Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Matvæli og hindrun í öndunarvegi barna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Flest börn geta farið að borða sjálf undir eftirliti og með aðstoð við 6 mánaða aldur. Við það læra þau að tína upp í sig smábita með fingrunum og æfa sig í að tyggja matinn þó þau séu ekki komin með tennur.

Þau beita gómnum til að tyggja en síðan koma tennurnar smámsaman og þau fara að ná góðri færni i að tyggja matinn sinn betur. Þar sem yngri börn beita mest framtönnunum þegar þau tyggja mat þá er maturinn oft illa tugginn og aukin hætta á að það standi þeim. Hér má sjá ráðleggingar um mataræði barna eftir aldri.

Hegðun á matmálstíma

Hegðun barna í kringum matmálstíma er mismunandi en sum börn troða miklum mat upp í sig. Þetta getur skapað hættu og aukið líkur á að það standi í þeim. Því þarf að kenna þeim að tyggja og kyngja litlum bitum í senn. Þrátt fyrir að það geti gengið misvel ættu þau að læra þetta fyrir rest.

Kenna þarf börnum að sitja kyrr þegar þau matast. Börn eru mjög dettinn fyrstu árin þar sem þau eru að þróa jafnvægið sitt og því aukin hætta á að standi í þeim ef þau detta með mat í munninum. 

Það er ekki góður kostur að láta barn matast í bíl þar sem erfitt getur reynst að fylgjast með barninu ef það stendur í því. Öruggast er að gefa þeim að borða áður en lagt er af stað.

Fæðutegundir sem eiga til að standa í börnum

Sumar fæðutegundir eru líklegri til að standa í börnum en aðrar. Fylgjast þarf vel með börnum yngri en 4 ára ef þau borða eftirfarandi fæðu.

Ávextir og grænmeti

  • Maísbaunir, sérstaklega á stöngli
  • Heilir litlir tómatar
  • Ósoðið grænmet
  • Litlir ávaxtabitar, til dæmis ber eða melónur skornar í kúlur
  • Þurrkaðir ávextir, þar á meðal rúsínur

Þegar börnum eru gefnir litlir tómatar og vínber er best að skera bitann í fernt á lengdina (litla báta) en það dregur úr líkum á að það standi í þeim.

Próteinrík matvæli

  • Heilar hnetur og fræ
  • Hnetusmjör borðað með skeið
  • Stórir kjötbitar
  • Pylsur
  • Kjöt á teini
  • Stórir ostbitar
  • Heilar baunir
  • Óbeinhreinsaður fiskur
  • Kjöt á beini

Best er að börn borði ekki hnetur fyrr en þau hafa náð 4 ára aldri og setji þá lítið í munninn í einu. Erfitt getur verið fyrir yngri börn að tyggja hnetur vel en hnetubrot geta staðið í þeim eða hrokkið ofan í lungun með alvarlegum afleiðingum.

Gott er að gefa börnum þunna kjötbita til þess að auðvelda þeim að tyggja kjötið vel en það á einnig við um ost. Pylsur eru sérstaklega varasamar en þær þarf að skera í mjög þunnar sneiðar.

Ef baunir eru stórar getur verið gott að stappa þær til að byrja með eða þangað til barnið er farið að geta tuggið mat vel.

Kornmeti

  • Smákökur með hnetum
  • Próteinstangir
  • Flögur, til dæmis snakk, saltstangir og poppkorn
  • Brauð, eins og hrökkbrauð með hnetum og grófu heilkorni

Morgunkorn er oft notað sem millimál fyrir lítil börn þar sem þau eiga auðvelt með að týna það upp í sig. Morgunkorn á að neyta í vökva en ef það er borðað eintómt í ákveðnu magni þurrkar það munninn. Þá verður erfiðara að kyngja því og aukast líkurnar á því að það standi í barninu.

Líkt og með hnetur þá getur verið varasamt fyrir ung börn að borða poppkorn og saltstangir. Það getur bæði staðið í þeim eða hrokkið ofan í lungun og valdið alvarlegum vandamálum.

Sælgæti

  • Stangir úr þurrkuðum ávöxtum
  • Tyggjó
  • Sykurpúðar
  • Kúlulaga sælgæti, til dæmis karamellur og hlaup