Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Að taka ákvörðun um að hætta

Kaflar
Útgáfudagur

Mörg sem vilja hætta að nota tóbak eru ekki viss um að þau langi nógu mikið til þess.

Sum spyrja sig því eðlilega: Er þetta rétti tíminn til að hætta? Sum, og kannski þú líka, svara þannig, að nákvæmlega rétti tíminn komi nú líklega aldrei. Ætlir þú að hætta verður þú að taka ákvörðun um það. Sá sem ætlar að bíða eftir rétta augnablikinu getur þurft að bíða lengi.

Grundvallaratriðið hlýtur að vera að þig langi að verða tóbakslaus og þú hefur tekið ákvörðun um það. Það eitt að leggja í hann og fara að tilteknum fyrirmælum er hvatning út af fyrir sig.

Hvers vegna vil ég hætta?

Fyrsta skrefið til að styrkja löngunina til þess að hætta, er að hugsa vandlega um hvers vegna þú vilt hætta að nota tóbak. Hvað græði ég á því? Hvaða gleði fylgir því? Hvað losnar þú við með því? Er eitthvað að óttast við tóbakslaust líf? Það er fyrirhafnarinnar virði að reyna að finna eins margar góðar ástæður og hægt er fyrir því að hætta. Mörg sem hætta fara eftir nokkurt hlé að finna sér afsakanir fyrir því að fá sér smá tóbak aftur. Þá er gott ef þú hefur velt málinu vandlega fyrir þér og veist hvað þú vilt.

Þegar söknuðurinn eftir tóbakinu kemur er léttara að minnast kostanna heldur en að muna af hverju þú vildir hætta. Þess vegna er mikilvægt að hver og einn finni sínar eigin ástæður og skrifi þær á blað eða í tölvu og gæti þeirra vel.

Skrifaðu hjá þér þínar eigin ástæður fyrir að þú vilt verða tóbakslaus.

Sestu niður í ró og næði, hugsaðu þig vel um og skrifaðu hjá þér 10 ástæðurnar fyrir að þú vilt hætta. Reyndu að gera það eins nákvæmlega og hægt er. Láttu þér ekki nægja að skrifa að þú viljir hætta vegna heilsunnar ef hin raunverulega ástæða er sú að þú óskir þess að bæta líkamsþrekið eða losna við áhyggjurnar af að fá krabbamein.

Um nikótínþörf

Öll sem hætta að nota tóbak eiga á einn eða annan hátt eftir að finna til nikótínþarfar. Það getur gerst fyrstu dagana eftir að reykingunum eða tóbaksnotkun í vör/nef er hætt en líka síðar. Besta ráðið til að vera viðbúinn þessu er að fara nákvæmlega yfir það í huganum hvernig maður ætlar að bregðast við þegar þörfin brýst fram.

Það hjálpar líka að vita að tóbaksþörfin stendur sjaldan lengur en í 2-4 mínútur og að stórlega dregur úr þessum köstum strax fyrstu 2 vikurnar eftir að tóbaksnotkun var hætt. Engu að síður verður fólk að vera við því búið að nikótínfíknin skjóti upp kollinum annað slagið fyrst um sinn, oft einmitt á stöðum og stundum þar sem tóbak var notað áður. 

Hægt er að fá meðferð og stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 5131700.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína