Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Málþroskaröskun DLD

Kaflar
Útgáfudagur

Málþroskaröskun DLD (e. Developmental Language Disorder) er oft dulin en algeng taugaþroskaröskun. Einstaklingar með DLD eiga í töluverðum erfiðleikum með að læra, skilja og nota mál. Börn með DLD fylgja oftast ekki aldursbundnum viðmiðum í málþroska en sum eru ekki greind fyrr en á skólaaldri eða sem fullorðnir.

Málþroskaröskun DLD fylgir einstaklingi út ævina en birtingarmyndin er misjöfn gegnum ólík þroskaskeið. Hún kemur fram hjá fólki um allan heim, óháð því hvaða tungumál það talar.

Algengi

Algengi málþroskaröskunar DLD er um það bil 7% eða eitt af hverjum 14 börnum. Nánast enginn munur er á milli kynja.

Orsakir

Líkt og aðrar taugaþroskaraskanir felur DLD í sér breytileika á taugaþroska. Orsök þess er ekki þekkt. Líklegt er samspil erfða og umhverfis. Vitað er að orsökin er ekki sú að of lítið sé talað við barnið eða lesið fyrir það.

Einkenni

Birtingamynd DLD er einstaklingsbundin en oft má sjá

Seinkun á máltökuskeiði:

  • Sein að byrja að tala
  • Nota færri orð en vænta má miðað við aldur
  • Seinni að byrja að tengja orð saman í setningar

Erfiðleika í tjáningu:

  • Erfitt með málfræði
  • Erfitt að raða orðum í setningar
  • Nota einfaldar setningar
  • Nota færri smáorð – er meira áberandi eftir því sem reynir á flóknari tjáningu
  • Erfiðleikar í frásögn þar sem erfitt reynist að halda rauðum þræði, skipuleggja talað mál og upplýsingar vantar
  • Framburðarfrávik

Veikleika í orðaforða:

  • Takmarkaður orðaforði
  • Orðminniserfiðleikar - á erfitt með að muna orð sem barnið ætti að þekkja vel
  • Nota oft hikorð

Slakan skilning:

  • Á margþátta/löngum fyrirmælum
  • Á hugtökum
  • Yngri börn eru gjörn á að herma frekar eftir hinum börnunum eða læra rútínur frekar en að skilja fyrirmælin
  • Námsleg staða slök

Áskoranir í félagslegum samskiptum:

  • Erfiðleikar með að taka þátt í samræðum og skilja það sem fer fram, sérstaklega þegar margir taka þátt
  • Erfiðleikar með að túlka líkamstjáningu og raddblæ, kaldhæðni og/eða brandara
  • Árekstrar í samskiptum við jafnaldra
  • Forðast samræður
  • Vilja frekar vera ein

Erfiðleika í lestri:

  • Eiga erfitt með að læra að lesa
  • Lesskilningur slakur
  • Ritunarverkefni áskorun

Hjá ungmennum og fullorðnum geta erfiðleikarnir birst sem:

  • Erfiðleikar með fræðilegt mál (t.d. skilja fyrirlestra eða flókna texta)
  • Erfiðleikar við að skipuleggja mál sitt, bæði talað og ritað
  • Áskoranir í starfsviðtölum, hvers kyns umsóknarferli t.d. í háskóla og að mynda dýpri sambönd

Greining

Ung-og smábarnavernd heilsugæslunnar fylgist með þroska barna og er skimað fyrir frávikum í málþroska við 18 mánaða, 2 ½ og 4 ára aldur. 

Greining á málþroskaröskun DLD byggir á að skoða hegðun og færni. Skoðað er hvernig einstaklingi gengur að læra, skilja og nota talað mál og ritað. Talmeinafræðingur leggur fyrir próf sem meta málþroska. Það þarf einnig að meta áhrif málvandans á líf einstaklings. Mikilvægt er að hafa upplýsingar um þroskasögu, stöðu í námi, vinnu og félagsfærni. Niðurstöður úr greiningarprófum og traustar vísbendingar um að slök færni í máli valdi einstaklingi erfiðleikum í daglegu lífi getur leitt til greiningar á DLD. 

