Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Langvinn lungnateppa (LLT)

Kaflar
Útgáfudagur

Langvinn lungnateppa, LLT (e. Chronic obstructive pulmonary disease, COPD) er lungnasjúkdómur sem veldur öndunarörðugleikum. LLT felur í sér bæði lungnaþembu (emphysema) og langvinna berkjubólgu (chronic bronchitis). Hvorutveggja veldur truflun á loftflæði í berkjum (teppu).

Lungnaþemba

Í lungnablöðrum fara fram loftskiptin. Við lungnaþembu hafa orðið skemmdir vegna utanaðkomandi áreitis. Vegna bólgu renna blöðrurnar saman, stækka og missa teygjanleika sinn. Lungun geta þá ekki þanist út og dregist saman á eðlilegan hátt. Þegar lungnablöðrurnar renna saman að þá fækkar þeim um leið og það skerðir upptöku súrefnis til líkaman og í sumum tilfellum losun koltvísýrings frá líkamanum.

Langvinn berkjubólga

Langvarandi erting veldur því að bólga myndast í berkjunum með þeim afleiðingum að þær þrengjast. Minna pláss verður fyrir loft í öndunarveginum og andardrátturinn þyngist. Slímframleiðsla eykst og tíðni sýkinga í kjölfarið.

Langvinn lungnateppa er alvarlegur sjúkdómur sem ekki er hægt að lækna og hann versnar yfirleitt með tímanum. En það eru til meðferðir sem hjálpa.

Einkenni

Í fyrstu eru yfirleitt lítil eða engin einkenni. En eftir því sem sjúkdómurinn versnar kemur fram:

  • Mæði, sérstaklega við hreyfingu
  • Blásturshljóð við andardrátt
  • Hósti og slímmyndun

Fólk sem hefur haft LLT langan tíma er einnig í aukinni hættu á að fá:

  • Sýkingar eins og lungnabólgur
  • Lungnakrabbamein
  • Hjartasjúkdóma

Hægt er að fylgjast með einkennum með því að taka LLT-prófið  

Orsakir

Algengasta orsök langvinnrar lungnateppu eru reykingar þar sem þær geta skaðað lungun til frambúðar.

Aðrir þættir sem geta stuðlað að langvarandi lungnateppu eru:

  • Innöndun af eiturefnum og gasefnum
  • Óbeinar reykingar
  • Öndunarfærasýkingar á barnsaldri
  • Astmi á alvarlegu stigi
  • Í einstaka tilfellum eru erfðafræðilegar orsakir

Greining

Á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum er hægt að framkvæma öndunarmælingu til að kanna hvort þú ert með langvinna lungnateppu. Öndunarmælingin felst í því að draga djúpt andann og síðan blása eins fast og hratt og þú getur í rör sem er tengt við tæki. Tækið mælir hversu miklu lofti þú nærð að blása frá lungunum og hversu hratt.

Ef niðurstaðan úr öndunarmælingunni er ekki eðlileg, færðu líklega púst og síðan er prófið endurtekið eftir nokkrar mínútur. Þetta hjálpar við að greina hvort vandamálið sé vegna langvinnrar lungnateppu eða annarra lungnavandamála eins og astma. Fólk með astma fær venjulega eðlilega niðurstöðu úr prófinu eftir að það notar pústið. En fólk með langvinnan lungnasjúkdóm fær ekki eðlilega niðurstöðu þrátt fyrir púst.

Hér getur þú lesið nánar um öndurmælingu.

Meðferð

Það eru 4 megin meðferðir við langvinnri lungnateppu:

  • Lyf - Yfirleitt eru púst notuð til að opna betur öndunarveginn og minnka bólgur. Einnig er notast við steratöflur sem minnka líka bólgur.
  • Súrefni - Ef sjúkdómurinn versnar gætir þú þurft að nota súrefni, heilbrigðisstarfsfólk mun líklega mæla hjá þér súrefnismettun.
  • Endurhæfing - þar lærir þú æfingar og leiðir sem auðvelda þér öndun.
  • Skurðaðgerð - Mjög sjaldgæft en þá er skemmdur hluti lungna fjarlægður.

Hvað get ég gert?

  • Hættu að reykja - ef þú reykir. Það er það mikilvægasta sem þú getur gert. Það skiptir ekki máli hversu lengi þú hefur reykt eða hversu mikið. Að hætta að reykja mun hægja á sjúkdómnum og þér mun líða betur. Það er aldrei of seint að hætta.
  • Láttu bólusetja þig gegn inflúensu á hverju ári og minnst einu sinni gegn lungnabólgu. Því inflúensur og lungnabólgur geta haft mjög slæm áhrif á lungun og því mikilvægt að vernda þau.
  • Taktu málin í þínar hendur, þú getur viðhaldið lífsgæðum þínum þrátt fyrir sjúkdóminn. Hér er Handbók um Betra líf með langvinna lungnateppu (LLT) þar er að finna mörg góð ráð og hagnýtar leiðbeiningar. Eitt þeirra ráða er að hreyfa sig reglulega. Ef þú þarft stuðning til þess ættir þú að ræða það við lækninn þinn sem getur ávísað hreyfiseðli og með honum getur þú fengið aðstoð við að koma hreyfingu inn í líf þitt.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ráðlagt er að vera í góðum samskiptum við heimilislækni og fagfólk heilsugæslunnar. Gera áætlun um reglulegt eftirlit til heilsugæslunnar með heimilislækni.

Hafa samband við heilsugæslu ef:

  • Brjóstverkur
  • Einkenni versna og fram koma andþyngsli í hvíld eða á nóttunni
  • Grunur um lungnasýkingu
  • Lyfin eru ekki virka jafn vel og áður

Finna næstu heilsugæslustöð hér.

Hér er hægt að finna upplýsingar um réttindi við veikindi.

12 ástæður fyrir því að fara í öndunarmælingu:
  1. Aukin mæði síðastliðin ár
  2. Áhyggjur af lungnaheilsu
  3. Ert, eða hefur verið reykingamaður
  4. Eldri en 40 ára
  5. Finnur fyrir mæði við að ganga upp stiga 
  6. Finnur fyrir hvæsandi öndun undanfarin ár
  7. Hreyfigeta minni en áður
  8. Hóstar upp slími þrátt fyrir enga kvefpest
  9. Hósti í langan tíma
  10. Hefur fengið meðferð (t.d. innöndunarlyf) vegna lungnasjúkdóms
  11. Líðan eins og súrefnisinntaka sé ekki nóg
  12. Verkur við inn- eða útöndun