Afrifur í húðfellingum

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Afrifur í húðfellingum (e. intertrigo) eða sprungur á húð verða vegna raka og núnings á viðkvæmri húð. Í upphafi verður húðin rauð og upphleypt og ef ekkert er gert getur húðin rofnað og sprungið. Heitt og rakt loft eykur líkur á húðrofi en algeng svæði afrifa eða sprunga eru á milli táa, undir brjóstum eða húðfellingum á kvið og undan bleyjum.

Einkenni

Roði eða útbrot myndast í húðfellingu og eru yfirleitt staðbundin. Helstu einkenni eru:

  • Kláði
  • Sviði
  • Óþægindi
  • Verkur

Einkenni geta versnað hratt ef ekkert er að gert og aukast þá líkur á sveppa- eða bakteríusýkingum.

Einkennandi fyrir sýkingu í afrifum:

  • Aukin bólga
  • Aukinn roði
  • Óreglulegur roði
  • Húðrof
  • Vessar úr afrifunni
  • Blæðir úr afrifunni
  • Sýkt svæði lyktar illa

Hvað get ég gert?

Þessi ráð miða að því að halda húðinni á viðkvæmum svæðum heilli.

  • Almennt hreinlæti og halda húðinni hreinni og þurri
  • Leggja grisjur eða bómullarefni á milli húðfellinga til að draga úr núningi og auka loftun um svæðið
  • Bera vatnsfráhrindandi og græðandi krem á hreina og þurra húð en þau má nálgast í lyfjaverslunum, til dæmis:
    • A+D zink oxide
    • Penaten
    • Vaselín
    • Barnapúður
    • A+D Original Ointment
    • Bepanthen 

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslunnar ef þú heldur að um sýkingu sé að ræða. Hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöð getur metið þörf á meðferð og gefið góð ráð.

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.