Á þessum aldri getur barnið sjálft valdið slysi ef þess er ekki vel gætt. Það er því mikilvægt að foreldrar fylgist ávallt vel með barninu og tryggi að umhverfi þess sé öruggt.
Fall
Slys af völdum falls eykst til muna á þessum aldri.
- Notið alltaf beisli í matarstól, strax frá fyrsti degi. Festið stólinn við borðið til að koma í veg fyrir að hann sporðreisist.
- Lyftið aldrei barni upp á húsgagn og skiljið eftir eitt því hætta er á falli.
- Hafið hliðar rúms í hæstu stillingu og rúmbotn í þeirri lægstu. Barnið gæti farið að klifra úr rúminu.
- Ekki er mælt með notkun göngugrinda. Barn í göngugrind er í meiri hættu að slasa sig þar sem þau geta náð í hluti sem þau annars myndu ekki ná í.
- Ekki er mælt með notkun hoppuróla. Börn hafa slasast við að detta úr þeim.
- Öryggishlið ættu að vera bæði við efra og neðra stigaop. Hafið hliðið alltaf lokað.
- Hafið ekki barnarúm við glugga.
- Setjið öryggislæsingar á alla glugga.
- Bil milli rimla í rúmi, í stiga og svalahandriðum má ekki vera meira en 6 cm.
Bruni
- Hafið barnið á öruggum stað meðan verið er að elda.
- Drekkið aldrei heita drykki með barn í fanginu.
- Hafið logandi kerti, kveikjara og eldspýtur þar sem börn ná ekki til.
- Gætið þess að lampar og lampasnúrur séu þannig að barn nái ekki til þeirra.
- Notið ekki straujárn á meðan barnið er nálægt. Látið straujárnið kólna þar sem barnið nær ekki til.
- Látið ekki snúrur raftækja hanga niður af borðum. Styttið þær með snúrustytti.
- Miðstöðvarofnar geta hitnað hættulega mikið. Gætið þess að barn snerti ekki heita ofna.
- Notið aftari hellur á eldavél eða snúið handföngum og sköftum að vegg, eða notið öryggishlíf á eldavélina.
- Bakaraofnar geta hitnað mikið að utan. Setjið öryggishlíf og tryggið að barn geti ekki opnað ofninn.
- Verjið barnið fyrir sólinni. Notið sólarvörn sérstaklega ætlaða ungum börnum. Gætið þess að börn séu ekki útsett fyrir mikilli sól nema örstutta stund í einu.
Köfnun
- Notið léttar sængur og engan kodda fyrsta árið.
- Verið hjá barninu á meðan það er að borða eða drekka.
- Fjarlægið smáhluti sem eru hættulegir fyrir barnið.
- Fylgist með eldri börnum og kennið þeim að setja ekkert í munn ung- og smábarna og láta þau ekki hafa smáhluti eða leikföng sem innihalda smáhluti.
- Blöðrur henta ekki börnum á þessum aldri. Geymið plastumbúðir og poka þar sem börn ná ekki til.
- Verið viss um að föt og skartgripir þrengi ekki á hálsi barnsins. Fjarlægið reimar úr fatnaði.
- Styttið gardínusnúrur eða hengið upp svo börn nái ekki til.
- Setið ekki barnarúm eða rúm við glugga þar sem gardínusnúrur hanga.
Drukknun
- Barn á þessum aldri getur drukknað í 2-5 cm djúpu vatni.
- Látið barn aldrei leika sér eitt nálægt pollum eða vatni.
- Víkið aldrei frá barni í baði, ekki eitt augnablik.
- Baðsæti eru ekki öryggisbúnaður. Aldrei skilja barn eftir í slíku sæti eitt augnablik.
- Tæmið alltaf vaðlaugar og fötur eftir notkun.
- Setjið alltaf öryggislok yfir heitan pott strax eftir notkun.
- Börn undir 12 ára aldri hafa ekki þroska til að bera þá ábyrgð að gæta kornabarns í baði.
Útivera
- Fylgist reglulega með barninu meðan á útisvefni stendur. Hafið barnið alltaf í beisli í vagninum. Ekki er mælt með því að börn sofi úti í frosti eða roki.
- Notið hlífðarnet fyrir vagninn til að hindra að kettir og skordýr komist að barninu.
- Skiljið barn aldrei eftir eitt úti í garði eða á svölum og látið barn aldrei leika sér eitt í sandkassa en þau geta kafnað í sandi.
- Setjið aldrei barn í vöruhluta innkaupakerru.
- Ekki má reiða barn á hjóli fyrr en það hefur náð 9 mánaða aldri. Klæðið barnið vel og notið viðurkenndan ungbarnahjálm.
Barnabílstóll
- Barn yngra en eins árs má ekki snúa í akstursstefnu.
- Best er fyrir barn að snúa baki í akstursstefnu til 3 ára aldurs.
- Kannið ávallt áður en stóllinn er keyptur að hann passi í þá bíla sem á að nota hann í.