Það er einstaklingsbundið hvaða lyf fólk þarf að hafa á ferðalögum. Það miðast við heilsufar og persónulegar þarfir.
Nokkur atriði sem hafa ætti í huga:
- Taki fólk lyf að staðaldri þarf að huga að því tímanlega að hafa nægilegt magn meðferðis sem dugar ríflega fyrir ferðalagið. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að íslenskir lyfseðlar virki í öðrum löndum.
- Sýrustig í maganum er að jafnaði lágt til þess að magasýrurnar drepi sýkla sem berast ofan í maga. Lyf sem hafa áhrif á sýrustig í maga hafa þar með áhrif á getu magainnihaldsins til að koma í veg fyrir sýkingar. Þessi lyf auka því líkurnar á matarbornum sýkingum. Ráðlegt er að sleppa þeim eða draga úr notkun þeirra ef ferðast er til landa þar sem hætta er á matarsýkingum. Þetta eru lyf sem eru notuð til að vinna bug á brjóstsviða.
- Greipsafi inniheldur efni sem hamla niðurbroti lyfja og því ætti ekki að drekka greipsafa taki fólk lyf. Það getur valdið alvarlegum veikindum ef niðurbrot lyfja raskast.
- Flest lönd hafa reglur um innflutning lyfja sem vert er að kynna sér. Lyfjastofnun hefur gagnlegar upplýsingar fyrir fólk sem ferðast með lyf.
- Gæta þarf vel að geymslu lyfja á ferðalögum. Þau eru viðkvæm fyrir hitabreytingum. Flest lyf þarf að geyma við hitastig undir 25°C
- Ráðlagt er að hafa öll lyf í handfarangri og í upprunarlegri pakkningu.