Önnur einkenni 

  • Gul húð eða gula í augum 
  • Hár hiti 
  • Minnkuð matarlyst 
  • Ógleði/uppköst  
  • Sviti 
  • Þaninn kviður 

Orsök

  • Gallsteinar eru algengasta orsökin eða í 95% tilfella. Þá lokar gallsteinn fyrir gallblöðrurásina. Gall safnast fyrir, gallblaðran þenst út og bólgnar
  • Gallblöðrubólga án gallsteina er sjaldgæf en er yfirleitt tilkomin vegna alvarlegra veikinda, sýkinga eða áverka.  

Greining

  • Sjúkrasaga
  • Skoðun á kvið 
  • Blóðprufur 
  • Ómun 

Meðferð

Meðferð á sér oftast stað inni á sjúkrastofnun hún felur í sér til dæmis

  • Föstu til að minnka álag á gallblöðruna
  • Verkjalyf
  • Sýklalyf
  • Skurðaðgerð

Hvað get ég gert?

  • Borða hollan og fjölbreyttan mat
  • Forðast fituríkan mat þar sem flestir gallsteinar eru búnir til úr kólesteróli
  • Forðast mikið þyngdartap á stuttum tíma  
  • Stunda reglubundna hreyfingu

Hvenær skal leita aðstoðar?

  • Skyndilegur og sársaukafullur verkur ofarlega í kvið sem minnkar ekki innan nokkurra klukkustunda
  • Mikill kviðverkur ásamt öðrum einkennum s.s. hiti eða gula
  • Verkur fer ekki við legubreytingar eða hvíld
  • Verkur minnkar ekki við hægðalosun/uppköst eða vindgang
  • Fyrri greining um gallsteina/gallblöðrubólgu og sömu einkenni

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku hér.