Slysavarnir 3-5 ára

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Börn á aldrinum 3-5 ára eiga alltaf að vera undir eftirliti þegar þau eru úti og leika sér á öruggum stöðum.

Fall
 • Talið við barnið um hætturnar sem fylgja því að leika sér við glugga.
 • Á þessum aldri getur barn klifrað mjög hátt. Jafnvægi þess er ekki fullþroskað og því hætta á falli mikil. Brýnið fyrir barni hætturnar sem orðið geta ef það fellur niður.
 • Gangið úr skugga um að leiktæki henti aldri og þroska barnsins og fylgið reglum um notkun þeirra. Sýnið barni hvernig á að nota leiktæki rétt, en gerið ráð fyrir að það noti þau á annan hátt.
 • Stiginn á ekki að vera leiksvæði og leyfið ekki leiki í kojum.
Skurðir og mar
 • Geymið hættulega hluti, þunga og beitta, þar sem barnið nær ekki til.
 • Kennið barninu að nota smjörhnífa og þar til gerð barnaskæri.
 • Setjið fingravini á hurðir til að koma í veg fyrir klemmuslys.
Bruni
 • Barn á þessum aldri er enn í mikilli hættu að brenna sig. Það er því mikilvægt að gæta vel að því að barn sé ekki að fikta í rafmagnstækjum, eldspýtum eða öðrum hitagjöfum.
 • Kennið barninu örugga umgengni með rafmagnstæki.
 • Hafið logandi kerti, kveikjara og eldspýtur þar sem barn nær ekki til.
Drukknun
 • Á þessum aldri telja börn sig vera orðin mjög örugg í sundi. Leyfið aldrei ósyndu barni að vera einu í lauginni þrátt fyrir að það sé með armkúta eða annan slíkan búnað.
 • Börn á þessum aldri ættu aldrei að vera ein að leik við ár, vötn, sjó eða aðra staði þar sem vatn er.
Köfnun
 • Á þessum aldri er barn mjög upptekið af snúrum og böndum og öðru sem það getur tekið upp á að setja um hálsinn á sér. Slíkt er lífshættulegur leikur.
 • Leikur með sippubönd ætti alltaf að vera undir eftirliti foreldra.
Eitranir

Barn á þessum aldri er í minni hættu á að verða fyrir eitrun en þau yngri. Brýnið fyrir barninu hætturnar sem fylgja hættulegum efnum. Hafið lyf alltaf geymd í læstum skápum og hættuleg hreinsiefni þar sem börn ná ekki til. Lestu nánar um geymslu og förgun lyfja hér.

Hafið númer Neyðarlínunnar 112 við öll símtæki á heimilinu.

Eitrunarmiðstöð LSH: 543-2222

Útivera
 • Börn á þessum aldri eiga ekki að vera ein úti án eftirlits. Gætið þess að leikumhverfi þeirra sé öruggt.
 • Leiðið barnið við umferðargötur.
 • Kennið barninu umferðarreglurnar á meðan þið eruð á gangi.
Reiðhjól og fleira
 • Veljið hjól sem hentar aldri, stærð og þroska barnsins.
 • Ekki er æskilegt að börn yngri en 5 ára séu á tvíhjóli þó þau noti hjálpardekk. Tvíhjól með hjálpardekkjum geta náð mikilli ferð sem börnin ráða ekki við.
 • Ef börnum yngri en 5 ára er leyft að vera á tvíhjóli með hjálpardekkjum verða fullorðnir að fylgjast með þeim.
 • Öll börn eiga að nota hjálm þegar þau eru að hjóla, líka þegar þau eru á þríhjólum. Gætið þess að hann sitji rétt á höfði barnsins og sé stilltur samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda. 
 • Veljið reiðhjól með fótbremsum fyrir börnin. Þannig geta þau stjórnað betur hraða þess.
 • Leyfið börnum ekki að hjóla á eða við götur. Kennið börnum að teyma hjól yfir götur.

Línuskautar
Notið hjálm og hlífar á úlnliðum, olnbogum og hnjám.

Hlaupahjól
Gætið þess að hæð handfangs hlaupahjólsins sé hæfileg miðað við stærð barnsins. Notið hjálm og hlífar á úlnliðum, olnbogum og hnjám.

Sleðar og þotur
Gætið þess að börn séu að renna sér á öruggum svæðum fjarri umferð. Veljið sleða sem henta aldri, stærð og þroska barnsins. Ung börn valda ekki stýrissleðum.

Trampólín
Fylgið leiðbeiningum framleiðandans um aldursmörk. Leyfið aldrei litlum börnum að hoppa með eldri börnum. Aldrei ætti að leyfa að fleiri en einn sé á trampólíninu í einu. Notið öryggisnet.

Öryggisbúnaður í bíl
 • Barn á þessum aldri á enn að vera í barnabílstól eða að nota sessu með baki.
 • Takið aldrei bakið af sessunni.
 • Sessa án baks veitir barni litla sem enga vörn.
 • Barn verður að vera orðið 150 sm á hæð til að geta setið í framsæti bíls ef í honum er virkur öryggispúði.
Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.