Dagleg hreyfing er börnum og unglingum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt, þroska og andlega vellíðan. Hreyfing við hæfi á að fela í sér skemmtilegan leik. Það skapar tækifæri til að þjálfa hreyfifærni, bæta líkamshreysti, eignast vini, auka félagslega færni, efla sjálfstraust og styrkja fjölskylduböndin. Jákvæð reynsla af hreyfingu á unga aldri eykur líkurnar á að fólk hreyfi sig á fullorðinsárum.
Ráðleggingar
- Samanber opinberar ráðleggingar um hreyfingu ættu öll börn og unglingar að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega. Hreyfingin ætti að vera bæði miðlungserfið og erfið. Heildartímanum má skipta í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.
- Hreyfingin ætti að vera eins fjölbreytt og mögulegt er. Það eflir flesta þætti líkamshreysti, þar á meðal afkastagetu lungna, hjarta og æðakerfis sem og vöðvastyrk, liðleika, viðbragð og samhæfingu.
- Kröftug hreyfing, sem reynir á beinin, er sérstaklega mikilvæg fyrir og á kynþroskaskeiði fyrir beinmyndun og beinþéttni.
- Huga þarf að skjánotkun barna. Kynntu þér umfjöllun um skjáinn og börnin.