Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Frauðvörtur

Kaflar
Útgáfudagur

Frauðvörtur (e. molluscum contagiosum) eru litlar bólur eða vörtur sem myndast á líkamanum. Þær ganga einnig undir nafninu leikskólavörtur eða flökkuvörtur.

Frauðvörtur orsakast af veirunni Molluscum contagiosum virus (MCV). Smit getur borist milli barna með beinni snertingu og hlutum svo sem leikföngum og handklæðum.

Einkenni

Myndin sýnir frauðvörturVörturnar eru glansandi og inni í þeim sést oft hvítur massi. Þær geta komið alls staðar á líkamann nema á lófa og iljar. Algengustu staðirnir eru búkur, olnbogabætur, hnésbætur og nári. Flest börn finna ekki fyrir neinum óþægindum. Það eru helst börn með exem eða þurra húð sem finna fyrir óþægindum. 

Meðferð

Frauðvörtur hverfa yfirleitt af sjálfu sér þegar börn hafa myndað mótefni gegn veirunni. Oftast tekur það 6-18 mánuði en stundum lengur. Því er sérstök meðferð ekki ráðlögð í upphafi sýkingar nema hjá ónæmisbældum börnum þar sem sýkingin er líklegri til að taka lengri tíma hjá þeim. Ef læknir metur að þörf sé á að fjarlægja vörturnar eru hægt að beita eftirfarandi meðferðum:

  • Pensla vörturnar með vörtueyðandi efni sem haft er í 2-4 klst. eða þar til vörturnar hafa bólgnað örlítið upp og þá þarf að þvo það af. Þetta getur þurft að gera í nokkur skipti.
  • Skafa vörturnar af. Fyrst er húðin deyfð með deyfikremi og síðan eru vörturnar skafnar burt.
  • Frysta vörturnar, sem oft er sársaukafullt fyrir börnin

Hvað get ég gert?

Vörturnar hverfa oftast af sjálfu sér á 6-18 mánuðum en meðan þær eru til staðar er mikilvægt að fyrirbyggja smit til annarra. Eftirfarandi þættir eru mikilvægir til að minnka líkur á smiti

  • Deila ekki handklæði, leikföngum eða fatnaði
  • Handþvottur
  • Ekki kreista eða klóra í bólurnar, það eykur hættu á frekara smiti og sýkingu
  • Barnið ætti ekki að fara í bað með öðrum
  • Hylja vörtur til dæmis með plástrum sem fatnaður hylur ekki
  • Henda strax notuðum plástrum

Skólastarf og sundlaugaferðir eru leyfilegar en gott er að hylja vörtur með vatnsheldum plástri ef mögulegt er.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef eftirfarandi einkenna verður vart er rétt að leita til heilsugæslunnar:

  • Roði eða bólga við vörtur
  • Ef vörtunum fjölgar verulega
  • Exem myndast í kringum vörtur
  • Vörturnar valda barninu miklum óþægindum
  • Óþægindi í augum, roði eða bólga

Finndu næstu heilsugæslu hér.