Þreyta er algeng á meðgöngu, aðallega fyrstu vikurnar og svo aftur þær síðustu. Orsökin er ekki þekkt en trúlega stafar hún af aukinni hormónaframleiðslu og aðlögun líkamans að þeim miklu breytingum sem fylgja þunguninni og örum vexti barnsins.
Mikil þreyta getur dregið úr félagslegri virkni og haft mikil áhrif á daglegt líf og störf. Stundum þarf að fara fyrr í háttinn en venjulega og úthaldið er ekki eins og áður var. Þörf fyrir hvíld yfir daginn getur gert vart við sig.
Í lok meðgöngu verður oft breyting á svefnmynstri vegna hinna miklu líkamlegu breytinga sem hafa átt sér stað. Kúlan er orðin það stór að erfitt getur verið að láta fara vel um sig. Fyrirvaraverkir/samdrættir, ásamt tíðum salernisferðum geta truflað svefninn og erfitt reynist að hvílast nægilega á nóttunni. Draumsvefn og andvökur geta einnig haft áhrif og truflað svefninn.
Hvað getur þú gert?
- Reyndu að skapa jafnvægi milli hvíldar og athafna.
- Markviss slökun er áhrifarík til að auka vellíðan og draga úr óþægindum, álagi og streitu.
- Nægur svefn er mikilvægur. Hann getur orðið óreglulegur t.d. við álag, streitu og kvíða. Oftast duga almenn ráð við svefnvandamálum.