Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Höfuðlús

Kaflar
Útgáfudagur

Höfuðlús (e. head louse) er lítið skordýr sem hefur aðlagað sig manninum og lifir sníkjulífi í hárinu á höfðinu. Hún nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum. Höfuðlúsin er ekki talin bera neina sjúkdóma og því skaðlaus manninum. Allir geta smitast en algengast er að börn 3–12 ára fái höfuðlús.

Finnist lús í höfði barns er rétt að láta vita í skóla/leikskóla barnsins svo hægt sé að tilkynna foreldrum annarra barna um lúsina og hefta útbreiðslu lúsarinnar.

Einkenni

Höfuðlús veldur litlum einkennum en lúsin og egg hennar, nit, geta sést í hári. Einn af hverjum þremur fær kláða. Lúsin leggur egg sín á hárið nálægt hársverðinum og festir það við hárið. Þar sem nitin er föst við hárið færist hún frá hársverðinum þegar hárið vex. Nit sem komin er langt frá hársverði er líklega dauð eða tóm. Algengast er að nitin sé fyrir aftan eyru og neðantil í hnakka. 

Smitleiðir

Lúsin fer á milli einstaklinga ef bein snerting verður frá hári til hárs í nægilega langan tíma til að hún geti skriðið á milli en hún getur hvorki stokkið, flogið né synt.
Höfuðlús sem fallið hefur út í umhverfi verður strax löskuð og veikburða og getur þ.a.l. ekki skriðið á annað höfuð og sest þar að. Þess vegna er talið að smit með fatnaði og innanstokksmunum sé afar ólíklegt en ekki er þó hægt að útiloka að greiður, burstar, húfur og þess háttar, sem notað er af fleiri en einum innan stutts tíma, geti hugsanlega borið smit á milli.

Meðferð

Nauðsynlegt er að kemba til að greina lúsasmit. Nota má kembingu sem meðferð við lús. Ef kembt er samviskusamlega á hverjum degi í 14 daga er tryggt að lúsin er farin úr hárinu.

Lúsadrepandi efni
Efni til að drepa höfuðlús fást í lyfjaverslunum og eru af ýmsum gerðum. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda við notkun. Algengt er að meðferðin sé endurtekin eftir um það bil viku.

Blönduð leið
Margir velja að fara blandaða leið í baráttunni við lúsina. Þá er kembing og lúsadrepandi efni notað samhliða. Byrjað er á að kemba og svo er hárið meðhöndlað með lúsadrepandi efni. Daginn eftir er kembt aftur og síðan annan hvern dag í 14 daga. Efnameðferðin endurtekin samkvæmt leiðbeiningum.

Hvað get ég gert?

Fylgjast með

Fylgjast vel með hári, einkum barna, þar sem lúsasmit eru algengust hjá þeim. Ráðlagt er að kemba börnum vikulega. Með því móti má koma í veg fyrir að lúsasmit nái fótfestu í hárinu.

Kembing

Hægt er að nota kembingu til að losna við lús úr hári. Til þess þarf að kemba hárið daglega í 14 daga. Hér má lesa nánar um hvernig áhrifaríkast er að kemba hár.

Góður lúsakambur er nauðsyn
Lúsakambar eru meðal annars seldir í lyfjaverslunum og margar gerðir í boði. Þeir eru misdýrir og misgóðir. Mikilvægt er að velja kamb sem hæfir hári heimilismanna. Sítt og þykkt hár þarf kamb með löngum teinum en hægt er að komast af með styttri teina í stuttu hári. Bilið á milli teinanna í lúsakambi má ekki vera meira en 0,2 millimetrar og teinarnir mega ekki vera of eftirgefanlegir. Venjuleg hárgreiða þó fínleg sé gerir ekkert gagn í lúsakembingu.

Buff

Í baráttunni gegn lúsinni hefur meðal annars verið notað buff (höfuðbúnaðinn) til að draga úr líkum á lúsasmiti. Buffið tollir vel á höfðinu og gerir lúsinni erfiðara fyrir að komist frá einum kolli yfir á annann. Það er hins vegar ekki gott að nota buff alla daga. Því er mælt með því að nota aðeins buff innandyra í skólum eða leikskólum þegar vitað er um lúsasmit í barnahópi. Notkun buffs kemur ekki í stað þess að fylgjast vel með hári barnsins og kemba.

Fylgjast með

Fylgjast vel með hári, einkum barna, þar sem lúsasmit eru algengust hjá þeim. Ráðlagt er að kemba börnum vikulega. Með því móti má koma í veg fyrir að lúsasmit nái fótfestu í hárinu.

Kembing

Hægt er að nota kembingu til að losna við lús úr hári. Til þess þarf að kemba hárið daglega í 14 daga. Hér má lesa nánar um hvernig áhrifaríkast er að kemba hár.

Góður lúsakambur er nauðsyn
Lúsakambar eru meðal annars seldir í lyfjaverslunum og margar gerðir í boði. Þeir eru misdýrir og misgóðir. Mikilvægt er að velja kamb sem hæfir hári heimilismanna. Sítt og þykkt hár þarf kamb með löngum teinum en hægt er að komast af með styttri teina í stuttu hári. Bilið á milli teinanna í lúsakambi má ekki vera meira en 0,2 millimetrar og teinarnir mega ekki vera of eftirgefanlegir. Venjuleg hárgreiða þó fínleg sé gerir ekkert gagn í lúsakembingu.

Buff

Í baráttunni gegn lúsinni hefur meðal annars verið notað buff (höfuðbúnaðinn) til að draga úr líkum á lúsasmiti. Buffið tollir vel á höfðinu og gerir lúsinni erfiðara fyrir að komist frá einum kolli yfir á annann. Það er hins vegar ekki gott að nota buff alla daga. Því er mælt með því að nota aðeins buff innandyra í skólum eða leikskólum þegar vitað er um lúsasmit í barnahópi. Notkun buffs kemur ekki í stað þess að fylgjast vel með hári barnsins og kemba.

Láttu ekki plata þig

Nokkuð hefur borið á að boðin eru efni sem koma eiga í veg fyrir lúsasmit. Engar rannsóknir eru til sem sýna að efni sem ætluð eru til þess virki í þá átt að koma í veg fyrir smit. Til eru efni sem drepa lús en alls ekki er mælt með að nota þau nema staðfest sé að lús sé í hárinu.

Besta vörnin gegn lús er að fylgjast vel með hárinu og kemba vikulega.

Myndband um höfuðlús