Að æfa fastandi

Margir velta því fyrir sér hvort það beri meiri árangur að æfa fastandi eða áður en morgunverður er borðaður. Fyrir flesta sem borða reglulega og hæfilega mikið ætti að vera óhætt að æfa fastandi á morgnana svo lengi sem það kemur ekki niður á almennri líðan. Það gæti þó reynst erfitt fyrir suma að stunda æfingar sem krefjast mikillar áreynslu þar sem kolvetnabirgðir líkamans og blóðsykur gæti verið lágur fyrst á morgnana.

Margt íþróttafólk kýs að taka rólegar æfingar fyrst á morgnana en æfingar sem krefjast meiri orkunotkunar síðar yfir daginn þegar kolvetnabirgðir eru meiri eftir máltíðir dagsins.

Hlutfallslega meiri fitu er brennt en kolvetnum þegar ákefð er lítil og því má segja að fitubrennsla sé meiri við minni ákefð.

Heildarnotkun hitaeininga skiptir þó sköpum ef markmiðið er þyngdartap og því borgar það sig að æfa oftar á meira álagi í ákveðinn tíma í stað þess að einblína eingöngu á rólegri æfingar af sömu tímalengd. Fjölbreytt hreyfing á mismiklu álagi ásamt styrktaræfingum ætti að vera hluti af heildarþjálfun einstaklinga sem vilja ná bæði góðum árangri og stuðla að þyngdartapi. Mörgum hentar vel að byrja daginn á litlum morgunbita til að rjúfa næturföstuna þótt ekki sé pláss fyrir stóra máltíð fyrir morgunæfingar.

Þessi grein var skrifuð þann 09. apríl 2018

Síðast uppfært 05. september 2018