Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Næring verðandi tvíburamæðra

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Góð næring er mikilvæg fyrir heilsu verðandi tvíburamóður og ófæddra barna hennar. Öll næring sem konan fær er einnig næring fyrir börnin og hefur áhrif á þroska og vöxt þeirra. Næringin berst með blóðrás konunnar til fylgjunnar og þaðan til barnanna.

Þörfin fyrir næringu og orku eykst talsvert. Konur sem ganga með tvíbura þurfa um 2700-4000 kaloríur á dag. Dagleg orkuþörf er um 300 kkal meiri en mæðra sem ganga með einbura og um 600 kkal meiri en kvenna sem ekki eru barnshafandi.

Mikilvægt er að velja holla, næringarríka og fjölbreytta fæðu og borða reglulega, helst 3-5 máltíðir á dag. 

Prótein

Prótein er mikilvægt fyrir uppbyggingu vefja fóstursins og því ættu konur sem ganga með tvíbura að borða fæðu sem er rík af próteinum. Próteinrík matvæli eru t.d.:

  • Magurt kjöt
  • Fiskur
  • Mjólkurvörur
  • Baunir
  • Hnetur
  • Egg
Járn

Þörf fyrir járn eykst verulega, einkum eftir 12. viku meðgöngunnar. Þá er mælt með að konur sem ganga með tvíbura taki inn 60 mg af járni. Þörf fyrir önnur steinefni, t.d. kalk, virðist einnig vera meiri á tvíburameðgöngu en hana ætti að vera hægt að uppfylla með hæfilegri neyslu á mjólk og mjólkurvörum.

Joð

Joð (Iodine) er mikilvægt næringarefni. Aukin þörf er fyrir joð á meðgöngu en það er mikilvægt fyrir eðlilegan þorska fósturs. Helstu joðgjafar fæðunnar eru fiskur (fyrst og fremst ýsa en einnig þorskur), mjólk og mjólkurvörur. Barnshafandi konur eru hvattar til að borða fisk tvisvar til þrisvar sinnum í viku og tvo skammta af mjólk eða mjólkurvörum daglega. 

Ómega-3

Það er mikilvægt fyrir barnshafandi konur, eins og aðra, að borða holla fitu til að uppfylla þörfina fyrir mismunandi fitusýrur, þar á meðal ómega-3. Á meðgöngu er ómega-3 fitusýran DHA sérstaklega mikilvæg fyrir þroska miðtaugakerfis fóstursins. Ein máltíð af feitum fiski (t.d. laxi, bleikju, síld og makríl) auk tveggja máltíða af mögrum fiski (t.d. ýsu og þorski) á viku fer langleiðina með að uppfylla þörfina fyrir DHA sem er 200 mg á dag. Krakkalýsi og þorskalýsi eru einnig góðir DHA gjafar. Taki barnshafandi konur lýsi er þeim ráðlagt að takmarka neysluna við eina teskeið (5 ml) á dag.

A og D-vítamín

Almennt er mælt með að konur sem ganga með tvíbura taki inn hefðbundin fjölvítamín. Ef lýsi er tekið inn samhliða er æskilegt að velja fjölvítamín sem ekki inniheldur A og D vítamín.

D-vítamín er fituleysanlegt vítamín og getur safnast upp í líkamanum. Þess vegna eru gefin út viðmið um efri mörk. Skammta umfram efri mörk ætti aðeins að taka í samráði við lækni. Sjá nánari upplýsingar um D-vítamín á vefsíðu Embættis landlæknis.

Þyngdaraukning tvíburaðmæðra

Eftirfarandi tafla sýnir þyngdaraukningu tvíburamæðra (kg/viku) sem stuðlar að eðlilegri fæðingarþyngd tvíburabarna og minnstum fylgikvillum á meðgöngu og í fæðingu.

Æskileg þyngdaraukning tvíburamæðra á viku er reiknuð eftir líkamsþyngdarstuðli:

Líkamsþyngdarstuðull (BMI)   Þyngdaraukning á meðgöngu  
Of grönn (< 18,5) 21,5 - 27,5 kg
Í kjörþyngd (18,6-25) 17 - 24,5 kg
Of þung (25,1-30) 16,5 - 20,5 kg
Offita (> 30,1)       13 - 17,5 kg

 

Ljósmóðir í síma 513-1700 alla virka daga milli 10-12