Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kynvitund

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Öll höfum við kynvitund og upplifum því kyn okkar á einhvern hátt. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits.

Flest fólk hugsar lítið sem ekkert út í kynvitund sína því hún samræmist því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Það er kallað að vera sískynja.

Annað fólk efast eða er fullvisst um að það kyn sem því var úthlutað við fæðingu sé ekki þess rétta kyn. Það er kallað að vera trans.

Það trans fólk sem upplifir kyn sitt hvorki sem karl eða konu heldur utan tvíhyggju kynjakerfisins er kallað kynsegin. 

Kyntjáning segir til um hvernig fólk tjáir kynvitund sína dagsdaglega út á við, til að mynda með klæðavali og líkamstjáningu. Kyntjáning er hluti af lífi allra. Fólk tjáir kyn sitt með ólíkum hætti og þó samfélagið og tíðarandinn hafi oft tilhneigingu til að steypa öll í sama mót þá megum við öll tjá kyn okkar á þann hátt sem við viljum hverju sinni. Það má vera með skegg í pinnahælum og í jakkafötum og gönguskóm með silkiklút.

Sumt kynsegin fólk kýs að notuð séu kynhlutlaus orð þegar rætt er um það. Það er persónulegt val hvers og eins. Hið sama má segja um beygingar lýsingarorða. Sumt kynsegin fólk kýs að notað sé hvorugkyn (til dæmis: ég er svangt) en annað kynsegin fólk notar kvenkyn eða karlkyn. Engin ein leið er rétt í þessum efnum og mikilvægt er að virða val hvers og eins og spyrja fólk hvaða orð það kýs að nota.

Dæmi um orð:

Hán er ókyngreint persónufornafn. Kyngreindu orðin eru hún og hann.
Stálp er nafnorð um kynsegin barn eða ungmenni samanber stelpa og strákur.
Kvár er nafnorð um kynsegin fullorðna manneskju samanber karl og kona.

Að vera trans

Trans karl eða trans kona?

Það að vera trans vísar til kynvitundar en ekki kynhneigðar. Trans fólk getur verið af hvaða kynhneigð sem er.

Margt fólk á erfitt með að átta sig á orðunum trans karl og trans kona. Alltaf er talað um fólk í því kyni sem það er í dag. Þannig að trans karl er til dæmis manneskja sem við fæðingu var úthlutað kvenkyni en lifir í dag sem karl.

Sumt trans fólk kýs að nota orðið trans um sjálft sig og segist til að mynda vera trans kona. Annað trans fólk notar það hugtak lítið eða alls ekki um sjálft sig. Þar geta legið ólíkar ástæður að baki. Margt trans fólk upplifir það sem mótandi þátt fyrir sjálfsmynd sína að hafa farið í gegnum kynstaðfestandi ferli eða verið álitið af öðru kyni í æsku. Þannig finnst því mikilvægt að nota orðið trans um sjálft sig til að leggja áherslu á hversu stór og mótandi þáttur það er að vera trans. Annað trans fólk upplifir þetta á ólíkan hátt og finnst það að vera trans ekki miðlægur þáttur í þeirra sjálfsmynd. Þeim finnst mikilvægara að vera kona, karl eða manneskja fremur en trans kona, trans karl eða trans manneskja og vilja stundum síður að annað fólk viti að það sé trans. Mikilvægt er að virða val hvers og eins í þessum efnum.

Trans börn

Vegna þess hve mjög umræðan um trans málefni hefur opnast er trans fólk sífellt yngra þegar það getur tjáð sig um kynvitund sína. Á Íslandi í dag eru fjölmörg dæmi um börn á grunnskólaaldri og jafnvel á leikskólaaldri sem eru trans og lifa í samræmi við það kyn sem þau upplifa að passi þeim best.

Sum börn kanna kyn sitt allt frá unga aldri og verða eins konar kynjakönnuðir. Mikilvægt er að gefa þeim svigrúm til þess og tækifæri til að lifa utan hefðbundinna staðalímynda um kyn. Það þarf því að mæta börnunum þar sem þau eru og skapa þeim umhverfi án fordóma, væntinga og þrýstings.

Þjónusta við trans börn getur verið margvísleg en mögulega er ekki þörf á þjónustu fagaðila í öllum tilfellum. Þörf fyrir þjónustu miðast við líðan barns/ungmennis, kynama, kynþroska og þörf á mögulegum inngripum.

