Orkudrykkir

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Hvað eru orkudrykkir?

Orkudrykkir eru drykkir með háu innihaldi koffíns auk þess sem algengt er að þeir innihaldi vatnsleysanleg vítamín, stundum í miklu magni, svo sem taurín, glucuronolactons, amínósýrur, o.fl. Orkudrykkir innihalda ekki meiri orku (hitaeiningar) en margir aðrir drykkir og í dag er í raun algengt að þeir séu hitaeiningasnauðir. Þessara drykkja er neytt með það að markmið að ná fram örvandi áhrifum.

Hvaða áhrif hefur koffín á líkamann?

Koffín sem er í orkudrykkjum er vanabindandi efni sem veldur m.a. útvíkkun æða, örari hjartslætti og auknu blóðflæði til allra líffæra. Ef koffíns er neytt í miklu magni þá getur það haft ýmis óæskileg áhrif á líðan og heilsu fólks. Það getur t.d. valdið hjartsláttartruflunum, hækkuðum blóðþrýstingi, höfuðverk, svima, ógleði, kvíða og haft neikvæð áhrif á svefn. Börn og ungmenni eru almennt viðkvæmari fyrir koffíni en fullorðnir og er neysla koffíns því sérstaklega óæskileg fyrir þann hóp.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Hér getur þú tekið prófið, séð hver staðan er og hvernig þú getur bætt þig.

Hvaða áhrif hefur neysla orkudrykkja á tennur?

Mikil og tíð neysla sætra og sykurlausra orkudrykkja getur skaðað tennur með því að leysa upp glerung þeirra. Tennurnar verða þá næmari fyrir hita og kulda. Munnvatnið verndar tennurnar en verndunarmáttur þess verður lítill ef „súr“ orkudrykkur (pH < 5.5) fær að „baða“ tennurnar með jöfnu millibili. Glerungseyðing er vaxandi vandamál hjá börnum og ungmennum á Íslandi.

Orkudrykkir á markaði

Tegundum orkudrykkja á markaði hér á landi hefur fjölgað mikið síðustu ár auk þess sem orkudrykkir með mjög háu innihaldi koffíns eru komnir á markað. Hér á landi gilda þær reglur fyrir orkudrykki sem innihalda 150 mg/l af koffíni eða meira að merkja skuli vörurnar með orðunum „Inniheldur mikið af koffíni. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“. Sterkari orkudrykki, þ.e. sem innihalda 320 mg/l eða meira af koffíni, má ekki selja hér á landi nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar en nokkrar slíkar vörur hafa fengið leyfi. Slíkt leyfi felur í sér að markaðssetning varanna eigi að einskorðast við fullorðna og að bannað sé að selja þessar vörur einstaklingum undir 18 ára aldri.

Neysla koffíns - Börn og unglingar

Samkvæmt niðurstöðum kannana hjá Rannsóknum og greiningu við Háskólann í Reykjavík drukku 30% nemenda í 8. bekk og 47% nemenda í 10 bekk orkudrykki reglulega árið 2020 (einu sinni í viku eða oftar). Sömu spurningar voru lagðar fyrir framhaldsskólanema árið 2021 þar sem 54% nemenda á 1. ári og 68% nemenda á 3. ári drukku orkudrykki reglulega (einu sinni í viku eða oftar). Á bilinu 30 – 44% nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum sem drukku orkudrykki fóru yfir viðmiðunarmörk hvað varðar koffínmagn, per kíló líkamsþyngdar á dag, sem hefur neikvæð áhrif á svefn. Eftir því sem nemendur voru eldri því hærra hlutfall nemenda fór yfir þessi neikvæðu mörk varðandi svefn.

Hámarksneysla - Börn og unglingar

Hámark daglegrar koffínneyslu fyrir börn og unglinga er sett við 1,4 mg fyrir hvert kíló líkamsþyngdar (sjá töflu 1) sem þýðir að barn sem vegur 20 kíló ætti ekki að neyta meira en 28 mg af koffíni á dag. Til samanburðar er gott að vita að hálfur lítri af kóladrykk gefur um 65 mg af koffíni. Athugið að koffín er einnig í fleiri fæðutegundum t.d. súkkulaði (sjá töflu 2).

Algengt er að koffín hafi áhrif á svefn barna og þau einkenni geta komið fram ef neyslan er 1,4 mg á hvert kíló líkamsþyngdar eða meiri.

Einnig getur neysla á orkudrykkjum samhliða hreyfingu valdið hjartsláttartruflunum. 

Ekki ætti að nota orkudrykki til að slökkva þorsta eftir íþróttaæfingar eða á meðan á þeim stendur. Það getur aukið vökvatap líkamans enn frekar vegna áhrifa koffíns á þvagmyndun.

Hámarksneysla koffíns á dag fyrir mismunandi hópa

Aldurshópur Magn koffíns
Fullorðnir 400 mg
Barnshafandi konur     200 mg
Börn og unglingar* 1,4 mg á hvert kíló líkamsþyngdar

*Algengt er að koffín hafi áhrif á svefn barna. Viðmiðunarmörk fyrir neikvæð áhrif á svefn eru 1,4 mg á hvert kíló líkamsþyngdar.

*Öryggismörk fyrir áhrif á hjarta- og æðakerfi eru 3 mg á hvert kíló líkamsþyngdar

Dæmi um magn koffíns í drykkjum og súkkulaði

Vörutegund Magn koffíns
Orkudrykkur (330ml) 100-180 mg
Kaffibolli (200ml) 100 mg
Kóladrykkur (500ml) 50 mg
Svart te (200ml) 35 mg
Dökkt súkkulaði (50g)    33 mg
Kakódrykkur (250 ml) 4,5 mg

Orkudrykkir og áfengi

Ef neytt er orkudrykkja með áfengi gerir koffínið það að verkum að menn eru síður meðvitaðir um hversu drukknir þeir eru og innbyrða þá oft meira áfengi. Niðurstöður rannsókna hafa tengt neyslu orkudrykkja við áhættuhegðun, sérstaklega þegar þeirra er neytt með áfengi.

Viltu vita meira?

Lesa má meira um koffín á vef Matvælastofnunar og þar er einnig að finna ítarlegra efni um orkudrykki.

Rannsóknarteymi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) birti greina í tímaritinu Frontiers in Public Health um orkudrykki.

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.