Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Fósturhreyfingar

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Það er skemmtilegt og áhugavert að kynnast barni sínu á meðgöngunni. Móðirin fylgist með daglegum hreyfingum barnsins sem gefur henni tækifæri til þess að vera í nánum tenglsum við það og þannig lærir hún að þekkja hreyfingarmynstur þess. Staðsetning fylgju getur haft áhrif á hvernig móðir upplifir hreyfingarnar og hvenær hún byrjar að finna fyrir þeim. Fylgja á framvegg getur valdið því að hreyfingar finnast aðeins síðar en ella og ekki jafn kröftugar til að byrja með. En hvert barn er einstakt og því er mikilvægt að þekkja hvað er eðlilegt fyrir barnið þegar kemur að tíðni og mynstri hreyfinga. Barnið á að halda áfram að hreyfa sig reglulega út meðgönguna. Hreyfingar barnsins eru besta merkið um að barninu líði vel.

Fyrstu hreyfingar barnsins eru eins og loftbólur eða ólga í maganum en smám saman skynjar móðirin greinileg spörk og hreyfingar sem gefa henni staðfestingu á lífinu sem vex innra með henni. Frá 18-24 vikum finna konur sífellt meira fyrir hreyfingum barnsins og þær verða kröftugri upp að 32 vikum. Eftir það haldast þær svipaðar út meðgönguna. Hins vegar breytist skynjun fósturhreyfinga þegar dregur nær fæðingunni. Barnið færist neðar í grindina og skorðar sig sem veldur því að tilfinningin fyrir hreyfingum þess verður önnur. Barnið tekur meira pláss með aukinni stærð og getur því ekki hreyft útlimi eins mikið. Eftir því sem fæðingin nálgast aukast samdrættir í leginu sem getur valdið því að hreyfingar finnast ekki eins vel.

Þekkja hreyfingar

Ef þú ert óviss hvort einhverjar breytingar hafa orðið getur verið gott að koma sér fyrir í ró og næði til þess eins að meta hreyfingar barnsins. Taktu eftir hversu lengi barnið er að hreyfa sig tíu sinnum. Hreyfingarnar geta falið í sér spörk eða hnoð. Hiksti er ekki hreyfing. Ef þú finnur fyrir 10 hreyfingum á innan við 2 klukkustundum og barnið heldur áfram að hreyfa sig eins og venjulega þá getur þú verið róleg. Ekki er mælt með notkun tækja til heimanota til að nema hjartslátt því það er ekki nægjanlegt til að meta vellíðan barnsins.

Hlusta á eigið innsæi

Það er alltaf mikilvægt að hlusta á eigið innsæi. Þó flestar meðgöngur gangi vel fyrir sig þá hefur verið sýnt fram á að minnkaðar hreyfingar barns geti bent til þess að barnið sé í vanda. Ef hreyfingar barns eru minni en þú ert vön að finna þá ættir þú að ræða við ljósmóður eða lækni. Ekki bíða til morguns eða eftir næsta tíma í mæðravernd.

Vaktsími heilsugæslunnar 5131700 eða 1700 er opinn allan sólarhringinn. 

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku