Áfengi eins og annað sem borðað er og drukkið getur skilað sér í brjóstamjólkina. Móður með barn á brjósti er því ráðlagt að nota ekki áfengi. Það er ekki vitað hversu mikið áfengismagn þarf til að valda skaða hjá barni á brjósti. Ólíklegt er talið að áfengi í litlu magni sé skaðlegt.
Við neyslu áfengis skilar hluti alkóhólsins sér í brjóstamjólkina. Það tekur líkamann um tvær klukkustundir að losa sig við alkóhólið úr einu léttvínsglasi eða litlu bjórglasi. Ekki er hægt að flýta þessu ferli með vatns- eða kaffidrykkju, hvíld eða losun brjóstamjólkur. Mælt er með að því að móðir bíði tvær klukkustundir fyrir hvert léttvínsglas þar til hún gefur brjóst. Tvö léttvínsglös = fjórar klukkustundir.
Ekki er nauðsynlegt henda brjóstamjólkinni eftir að hafa drukkið áfengi nema móðir finni til óþæginda í brjóstunum, áður en nægur tími er liðinn fyrir líkamann að útskilja áfengið.
Mikil áfengisneysla dregur úr mjólkurframleiðslu, barnið verður syfjaðra og drekkur minna. Það hefur áhrif á heilaþroskann, dregur úr vexti barns og seinkar hreyfiþroska. Þegar móðir er undir áhrifum áfengis þá getur það einnig haft áhrif á getu hennar til að annast barnið.
Nýfætt barn fæðist með óþroskaða lifur og þess vegna hefur áfengi meiri áhrif á það. Það tekur þriggja mánaða gamalt barn tvöfalt lengri tíma að útskilja alkóhól úr líkamanum en þann sem er fullorðinn.
Áfengismisnotkun og vímuefnanotkun foreldra hefur afgerandi áhrif á þroska, hegðun og líðan barns.
Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.