Næring verðandi tvíburamæðra

Góð næring er mikilvæg fyrir heilsu verðandi tvíburamóður og ófæddra barna hennar. Öll næring sem konan fær er einnig næring fyrir börnin og hefur áhrif á þroska og vöxt þeirra. Næringin berst með blóðrás konunnar til fylgjunnar og þaðan til barnanna.

Þörfin fyrir næringu og orku eykst talsvert. Konur sem ganga með tvíbura þurfa um 2700-4000 kaloríur á dag. Dagleg orkuþörf er um 300 kkal meiri en mæðra sem ganga með einbura og um 600 kkal meiri en kvenna sem ekki eru barnshafandi.

Mikilvægt er að velja holla, næringarríka og fjölbreytta fæðu og borða reglulega, helst 3-5 máltíðir á dag. Prótein er mikilvægt fyrir uppbyggingu vefja fóstursins og því ættu konur sem ganga með tvíbura að borða fæðu sem er rík af próteinum.
Próteinrík matvæli eru t.d. magurt kjöt, fiskur, mjólkurvörur, baunir, hnetur og egg. Þörfin fyrir lífsnauðsynlegar fitusýrur eykst á meðgöngu tvíbura. Þessar fitusýrur eru m.a. nauðsynlegar við myndun taugakerfis. Þær er m.a. að finna í olíum eins og sólblómaolíu og kornolíu og í matvælum eins og eggjarauðu, kjöti og feitum fiski. Mælt er með að taka 1 tsk. af þorskalýsi daglega á meðgöngu.

Þörf fyrir járn eykst verulega, einkum eftir 12. viku meðgöngunnar. Þá er mælt með að konur sem ganga með tvíbura taki inn 60 mg af járni. Þörf fyrir önnur steinefni, t.d. kalk, virðist einnig vera meiri á tvíburameðgöngu en hana ætti að vera hægt að uppfylla með hæfilegri neyslu á mjólk og mjólkurvörum.

Almennt er mælt með að konur sem ganga með tvíbura taki inn hefðbundin fjölvítamín. Ef lýsi er tekið inn samhliða er æskilegt að velja fjölvítamín sem ekki inniheldur A og D vítamín.

Eftirfarandi tafla sýnir þyngdaraukningu tvíburamæðra (kg/viku) sem stuðlar að eðlilegri fæðingarþyngd tvíburabarna og minnstum fylgikvillum á meðgöngu og í fæðingu.

Æskileg þyngdaraukning tvíburamæðra á viku er reiknuð eftir líkamsþyngdarstuðli:

Líkamsþyngdarstuðull (BMI)   Þyngdaraukning á meðgöngu  
Of grönn (< 18,5) 21,5 - 27,5 kg
Í kjörþyngd (18,6-25) 17 - 24,5 kg
Of þung (25,1-30) 16,5 - 20,5 kg
Offita (> 30,1)       13 - 17,5 kg

Þessi grein var skrifuð þann 12. júní 2017

Síðast uppfært 17. maí 2018