Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Verðandi mæður

Kaflar
Útgáfudagur

Bólusetningar á meðgöngu geta verið nauðsynlegar en þær eru ekki allar taldar æskilegar. Alltaf þarf að vega og meta áhættu af bólusetningu á móti ávinningnum. Best er að ráðfæra sig við lækni um það í hverju tilviki fyrir sig. Ef til vill er best að bíða með ferðalög til landa þar sem bólusetningar er þörf, þar til eftir fæðingu.

Þó er mælt með því að barnshafandi konur fái bólusetningu gegn inflúensu og kíghósta.

Inflúensa

Mælt er með að barnshafandi konum sé boðin bólusetning gegn árlegri inflúensu þar sem þeim er hættara við alvarlegum veikindum ef þær sýkjast.

Bólusetja má hvenær sem er á meðgöngu og hafa í huga að bólusetning er gagnleg þótt faraldur sé hafinn. Nýburinn nýtur góðs af bólusetningunni fyrstu mánuði ævinnar.

Bólusetningin er barnshafandi konum að kostnaðarlausu.

Kíghósti

Mælt er með að barnshafandi konur fái bólusetningu við kíghósta með samsettu bóluefni með barnaveiki- og stífkrampabóluefnum í 28. vikna skoðun.

Kíghósti er enn nokkuð algengur hér á landi þrátt fyrir ágæta þátttöku í almennum bólusetningum. Hann greinist hér að einhverju marki flest ár en það koma toppar á 2-5 ára fresti. Undanfarin 10 ár hafa börn undir 6 mánaða aldri greinst með kikhósta flest ár. Rúmlega helmingur þeirra undir 3ja mánaða aldri þegar þau veiktust og þar af nokkur sem lágu alvarlega veik á sjúkrahúsi.

Ef móðir er bólusett á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngu myndar hún verndandi mótefni sem fylgjan flytur til barnsins frá 32. viku meðgöngu. Mótefnin geta varið barn frá fæðingu fram til um 6 mánaða aldurs. Þá hafa flest börn sem bólusett eru samkvæmt almennum bólusetningum á Íslandi myndað eigin vörn gegn kíghósta.

Síðasti skammtur af kíghóstabóluefni sem gefinn er í almennum bólusetningum hérlendis er við 14 ára aldur. Bóluefnið sem nú er notað, svokallað frumulaust bóluefni, veitir yfirleitt 5-10 ára vörn. Flestir fullorðnir einstaklingar hérlendis eru því smitnæmir og geta borið sýkinguna til nýbura sem ekki hafa sjálfir verið bólusettir.

Bólusetningin er barnshafandi konum að kostnaðarlausu. 

Ljósmóðir í síma 513-1700 alla virka daga milli 10-12