Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Fjölblöðruheilkenni

Kaflar
Útgáfudagur

Fjölblöðruheilkenni á eggjastokkum (e. Polycystic ovary syndrome, PCOS) er innkirtlasjúkdómur sem hrjáir konur á frjósemisskeiði og hefur í för með sér óreglu á hormónakerfi líkamans.

Nánar

Í hverjum tíðahring losnar egg frá eggjastokkum og fer niður í legið. Þetta ferli er kallað egglos og gerist um það bil einu sinni í mánuði. Konur með fjölblöðruheilkenni geta upplifað röskun á þessu ferli. Í stað þess að egglos sé mánaðarlegt getur því seinkað og verið óreglulegt. Blæðingar verða þar af leiðandi óreglulegar eða engar.

Vegna ójafnvægis í hormónabúskap framleiða eggjastokkarnir mörg lítil egg í stað eins stórs. Eggin sjást þá sem litlar blöðrur við ómskoðun á eggjastokkum og þaðan ber heilkennið nafn sitt, þó eru blöðrur á eggjastokkum ekki skilyrði til þess að fá greiningu á sjúkdómnum.

Einkenni

 • Óreglulegar blæðingar eða engar blæðingar
 • Aukinn hárvöxtur
 • Húðvandamál eins og bólumyndun eða aukin fitumyndun í húð
 • Einkennandi útlit á eggjastokkum við ómskoðun
 • Hárþynning á höfði
 • Þyngdaraukning

Margar konur eru einkennalausar og því talið að heilkennið sé mikið algengara en greint er. Oft getur reynst erfitt að greina sjúkdóminn hjá ungum konum þar sem einkenni sjúkdómsins eru gjarnan lík þeim einkennum sem koma fram á kynþroska aldri.

Orsakir

Orsök óreglu í hormónabúskap er óþekkt en erfðir geta haft áhrif.

Greining

 • Sjúkrasaga
 • Blóðprufur 
 • Ómskoðun

Greining samanstendur yfirleitt af því að minnsta kosti tvö af eftirfarandi einkennum eru til staðar: 

 • Óreglulegur tíðahringur
 • Ofgnótt af karlhormónum
 • Einkennandi útlit á eggjastokkum við ómskoðun, stækkun á eggjastokkum og/eða fjöldi lítilla eggbúa
Nánar

Vegna óreglu á hormónum getur komið fram í blóðprufu hækkun á insúlíni, hækkun á testósteróni og aðrar breytingar á kynhormónum.

Meðferð

 • Meðferð fer eftir einkennum og fylgikvillum en er því einstaklingsbundin
 • Í flestum tilfellum eru gefin lyf til að stilla hormónabúskap

Hvað get ég gert?

 • Hollt mataræði
 • Reglubundin hreyfing
 • Þyngdartap getur haft jákvæð áhrif á tíðni blæðinga, frjósemi og aðra fylgikvilla hjá þeim sem eru í ofþyngd
Fylgikvillar
 • Ófrjósemi 
 • Aukin áhætta á meðgöngukvillum, til dæmis hækkuðum blóðþrýstingi, meðgöngusykursýki og auknar líkur á fósturmissi á fyrstu 12 vikunum
 • Aukin áhætta á krabbameini í legslímhúð
 • Hjarta- og æðasjúkdómar t.d. háþrýstingur eða hækkun á kólesteróli
 • Kvíði og/eða þunglyndi
 • Ofþyngd 
 • Sykursýki 2
 • Þreyta

Fjölblöðruheilkenni er ein algengasta ástæða ófrjósemi hjá konum vegna ójafnvægi í hormónabúskap sem getur fylgt sjúkdóminum. Það kemur stundum ekki í ljós fyrr en konur eiga í vandræðum með að verða ófrískar. Með meðferð ná flestar konur að verða ófrískar.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef ofangreind einkenni eða fylgikvillar eru til staðar. 

Finna næstu heilsugæslu hér.