það er gagnlegt að þekkja blóðþrýstinginn sinn og fylgjast með honum relgulega.
Hár blóðþrýstingur getur valdið alvarlegum veikindum. Þú getur haft áhrif á blóðþrýstinginn þinn meðal annars með hreyfingu og hollum mat.
Hár blóðþrýstingur er oft einkennalaus í langan tíma og getur leitt til alvarlegra veikinda eins og hjarta áfalls eðs heilaslags ef hann er ekki meðhöndlaður.
Lár blóðþrýstingur er venjulega ekki vandamál en vera kann að fólk með lágan blóðþrýsting finni til svima við vissar aðstæður til dæmis að standa hratt upp úr rúmi eða stól eða fara upp úr heitu baði.
Blóðþrýstingur er breytilegur yfir daginn og ýmislegt í daglegu lífi hefur áhrif á hann frá einni stund til þeirrar næstu. Þetta er eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af.
- Mörg apótek bjóða blóðþrýstingsmælingu
- Hægt er að panta tíma hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöð til að fá mælingu
- Sumir vinnustaðir bjóða starfsfólki mælingu. Athugaðu á þínum vinnustað
- Blóðþrýstingsmælar er seldir viða til notkunar í heimahúsum
Blóðþrýstingur er mældur í millimetrum kvikasilfurs mmHg. Hann er gefinn upp í tveim tölum til dæmis 120/80 mmHg.
Efri mörkin (fyrri talan) sýna þrýstinginn þegar hjartað dregst saman og dælir blóði um æðar líkamans.
Neðri mörkin (seinni talan) sýna þrýstinginn þegar hjartað er í hvíld á milli slaga
Þú getur slegið gildin þín inn í reiknivélina til að fá mat á þeim
Hár blóðþrýstingur er algengur og aukast líkur á honum með hækkandi aldri. Einkenni háþrýstings eru oft engin svo hann fer auðveldlega fram hjá fólki.
Eftirfarandi eykur líkur á háþrýstingi:
- Hækkandi aldur
- Háþrýstingur í ættinni
- Óhollur matur, sér í lagi matur sem inniheldur mikið salt. Ráðlagt mataræði.
- Ofþyngd
- Reykingar - viltu hætta að reykja?
- Mikil áfengisneysla - viltu draga úr eða hætta áfengisneyslu?
- Streita og álag í langan tíma
Notaðu mæli með manséttu sem fer utanum upphandlegg.
Undirbúningur mælingar
- Vera í stuttermabol eða flík með víða ermi. Ekkert má þrýsta á handlegginn fyri ofan manséttuna.
- Láta líða að minnsta kosti 30 mínútur frá því að þú hefur:
- Borðað
- Drukkið drykki sem innihalda koffín
- Tekið æfingu eða röskan göngutúr
- Setjast niður þar sem þú ætlar að mæla blóðþrýstinginn. Best er að velja þægilegan stól með baki og stuðningi við handleggi. Sitja í hvíld í 5 mínútur áður en mælingin er gerð.
- Notaðu alltaf sama handlegg.
- Mæla blóðþrýstinginn alltaf á sama tíma dags.
- Streita og áhyggjur geta hækkað blóðþrýstinginn tímabundið og því er best að reyna að slaka á og hugsa jákvætt á meðan þú mælir blóðþrýsting.
Mælingin
- Fylgdu leiðbeiningum um notkun mælisins.
- Komdu manséttunni fyrir á upphandlegg rétt ofan við olnboga.
- Á meðan mælingin er gerð þarf að sitja í rólegheitum, ekki tala, hreyfa sig eða hlægja og ekki sitja með krosslagða fætur.
- Taka tvær til þrjár mælingar. Ef fyrsta mælingin er mun hærri en sú næsta skaltu taka þá þriðju. Meðaltal tveggja mælinga er gott að skrá hjá sér.
- Óþarfi er að hafa áhyggjur þó mælingar séu ekki alltaf eins eða stök mæling sé há, þetta getur verið eðlilegt og ráðist af ýmsum umhverfisþáttum.
Eftir mælingu
Haltu skrá yfir mælingarnar þínar. Skráðu þær eins og þær birtast á mælinum og skráðu dagssetningu og tímasetningu með. Þú getur haldið utan um þetta á mínum síðum á heilsuvera.is, í skjali í tölvunni þinni eða á pappír.
Hafir þú áhyggjur af blóðþrýstingnum er gott að ráðfæra sig lækni eða hjúkrunarfræðing
Í fyrstu þegar þú ert að byrja að nota blóðþrýstingsmæli heima er gott að taka blóðþrýstinginn oft bæði til þess að læra vel á mælinn og koma ferlinu upp í vana en líka til að finna út hver gildin þín eru.
Til þess að læra á gildin sín er gott að taka blóðþrýstinginn kvölds og morgna í eina viku og fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum um hvernig á að framkvæma mælinguna.
Taktu tvær til þrjár mælingar í hvert sinn og skráðu hjá þér gildin þín.
Eftir eina viku ættir þú að hafa nokkuð glögga mynd af blóðþrýstingnum þínum og handtökin við mælinguna eru orðin örugg.
Hversu oft er gott að fylgjast með blóðþrýstingi fer eftir heilsufari.
- Hraust fólk getur mælt þrýstinginn einu sinni í mánuði.
- Ef þú ert í meðferð vegna blóðþrýstings eða annars sjúkdóms getur læknirinn þinn ráðlagt um hversu oft þú ættir að mæla blóðþrýstinginn.
- Ef þú átt náinn ættinga með háþrýsting ættir þú að ráðfæra þig við heilbrigðisstarfsmann um tíðni mælinga
Gagnlegt er að halda skrá yfir allar mælingar þínar. Það hjálpar heilbrigðisstarfsfólki að fá góða mynd af stöðunni.
Þú getur slegið tölurnar þínar inn í reiknivélina til að meta gildin þín.