Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Slysavarnir 1-3 ára

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Börn á þessum aldri geta sjálf valdið slysum. Það er því mikilvægt að foreldrar fylgist ávallt vel með barninu og tryggi að umhverfi þess sé öruggt.

Fall
  • Gott er að kenna börnum að fara upp og niður stiga þegar aldur og þroski þess leyfir. Best er að þau fari aftur á bak áður en þau geta farið að ganga sjálf niður um 2 ára aldur.
  • Öryggislæsingar ættu að vera á öllum gluggum til að tryggja að glugginn opnist ekki meira en 9 cm. Þetta á einnig við um bil milli rimla í rúmi og í stiga- og svalahandriðum.
  • Börn ættu aldrei að standa í eða hanga utan á innkaupakerru. Það á einungis að sitja í þar til gerðu sæti og aldrei að vera í vöruhluta kerrunnar. Venjum barnið á að nota ávallt beisli til að festa það við sætið. Athugið að þegar barnið hefur náð 15 kg má það ekki lengur sitja í sætinu.
Bruni
  • Gæta ætti þess að barnið togi ekki í matarílát á borði sem innihalda heitan mat eða vökva.
  • Betra er að nota aftari hellur á eldavél eða snúið handföngum og sköftum að vegg, eða notið öryggishlíf á eldavélina.
  • Hitastýrð blöndunartæki í baðkari/sturtu og í vöskum eru nauðsynleg á heimilum þar sem börn eru.
  • Logandi kerti, kveikjarar og eldspýtur ættu að vera þar sem börn ná ekki til.
Köfnun
  • Brýna ætti fyrir barni að sitja kyrrt á meðan það borðar.
  • Börn ættu ekki að hlaupa um með mat í munninum.
  • Óæskilegt er að börn borði í bíl.
  • Fjarlægja ætti smáhluti sem eru hættulegir fyrir barnið.
  • Ekki er ráðagt að gefa börnum hnetur og annað sem getur auðveldlega staðið í þeim.
  • Fylgjast þarf vel með barni í klifurleikjum. Gæta þarf þess að hálsmál, hettur eða reimar festist ekki í leiktækjum.
  • Börn ættu ekki að leika sér með snúrur, bönd og hangandi lykkjur. Best er að fjarlægja reimar og bönd úr fatnaði.
  • Gott er að athuga hvort að hettur á yfirhöfnum séu festar með smellum eða geti losnað auðveldlega frá ef þær festast í tækjum.
Skurðir og mar
  • Gott er að setja fingravini (klemmuvarnir) á hurðir til að koma í veg fyrir klemmuslys.
  • Hillusamstæður, fataskápa, kommóður og tækjaskápar ættu að vera föst við vegg. Ef barn klifrar í þessum húsgögnum geta þau fallið yfir þau.
  • Hættulegir hlutir, þungir og beittir, ættu að vera geymdir þar sem börn ná ekki til.
  • Setjið öryggisgler eða öryggisfilmu á gler í hurðum, og borðum sem er í hæð barnsins.
  • Gler í hurðum og gluggum sem eru í hæð barnsins ættu að vera úr öryggisgleri eða vera með öryggisfilmu.
Drukknun
  • Barn á þessum aldri getur drukknað í 2-5 cm djúpu vatni.
  • Aldrei ætti að víkja frá börnum sem leika sér í vatni.
  • Ekki er öruggt að treysta eingöngu á sundkennslubúnað, s.s. armakúta eða sundjakka. Einnig þarf að fylgjast vel með barninu.
  • Góður vani er að tæma alltaf vaðlaugar og fötur eftir notkun.
  • Börn ættiu aldrei að leika sér ein í setlaug (heitum potti) en setja þarf alltaf öryggislok yfir hana strax eftir notkun.
  • Börn ættu aldrei að leika sér ein nálægt pollum eða vatni.
Eitranir
  • Lyf og önnur slík efni ættu að vera geymd í læstum hirslum þar sem börn ná ekki til.
  • Gott er að geyma öll efni í upphaflegum umbúðum til að fyrirbyggja misskilning.
  • Lyf ættu ekki að vera geymd í handtöskum eða í náttborðinu.
  • Ef einhverjar plöntur á heimilinu eða í garðinum eru eitraðar þarf að tryggja að börn komist ekki í þær.
  • Númer Neyðarlínunnar 112 ætti að vera við öll símtæki á heimilinu.
  • Ef barnið verður fyrir eitrun hringið strax í 112 eða í Eitrunarmiðstöð LSH: 543-2222
Útivera
  • Nota ætti ávallt beisli á barnið í barnavagninum eða kerrunni.
  • Kanna þarf vel hvort að barnavagninn eða kerran sé stöðug og með góðum hemlum. Einnig setja endurskinsmerki á vagninn og kerruna.
  • Barnið ætti alltaf að leiða eða nota úlnliðsbeisli.
  • Fylgjast ætti alltaf með börnum í leik og gæta þess að leikumhverfi þeirra sé öruggt.
  • Best er að láta barnið alltaf ganga sem lengst frá götunni, ekki við gangstéttarbrúnina.
  • Gott er að kenna barninu einföld atriði varðandi umferðarreglur meðan þið eruð á gangi.
  • Öruggast er að nota góðan og traustan búnað þegar hjólað er með barn. Barnið ætti að vera vel klætt og með reiðhjólahjálm.
  • Ef barnið notar reiðhjólahjálm á þríhjóli eða sparkhjóli þarf að fjarlægja hjálminn áður en barnið hefur leik í leiktækjum
Öryggisbúnaður í bíl
  • Ef barnið er orðið of langt fyrir barnabílstól númer tvö, hugið þá að því að kaupa sessu með baki sem er næsti öryggisbúnaður sem barnið þarf að nota.
  • Athugið að aldur og þyngd segja ekki til um hámarksnotkun stólsins.
Barn í matarstól
Öryggi á heimilinu
Öryggi í baði

Upplýsingar um félagsleg réttindi foreldra/forráðamanna barna við slys eða skammvinn veikindi má finna hér.