Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Málörvun

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Máltaka heyrandi barna er ferli sem hefst á meðgöngunni. Nýfætt barn með eðlilega heyrn er því komið með ákveðinn grunn fyrir máltökuna í því tungumáli sem það fæðist inn í. Fyrstu mánuðina heyrast þó ýmis ókunn hljóð hjá barninu í hljóðaleiknum en smám saman verða málhljóðin, hljómfall og blæbrigði í tungumáli barnsins allsráðandi.

Barn með skerta heyrn þarf meiri örvun og mögnun til að greina hljóðin í umhverfinu með þessum hætti. Heyrnarmæling nýbura er því mjög mikilvæg til að tryggja snemmtæka íhlutun í málþroska.

Löngu áður en barn segir sín fyrstu orð hefur mikil örvun átt sér stað. Taugalíffræðilegur þroski barna er mestur fyrstu árin. Mikilvægt er að foreldrar nýti vel hið næma skeið í lífi ungra barna í málörvun. Gott atlæti og örvun fyrstu árin hefur mikilvæg áhrif á velferð barna, lestrarfærni og námsgetu síðar á lífsleiðinni. Að umvefja eða „baða barnið í tungumálinu” endurtaka hljóð og orð, litlar setningar með ýktum blæbrigðum leggur góðan grunn að máltökunni.

Svokallað „foreldratal” er mjög mikilvægt fyrir alla tengslamyndun og málörvun. Þar er átt við að foreldri, eldri systkini og fjölskylda í umhverfi barnsins nálgist barnið frá fæðingu með augnsambandi, hljóðaleik og endurtekningu einfaldra orða. Allar stundir með barninu t.d. á meðan umönnun á sér stað er ráðlegt að foreldri tali við barnið. Þó barnið sé ekki farið að mynda orð eða tala þá margfaldast taugafræðileg örvun í gegnum skynfærin og smátt og smátt eykst málþroski barnsins.

Málþroski er nokkurs konar regnhlífarhugtak fyrir málskilning og máltjáningu. Málskilningurinn tryggir að barnið skilur og les í umhverfið án þess endilega að geta tjáð sig strax með skýrum hætti. Smám saman fer barnið að tjá sig, leika með hljóð; babla og hjala og orðaforðinn verður til. Leikurinn og endurtekningin skiptir miklu máli í allri málörvun barna.

Hægt er að notað ákveðnar leiðir til að örva mál og tal barns. Grunnurinn er að tala og tala… svo barnið heyri, skynji og sjái. 

  1. Sjálftal
    Lýsa með orðum því sem verið er að gera hverju sinni. 
  2. Hliðartal
    Lýsa með orðum því sem barnið er að gera, setja orð á verknað og grunnhugtök eins og við á. 
  3. Víkkun
    Endurtaka orðhluta og/eða orð sem barnið segir og bæta við með orðum og litlum setningum þannig að það bætist í málskilning og máltjáningu barnsins með góðri fyrirmynd og viðbót/víkkun orða og setninga.

Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga og örva máltöku barna. Þá má nota í samræmi við aldur og þroska barnsins.

Að byggja upp orðaforða
  • Nefna heiti hluta og atburða sem koma fyrir við leikaðstæður og í daglegum samskiptum við barnið.
  • Endurtaka eftir barninu stök orð og setningar, með hvetjandi áherslu og réttum framburði. Bæta við tal barnsins með eðlilegu flæði tals án þess að leiðrétta barnið sérstaklega. Muna að ýkja blæbrigði og hljómfall.
  • Nota almennt stuttar setningar við barnið og kveða skýrt að hverju orði. Barn er líklegra til að mynda málhljóð rétt sem það heyrir oftar í orðum í tungumálinu.
  • Hlusta á barnið og svara barninu með því að innihalda hluta af því sem barnið sagði og bæta við orðin; örva þannig málskilning og máltjáningu þess.
  • Gefa barninu tíma þegar það talar þó það skiljist ekki alltaf vel. Veita því hrós og hvatningu og taka upp þráðinn frá þeim orðum sem foreldri skildi.

Skoða myndir með barninu. Nota einfaldar myndabækur eða myndaspjöld með 1-4 myndum, til dæmis úr Lottó-spilum. Í upphafi getur reynst vel að nota ljósmyndir af fólki, dýrum eða hlutum sem barnið þekkir. Þegar geta barnsins eykst má nota bækur með meiri fjölda mynda.

