Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Nikótínfíkn

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Það líða ekki nema 7-10 sekúndur frá því maður dregur að sér sígarettureyk þar til nikótínið er komið upp í heila. Þar losna úr læðingi efni sem hafa róandi eða örvandi áhrif. Það eru þessi áhrif sem reykingamenn ánetjast.

Nikótínfíknin kemur býsna fljótt fram og menn ánetjast ekki síður nikótíni en heróíni og kókaíni.

Nikótín er eitt sterkasta taugaeitur sem þekkist.
Hin sterka eiturverkun stafar af því að nikótín líkist mikilvægu boðefni í taugakerfinu, asetýlkólíni. Búnaðurinn á taugaendunum, sem tekur við boðunum, nefnist nemi. Í heilanum og annars staðar í taugakerfinu eru fjölmargir asetýlkólín-nemar. Þeir eru sérlega margir í grennd við vellíðunarstöð heilans. Nikótín og asetýlkólín keppa um nemana.

Til að útskýra hvernig nikótínnemarnir bregðast við tóbaksneyslu er hægt að draga upp mjög einfaldaða mynd. Þegar einhver reykir sígarettu í fyrsta skipti stíflast allir nemarnir. Þessum byrjanda í reykingum líður ekki vel og hann fær ýmis önnur einkenni nikótíneitrunar en þau líða fljótt hjá. Óþægindin koma aftur við næstu sígarettur. Það er vanalega ekki fyrr en eftir 40-60 sígarettur að öll merki um nikótíneitrun eru horfin. Þá fyrst er reykingamaðurinn búinn að öðlast þol fyrir nikótíninu.

Talið er að nikótínþolið komi við það að nikótínnemunum fjölgar. Þannig er þessu líklega háttað hjá flestum nikótínfíklum. Auk þess telja menn að nikótínnemunum fækki ekki aftur þó að reykingum sé hætt. Það getur skýrt að hluta til hvers vegna margir, sem hafa hætt, geta byrjað aftur eftir bara eina sígarettu.

Hægt er að fá meðferð og stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 5131700.  


Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína