Börn á þessum aldri geta sjálf valdið slysum. Það er því mikilvægt að foreldrar fylgist ávallt vel með barninu og tryggi að umhverfi þess sé öruggt.
Fall
- Kennið barninu að fara upp og niður stiga þegar aldur og þroski barnsins leyfir.
- Setjið öryggislæsingar á alla glugga sem tryggja að glugginn opnist ekki meira en 9 cm. Þetta á einnig við um bil milli rimla í rúmi og í stiga- og svalahandriðum.
- Leyfið barni aldrei að standa í eða hanga utan á innkaupakerru. Það á einungis að sitja í þar til gerðu sæti og aldrei að vera í vöruhluta kerrunnar. Notið ávallt beisli til að festa barnið við sætið.
Bruni
- Gætið þess að barnið togi ekki í matarílát á borði sem innihalda heitan mat eða vökva.
- Notið aftari hellur á eldavél eða snúið handföngum og sköftum að vegg, eða notið öryggishlíf á eldavélina.
- Hitastýrð blöndunartæki í baðkari/sturtu og í vöskum eru nauðsynleg á heimilum þar sem börn eru.
- Hafið logandi kerti, kveikjara og eldspýtur þar sem barn nær ekki til.
Köfnun
- Brýnið fyrir barni að sitja kyrrt á meðan það borðar.
- Leyfið því ekki að hlaupa um með mat í munninum.
- Ekki er æskilegt að börn borði í bíl.
- Fjarlægið smáhluti sem eru hættulegir fyrir barnið.
- Gefið börnum ekki hnetur og annað sem getur auðveldlega staðið í þeim.
- Fylgist vel með barninu í klifurleikjum. Gætið að því að hálsmál, hettur eða reimar festist ekki í leiktækjum.
- Gætið að því að barnið leiki sér ekki með snúrur, bönd og hangandi lykkjur. Fjarlægið reimar og bönd úr fatnaði.
Skurðir og mar
- Setjið fingravini á hurðir til að koma í veg fyrir klemmuslys.
- Festið hillusamstæður, fataskápa, kommóður við vegg. Ef barn klifrar í þessum húsgögnum geta þau fallið yfir þau.
- Geymið hættulega hluti, þunga og beitta, þar sem barnið nær ekki til.
- Setjið öryggisgler eða öryggisfilmu á gler í hurðum, og borðum sem er í hæð barnsins.
Drukknun
- Barn á þessum aldri getur drukknað í 2-5 cm djúpu vatni.
- Fylgist vel með börnum ef þau fá að leika sér í vatni. Víkið aldrei frá þeim.
- Treystið ekki eingöngu á sundkennslubúnað, s.s. armakúta eða sundjakka. Fylgist alltaf vel með barninu.
- Tæmið alltaf vaðlaugar og fötur eftir notkun.
- Látið barn aldrei leika sér eitt í setlaug (heitum potti) og setjið alltaf öryggislok yfir hana strax eftir notkun.
- Látið barn aldrei leika sér eitt nálægt pollum eða vatni.
Eitranir
- Geymið efni og lyf í læstum hirslum þar sem börn ná ekki til.
- Geymið öll efni í upphaflegum umbúðum til að fyrirbyggja misskilning.
- Geymið ekki lyf í handtöskum eða í náttborðinu.
- Kannið hvort plöntur á heimilinu og í garðinum séu eitraðar. Tryggið að börn komist ekki í þær.
- Hafið númer Neyðarlínunnar 112 við öll símtæki á heimilinu.
- Eitrunarmiðstöð LSH: 543-2222
Útivera
- Kannið vel að barnavagninn eða kerran sé stöðug og með góðum hemlum. Setjið endurskinsmerki á vagninn og kerruna.
- Leiðið barnið alltaf eða notið úlnliðsbeisli.
- Fylgist alltaf með börnum að leik. Gætið þess að leikumhverfi þeirra sé öruggt.
- Látið barn alltaf ganga sem lengst frá götunni, ekki við gangstéttarbrúnina.
- Kennið barninu einföld atriði varðandi umferðarreglur meðan þið eruð á gangi.
- Notið góðan og traustan búnað þegar hjólað er með barn. Klæðið barn vel og notið reiðhjólahjálm.
Öryggisbúnaður í bíl
Ef barnið er að verða vaxið upp úr barnabílstól númer tvö, hugið þá að því að kaupa sessu með baki sem er næsti öryggisbúnaður sem barnið þarf að nota.