Samfélagslegt ofbeldi

Öll ójöfn valdastaða býður hættunni heim um að sá sem valdið hefur beiti ofbeldi. Við verðum því sem samfélag að vera vakandi fyrir því að þetta eigi sér ekki stað þar sem við sjáum eða vitum af. Sem einstaklingar verðum við líka að bera ríka ábyrgð ekki síst ef okkur er falið vald, t.d. í stöðu yfirmanns, prests, kennara, lögregluþjóns, þjálfara, heilbrigðisstarfsmanns eða foreldris. Ef við höfum áhyggjur af okkar eigin hegðun er full ástæða til að leita sér aðstoðar. Þú getur leitað til heilsugæslunnar, félagsþjónustu sveitarfélags, stéttarfélags eða sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Einelti

Einelti er ein gerð samfélagslegs ofbeldis. Hér má lesa nánar um það.

Aukin áhætta

Ákveðnir hópar geta verið í meiri áhættu að verða fyrir ofbeldi en aðrir, það eru meðal annars þeir sem á einhvern hátt skera sig úr t.d. vegna litarhafts, kynhneigðar, trúarbragða og fötlunar. Þeir sem njóta sértækrar þjónustu svo sem fatlaðir, fólk með geðraskanir og aldraðir eru einnig í sérstakri áhættu. Það er því mikilvægt að vera vakandi fyrir því að ofbeldi getur átt sér stað hvar sem er og okkur ber skylda til að tilkynna grun ef hann vaknar.

Ofbeldi á stofnunum getur auk líkamlegs, kynferðislegs og andlegs ofbeldis verið af öðrum toga sem getur reynst erfiðara að koma auga á. Dæmi um þetta er fjárhagsleg stýring, þegar vegið er að sjálfstæði og sjálfræði einstaklingsins og vanræksla.

Þessi grein var skrifuð þann 14. nóvember 2016

Síðast uppfært 15. ágúst 2019