Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Málörvun

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Máltaka barna er ferli sem hefst strax á meðgöngu og löngu áður en barnið segir sín fyrstu orð er það að læra tungumálið af því sem það heyrir. Því er mikilvægt að barnið heyri móðurmál sitt og talað sé við það. Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga og örva máltöku barna. Þá má nota í samræmi við aldur og þroska barnsins.

Að byggja upp orðaforða

  • Nota almennt stuttar setningar við barnið og kveða skýrt að hverju orði.
  • Nefna heiti hluta og atburða sem koma fyrir í daglegum samskiptum við barnið.
  • Herma eftir barninu stök orð og setningar, með hvetjandi áherslu og leiðréttum framburði.
  • Hlusta á barnið og svara því þegar segir eitthvað, örva þannig málnotkun þess.
  • Gefa barninu tíma þegar það sýnir viðleitni til að tala. Veita því hrós og hvatningu.

Skoða myndir með barninu. Nota einfaldar myndabækur eða myndaspjöld með 1-4 myndum, t.d. úr Lottó-spilum. Í upphafi getur reynst vel að nota ljósmyndir af fólki, dýrum eða hlutum sem barnið þekkir. Þegar geta barnsins eykst má nota bækur með meiri fjölda mynda (t.d. Orðabelg).

  • Stoppa við hverja mynd, benda á og nefna. Reyna svo að láta barnið benda á mynd sem spurt er um t.d. hvar er kisa? Gott er að hafa eina mynd á blaðsíðu til að byrja með en svo má láta barnið velja rétta mynd af 2 eða fleiri þroskinn vex. Nota handstýringu ef barnið þarf hjálp við að benda með vísifingri.
  • Reyna að láta barnið sjálft nefna myndirnar eða hvað er að gerast, spyrja t.d.: hver er þetta, hvað heitir þetta, hvað segir/gerir þessi, hvað er þessi að gera?

Að ýta undir hlustun

  • Lesa einfaldar bækur fyrir barnið.
  • Hlusta á barnaefni, t.d. leikrit og söng.
  • Hlusta/horfa á með barninu á gott íslenskt barnaefni. Stoppa við og ræða hvað sáum við? Hvað var að gerast?
  • Syngja fyrir barnið t.d. barnagælur eða vísur.
  • Hlusta á mismunandi tegundir hljóða, til dæmis dýrahljóð, hljóð í hlutum sem barnið þekkir.  Spyrja barnið hvað var þetta? Hver gerir svona hljóð?

Almennt

  • Fara í söng- og hreyfileiki með barninu.
  • Æfa orð, andlitsglennur, hljóðamyndun og ýmis orð í leik fyrir framan spegil.
  • Æfa andlitsvöðva með því að sjúga og blása í gegnum rör. T.d. er hægt að búa til leik eða keppni við að blása borðtenniskúlum í mark. Einnig að blása sápukúlur.
  • Nota sjónræna hjálp meðfram orðum, s.s. bendingar, hluti, myndir, eða önnur tákn sem barnið getur skilið. Þetta getur líka gagnast við að ná og viðhalda athygli barnsins.
  • Leiðrétta á jákvæðum nótum. Hefja leiðréttingu orðs á já ... og endurtaka orðið svo rétt með áherslu. Ekki er gott að byrja leiðréttingu á að segja nei ...
  • Hafa í huga að gera ekki meiri kröfur til skilnings en barnið ræður við.
  • Örva úthald barnsins með því að gefa því verkefni sem hafa skýrt upphaf og skýran endi, leggja áherslu á að klára og umbuna síðan fyrir. Hafa fyrst stutt verkefni og pásur á milli, lengja smám saman vinnutímann eftir því sem geta barnsins og úthald eykst.
  • Ýta undir fjölbreytni í leik og verkefnavinnu, t.d. að byggja saman úr kubbum (t.d. trékubbum), teikna, lita, mála og fara í spil sem hæfa þroska barnsins.
  • Ýta almennt undir eftirhermu, að gera til skiptis (fyrst ég, svo þú og fyrst þú, svo ég), herma hljóð, hreyfingar, athafnir eftir hvort öðru.