  • Stoppa við hverja mynd, benda á þær og nefna orðin. Síðar má láta barnið benda á mynd sem spurt er um t.d. hvar er kisa? Gott er að hafa eina mynd á blaðsíðu til að byrja með en svo má láta barnið velja rétta mynd af 2 eða fleiri er þroskinn vex. Hjálpa barninu með því að stýra hendinni ef það þarf hjálp við að benda með vísifingri.
  • Smám saman er gott að skiptast á í þessari mynda- og bókaskoðun. Foreldri sýnir og bendir á myndir. Barnið finnur mynd eftir beiðni foreldris og svo má barnið láta foreldri finna orð og myndir. Barnið æfir sig og bætir smám saman við sig orðaforða með þessum hætti.
  • Síðar má láta barnið sjálft nefna myndirnar eða segja frá því hvað er að gerast, spyrja til dæmis hver er þetta, hvað heitir þetta, hvað segir/gerir þessi, hvað er þessi að gera? Það er jákvætt að foreldri svari jafnvel sjálft til að gefa barninu fyrirmynd, sérstaklega þegar ungt barn hefur ekki mikið vald á máltjáningunni. T.d. hvað heitir þetta? Foreldri gæti svarað: „þetta er kisa, þetta er litla kisan, hún er kettlingur, þarna er mamma hennar – stóra kisan”
  • Mikilvægt er að bæta við dýpri málskilningi og grunnorðaforða með hækkandi aldri og þroska barnsins.  T.d. kisa segir mjá, hún mjálmar, kisa er mjúk, kisa er bröndótt, kisa lepur mjólk o.s.frv. 
Að ýta undir hlustun
  • Mikilvægt er að leggja grunn að sameinaðri athygli foreldris og barns. Að barn sé að skoða og hlusta eftir sömu hlutum og foreldri er að tala um. Hlusta og framkvæma eftir fyrirmælum, skoða sömu hluti í lítilli bók o.s.frv.
  • Að kveikja áhuga barnsins er mikilvægt í öllum tilvikum.
  • Leika og ýkja hljóð og orð – hafa gaman þegar barnið á að hlusta!
  • Lesa einfaldar bækur fyrir barnið. Leggja áherslu á orðin.
  • Hlusta á barnaefni, t.d. með söng og hreyfingu, táknum.
  • Hlusta/horfa á með barninu á þroskavænt íslenskt barnaefni. Lýsa því sem er að gerast og endurtaka orðin sem koma fyrir. Stoppa við og ræða hvað sáum við? Hvað var að gerast?
  • Syngja fyrir og með barninu t.d. barnagælur eða vísur. Leggja áherslu á aðalorðin með meiri styrk og smám saman fer barnið að syngja þau ákveðnu orð með. En allt byrjar á hlustun og áhuga.
  • Hlusta á mismunandi tegundir hljóða, til dæmis dýrahljóð, hljóð í hlutum sem barnið þekkir.  Spyrja barnið hvað var þetta? Hver gerir svona hljóð?
Almennt
  • Nota sjónræna hjálp með orðum, s.s. bendingar, hluti, myndir, eða önnur tákn sem barnið getur skilið. Markmiðið er að ná og viðhalda athygli barnsins.
  • Fara í söng- og hreyfileiki með barninu.
  • Æfa orð, svipbrigði, hljóðamyndun og ýmis orð í leik fyrir framan spegil.
  • Flest börn þurfa ekki að æfa talfærahreyfingar sérstaklega en í ákveðnum tilvikum er jákvætt að bæta í skynjun barns fyrir staðsetningu talfæra fyrir málhljóðin. Ef mikið er um slefmyndun og slaka munnvöðva er t.d. hægt að æfa munn-andlitsvöðva með því að sjúga og blása í gegnum rör. T.d. er hægt að búa til leik eða keppni við að blása borðtenniskúlum í mark. Einnig að blása sápukúlur.
  • Endursegja orð og setningar barns á jákvæðum nótum. Ef foreldri vill leiðrétta og bæta við getu orðs má t.d. byrja á að segja: já ... og endurtaka orðið svo rétt með áherslu. Ekki er gott að leiðrétta barn með: nei….segðu…
  • Hafa í huga að gera ekki meiri kröfur til skilnings en barnið ræður við.
  • Örva úthald barnsins með því að gefa því verkefni í leikjaformi sem hafa skýrt upphaf og skýran endi, leggja áherslu á að klára og umbuna síðan fyrir. Hafa fyrst stutt verkefni og hvíld á milli, lengja smám saman málörvunarstundina og leikinn eftir því sem geta barnsins og úthald eykst.
  • Ýta undir fjölbreytni í leik og verkefnavinnu, t.d. að byggja saman úr kubbum (t.d. trékubbum), teikna, lita, mála og fara í spil sem hæfa þroska barnsins. Hreyfing og útivist hentar vel í málörvun ungra barna.
  • Ýta almennt undir eftirhermu og gleði í leik; að gera til skiptis (fyrst ég, svo þú/ fyrst þú, svo ég), herma hljóð, hreyfingar, athafnir eftir hvort öðru.

Áhyggjur af málþroska

Varðandi málþroska er mikilvægt er að barn fylgi fyrirmælum, veiti umhverfi sínu athygli og taki þátt í leik og samskiptum við jafnaldra sína á hverju aldursbili.

Fyrstu 18 – 30 mánuðina er talsverður breytileiki í orðaforða og setningamyndun barna en miklu skiptir að barn fylgist með, hlusti og sýni sameinaða athygli.  Í tali og framburði ættu flest börn að skiljast af ókunnugum við 4 ára aldur.

Hafi foreldrar áhyggjur af málþroska eða tali barna sinn geta þeir snúið sér til kennara barnsins og óskað eftir mati á stöðu þess m.a. með skimunarprófum sem sérkennsluaðilar leik- og grunnskóla hafa yfir að ráða. Í ung- og smábarnavernd heilsugæslunnar er gert þroskamat reglulega og foreldrar geta rætt áhyggjur við hjúkrunarfræðing í heilsugæslunni. Mörg sveitarfélög koma að  mál og talþjálfun vegna vægari frávika og raskana hjá börnum. Í ákveðnum tilvikum fer sú þjálfun fram í leik- og grunnskólum meðal annars í málörvunarhópum.

Í köflum um þroska barna á mismunandi aldri má lesa um eðlilegan málþroska miðað við aldur.

Á Lærum og leikum með hljóðin er hægt að leika með og þjálfa íslensku málhljóðin um leið og bætt er í orðaforða og setningamyndun.