Þar sem fylgiraskanir geta verið til staðar getur einnig verið mikilvægt að meta fleiri þætti en tungumálið t.d. athygli. Málþroskaröskun DLD er ekki greind þegar málvandinn útskýrist af þekktum líffræðilegum ástæðum eins og heyrnarskerðingu eða þroskafrávikum.

Meðferð

Einstaklingsmiðuð meðferð sem veitt er af talmeinafræðingi hentar einstaklingum með alvarleg einkenni DLD. Í sumum tilvikum þarf að íhuga aðlögun námsefnis og mikilvægt er að samvinna á milli heimilis og skóla sé góð.

Til að meðferð við DLD beri árangur þarf hún að standa yfir í langan tíma og vera vel skipulögð. Talmeinafræðingar beita aðferðum í samvinnu við kennara og annað starfsfólk í leik- og grunnskólum sem geta meðal annars aukið orðaforða, færni í frásögn og hljóðkerfisvitund barna. 

Hvað get ég gert?

Það er mikilvægt að þekkja og skilja sjálfan sig. Þess vegna þarf fólk að vita að það er með málþroskaröskun DLD sem getur valdið áskorunum til dæmis í námi, félagslegum samskiptum eða vinnu.

Mælt er með að ræða DLD um leið og barn hefur þroska til og getur að einhverju leyti verið þátttakandi í samtalinu. Þetta er ferli sem má taka tíma. Mikilvægt er að kynna DLD fyrir nánasta umhverfi einstaklingsins til dæmis fjölskyldu og skóla.

Ráðleggingar fyrir foreldra og umönnunaraðila:

  • Nota skýrt og einfalt mál
  • Lesa saman daglega – ræðið söguna, myndirnar og það sem barnið segir. Ekki er nauðsynlegt að lesa orð fyrir orð heldur aðlaga sig frekar að því hvar barnið er statt í þroska og áhuga
  • Gefa barni tíma til að vinna úr upplýsingum
  • Endurtaka og umorða það sem sagt er ef þörf er á
  • Nota sjónrænan stuðning t.d. myndir, látbragð, teikna, skrifa lista
  • Ekki skapa pressu á samskipti – betra er að deila jákvæðum upplifunum með barninu
  • Hjálpa barni að styrkja vinasamböndin til að koma í veg fyrir einsemd og einmanaleika þess

Ráðleggingar fyrir ungmenni og fullorðna með DLD:

Gera grein fyrir styrkleikum – DLD skilgreinir ekki einstaklinginn. Margir með DLD eru skapandi, ákveðin og  góð í að leita lausna og leysa vandamál.

Biðja um stuðning og aðstoð – ekki vera smeyk við að biðja um auka tíma til að vinna verkefni eða að fá skriflegar/sjónrænar leiðbeiningar t.d. í skóla eða í vinnuumhverfinu

Nota aðferðir sem styðja við áskoranir í daglegu lífi:

  • Skrifa niður til að hjálpa sér að muna
  • Nota sjónrænan stuðning til dæmis smáforrit til að skipuleggja sig
  • Æfa sig í að útskýra mál sitt með sínum eigin orðum
  • Tala um DLD – að skilja greininguna og hvað hún þýðir fyrir einstaklinginn skiptir miklu máli upp á sjálfsmynd og sjálfstraust
  • Tengja sig við aðra í sömu sporum – skoða hvort það eru hópar á samfélagsmiðlum, í nærumhverfi eða hvort hagsmunasamtök geta aðstoðað

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ráðlagt að leita til heilsugæslunnar hafi umönnunaraðilar áhyggjur af málþroska barns.

Einnig er hægt að leita til kennara barns og óska eftir mati á stöðu þess.

Sérkennsluaðilar leik- og grunnskóla hafa meðal annars skimunarpróf til að meta málsþroska barna. Talmeinafræðingar vinna fyrir ríki og sveitarfélög og geta leik-og grunnskólar óskað eftir athugun talmeinafræðings. Í umfjöllun um þroska barna á mismunandi aldri má lesa um málþroska barna miðað við aldur.

Finna næstu heilsugæslu