Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Gyllinæð

Kaflar
Útgáfudagur

Myndin sýnir innri og ytri gyllinæðGyllinæð (e. hemorrhoids) eru bólgnar bláæðar (æðahnútar) sem geta bæði legið utan á endaþarmi eða inni í endaþarmi. Stærðin getur verið á við litla baun en einnig á stærð við vínber. Algengasta orsökin er hægðatregða eða aukinn þrýstingur frá kviðarholi, t.d. vegna meðgöngu eða offitu.

Gyllinæð er ekki hættuleg en getur valdið óþægindum og verkjum. Í sumum tilfellum getur þurft að fjarlægja hana með inngripum svo sem skurðaðgerð.

Talið er að helmingur fólks fái einhvern tíma á ævinni gyllinæð.

Einkenni

Gyllinæð getur verið einkennalaus en oft eru eftirfarandi einkenni til staðar:

  • Útbungun í kringum endaþarmsop
  • Ferskt blóð með hægðum
  • Kláði í húð við endaþarm
  • Verkir við endaþarm
  • Aukin tilfinning fyrir hægðalosun
  • Slím í nærbuxum eða á pappír þegar endaþarmur er þurrkaður

Meðferð

Viðtal/Skoðun hjá heilsugæslulækni

  • Algengast er eftir viðtal/skoðun hjá lækni að lyfjum sé ávísað.
  • Algengasta lyfjaformið eru endaþarmsstílar sem innihalda stera, staðdeyfandi lyf og hafa húðverndandi eiginleika. Oft er mælt með notkun stíla og krema samtímis.
  • Ávísuð lyf notast samkvæmt leiðbeiningum eða þar til einkenni eru horfin.

Ef hefðbundin meðferð virkar ekki þá getur þurft að framkvæma skurðaðgerð í stuttri svæfingu þar sem gyllinæðin er skorin í burtu.

Hvað get ég gert?

Mikilvægast er að halda hægðum mjúkum til að forðast mikinn þrýsting niður í endaþarm og minnka líkur á blæðingu. Gyllinæð lagast oft af sjálfu sér með eftirfarandi ráðum:

  • Borða trefjaríkt fæði, t.d. ávexti, grænmeti og heilkorn til að halda hægðum mjúkum.
  • Drekka 6-8 glös af vatni daglega.
  • Hreyfing hjálpar til við að halda hægðum eðlilegum.
  • Volgt bað 2-3 sinnum á dag í 10-15 mínútur gæti hjálpað, það eykur blóðflæði og slakar á vöðvum við endaþarm.
  • Kæligel og pokar getur verið gott að leggja við húð í kringum endaþarmsop við kláða og verkjum.
  • Lausasölulyf úr apótekum er hægt að nota við gyllinæð og getur starfsfólk apóteka veitt ráðgjöf varðandi lyf. Ekki ætti að nota slík lyf lengur en um vikutíma án samráðs við lækni.
  • Ef þörf er á má taka verkjalyf eins og paracetamol en forðast verkjalyf með kódeini þar sem kódein herðir hægðir.
  • Forðast langar setur á salerni þar sem það veldur þrýstingi niður í endaþarmsop.
  • Komast hjá því að rembast mikið við hægðalosun og nota mjúkan salernispappír.
  • Halda húð í kringum endaþarmsop hreinni og þurri.
  • Forðast koffín og alkóhól þar sem þau geta hert hægðir.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ráðlagt er að leita til heilsugæslunnar ef:

  • Ráð heima bæta ekki ástandið á innan við viku
  • Blæðir úr endaþarmi
  • Slím eða hægðir renna úr endaþarmi
  • Gyllinæð kemur endurtekið
  • Hiti og almenn veikindaeinkenni eru til staðar
  • Gröftur kemur úr gyllinæð
  • Mikill sársauki er við hægðalosun

Finna næstu heilsugæslu.