Börn í dag alast upp í umhverfi sem er hlaðið tækjum og með stöðugum tækninýjungum. Með skynsamri umgengni við þessi tæki geta þau verið hluti af góðu uppeldi. Fyrstu kynni barna af snjalltækjum ættu alltaf að fara fram undir handleiðslu foreldra, forsjáraðila og/eða annarra fullorðinna.
Það er fyrst og fremst á ábyrgð foreldra hversu mikil skjánotkun er á heimilinu en skjátími getur haft neikvæð áhrif þegar hann kemur í stað jákvæðrar virkni, svo sem félagslegra samskipta, hreyfingar, nægilegs svefns og heilbrigðs lífernis. Foreldrar þurfa því að leitast við að skapa jafnvægi í lífi barna sinna og einnig að skipuleggja skjálausar stundir saman.
Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og mikilvægt að þeir hugi að eigin skjánotkun þegar þeir setja reglur um skjánotkun barna sinna.
Hér má sjá umfjöllun um þroska heilans í ungum börnum.
Skjánotkun barna eftir aldri
- Forðist allan skjátíma hjá börnum yngri en 18 mánaða. Hér er þó ekki átt við samskipti í gegnum netið við fjarstadda ættingja og vini.
- Skjárinn á aldrei að vera barnfóstra.
- Takmarka skal skjátíma, sérstaklega hjá yngstu börnunum.
- Hugaðu að þinni eigin skjánotkun sem foreldri og fyrirmynd. Börn þurfa athygli foreldra sinna.
- Veldu vandað og þroskandi efni á móðurmáli barnsins og horfðu á það með barninu.
- Kynntu þér leiki og smáforrit sem barnið notar til að fullvissa þig um að þau hæfi aldri og þroska barnsins.
- Veldu verkefni og leiki sem bjóða upp á hreyfingu.
- Ræddu við barnið um það sem það sér og upplifir, m.a. til að örva málþroska.
- Gættu þess að hafa sjónvarpið ekki stöðugt í gangi, það grípur athygli og hefur neikvæð áhrif á eðlilega hreyfiþörf barnsins.
- Ekki nota skjátæki til að róa barnið. Barnið þarf að læra að stjórna tilfinningum sínum.
- Skipulegðu reglulegar skjálausar stundir með barninu þínu.
- Skjárinn á aldrei að vera barnfóstra.
- Stuðlaðu að fjölbreyttri skjánotkun og lærdómstækifærum.
- Foreldrar eru fyrirmyndir og þurfa að huga að sinni eigin skjánotkun. Börnin fylgjast með og læra af þeim.
- Sýndu skjánotkun barnsins áhuga og ræddu við barnið um hana.
- Virtu aldurstakmörk leikja og samfélagsmiðla.
- Styrktu jákvæða skjánotkun með því að benda barninu á áhugavert og lærdómsríkt skjáefni og hrósaðu því fyrir fyrir uppbyggilega og hófstillta notkun skjátækja.
- Kenndu barninu að ráðfæra sig við þig áður en það gefur upp persónuupplýsingar eins og nafn, síma, netfang, heimilisfang, lykilorð, skóla eða myndir.
- Gættu þess að hafa sjónvarpið eða önnur tæki ekki stöðugt í gangi, það truflar góð samskipti foreldra og barna.
- Tryggja þarf skjálausar samverustundir fjölskyldu eins og t.d. við matarborðið.
- Tryggja þarf börnum nægan svefn en börn á skólaaldri þurfa almennt um 10 klst. svefn. Góð regla er að hafa engin skjátæki í svefnherbergjum barna.
Mikilvægt er að foreldrar og unglingar/ungmenni eigi samtal um skjánotkun og komi sér saman um reglur.
Hver og einn þarf að skoða hjá sjálfum sér eigin skjánotkun og finna jafnvægi.
Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna þegar kemur að skjánotkun og þurfa að setja gott fordæmi.
Unglingar þurfa 8-10 klukkustunda svefn á sólarhring og því þarf að tryggja að skjánotkun hafi ekki neikvæð áhrif á svefn eða aðrar grunnþarfir eins og hreyfingu, hreinlæti eða næringu.
Stillið tækin þannig að stöðugar tilkynningar berist ekki frá smáforritum til að minnka áreiti.
Hér á eftir koma umræðupunktar fyrir foreldra fyrir samtal við ungmenni um skjánotkun og til að móta reglur eftir:
- Ef þú fengir að stjórna skjánotkun á heimilinu, hvernig væri henni háttað ?
- Finnst þér þú, foreldrar þínir eða vinir vera of mikið í símanum, spjaldtölvunni eða horfa mikið á sjónvarp?
- Hvað ertu að skoða í símanum eða tölvunni og hvenær ertu að skoða það? – Ertu að skoða þetta af því að þér leiðist eða ertu að leita að einhverju sérstöku?
- Hvernig líður þér eftir að hafa verið lengi við skjáinn?
- Ertu að skoða símann á þínum forsendum eða vegna tilkynninga eða skilaboða?
- Tekur síminn mikinn tíma frá þér sem þú gætir notað í annað?
- Hvernig finnst þér að hafa símann alltaf á þér?
- Hversu mikill tími fer í að skoða efni sem gagnast þér og hversu mikill tími fer í annað?
Áhyggjur af netnotkuninni?
Ef þú hefur áhyggjur af skjánotkun barnsins þíns getur þú skoðað meðfylgjandi lista yfir atriði sem líta ber til. Þetta eru atriði sem foreldrar geta haft áhrif á og aðstoðað barnið við að setja sér mörk.
- Sinnir barnið skóla og heimanámi á viðunandi hátt ?
- Hittir barnið vini utan skóla (ekki bara á netinu)?
- Er barnið virkt í íþróttum eða öðrum tómstundum?
- Fær barnið nægan svefn, næringu og hreyfingu?
- Er barnið sátt við að settar séu skorður á skjánotkun þess?
- Hefur barnið í raun ánægju og gagn af notkun tækjanna?
- Veldur notkun tækjanna kvíða, depurð eða skapsveiflum?
- Felur barnið skjánotkunina?
- Veist þú hvað barnið er að gera í tölvunni/símanum?
Einnig getur þú skoðað kaflann um tölvuleikjaröskun.
Hvert getur þú leitað til að fá aðstoð?
Ef þú telur skjánotkun barns vera komna út fyrir eðlileg mörk getur þú leitað til heilsugæslunnar þinnar eftir aðstoð.
Víða um land halda heilsugæslustöðvar og sveitarfélög uppeldisnámskeið sem Þroska- og hegðunarstöð hefur hannað og heldur utan um. Það er tilvalið að kynna sér hvort námskeið er í boði í þínu nágrenni. Hér má sjá umfjöllun um námskeiðið Uppeldi sem virkar - færni til framtíðar.