Líðan hinsegin og trans barna

Því miður benda kannanir til að mörgum hinsegin börnum hér á landi líði ekki vel, meðal annars er hærri tíðni þunglyndis, einangrunar, sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvígshugsana en meðal jafnaldra. Ætla má að líðan trans barna sé ekki betri en líðan annarra hinsegin barna. Með því að veita börnunum stuðning og nálgast þau á þeim stað sem þau eru er þeim gefið tækifæri til að blómstra. Ráðleggingar sérfræðinga eru alltaf að aðstandendur mæti barninu sínu það er statt og virði óskir þess. Barnið þarf svigrúm til að prófa sig áfram og þróa sína kynvitund. Mótstaða eða mótþrói foreldra eða forsjáraðila getur haft neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir barnið og er ekki líklegt að beri árangur.

Kynami

Kynami (e. gender dysphoria) er orð yfir þá tilfinningu sem skapast þegar kynvitund einstaklings stangast á við líkamleg kyneinkenni. Þessari tilfinningu fylgir oft mikil vanlíðan og aftenging einstaklings við líkama sinn. Einstaklingar geta upplifað ama tengdan líkama sínum án þess að það tengist kynvitund.

Trans einstaklingar geta upplifað töluverðan kynama og þurft á faglegri aðstoð að halda og mögulega inngripum með hormónum eða skurðaðgerðum.

Kynami getur einnig tengst félagslegum aðstæðum meðal annars ef ekki eru notuð rétt fornöfn og/eða einstaklingur er nefndur öðru kyni en hann upplifir það rétta. 

Kynstaðfestandi ferli

Sumt trans fólk kýs að fara í gegnum kynstaðfestandi ferli. Segja má að ferlið sé tvískipt:

Félagslegt ferli felst meðal annars í því að einstaklingurinn breyti kyntjáningu sinni, t.d. klæðist fötum sem falla betur að kynvitund einstaklingsins, fjarlægi líkamshár eða leyfa þeim að vaxa óáreittum, hreyfa sig á annan hátt og ásamt fleiru sem á þátt í að breyta því hvernig samfélagið les kyngervi einstaklingsins.

Læknisfræðilegt ferli á Íslandi fer fram í gegnum trans teymi Landspítalans. Með því að byrja kynstaðfestandi ferli hjá lækni getur einstaklingurinn t.d. valið að fara í hormónameðferð, fara í talþjálfun, gangast undir skurðaðgerðir og fleira. Það er einstaklingsbundið hvort og þá hvaða læknisfræðilega úrræði einstaklingur velur fyrir sig. Sem dæmi kýs sumt trans fólk að fara eingöngu á hormóna en sleppir öllum aðgerðum. Hægt er að vera trans hvort sem kosið er að nýta sér eitthvað af þeim félagslegu eða læknisfræðilegu úrræðum sem lýst er hér að ofan eða ekki.

Aðstandendur

Það getur komið sumum foreldrum/forsjáraðilum á óvart þegar barn/ungmenni opnar á að það sé trans. Fyrir aðra kemur það ekki á óvart. Þessi tilfinningalegu viðbrögð eru eðlileg í báðum tilvikum.

Það er mikilvægt að muna að hver einstaklingur er einstakur og mun fara sína eigin leið, þetta ferli tekur tíma og það þarf ekki allt að gerast á einu bretti. Mikilvægast er að barnið finni og viti að það er elskað skilyrðislaust sama hvernig það skilgreinir kynvitund sína.

Þetta getur verið flókið og erfitt ferli sem krefst þolinmæði, tíma og skilnings. Samþykki og stuðningur er lykillinn að því að barnið nái að njóta lífsins.

Það getur reynst foreldrum/forsjáraðilum gagnlegt að leita sér ráðgjafar í nærumhverfi, til dæmis hjá heilsugæslu, námsráðgjöfum, fjölskyldufræðingum, stuðningshópum og Samtökunum '78 svo fátt eitt sé nefnt.

Hvað er barn mögulega að upplifa?

Sum börn eða ungmenni fela það hvernig þeim líður. Þau eru meðvituð um vanþekkingu í samfélaginu.
Ungmenni geta verið hrædd við að upplýsa foreldra sína um kynvitund sína vegna ótta við að fá ekki stuðning eða skilning. Jafnvel eru sum þeirra hrædd um að þeim verði hafnað. Það er mikilvægt að vita að flest þeirra munu tala við foreldra/forsjáraðila þegar þau eru tilbúin og munu vera þakklát fyrir þann stuðning sem þau fá.

Hvað er fjölskyldan mögulega að upplifa?

Nánir aðstandendur geta upplifað ringulreið, depurð, reiði og sorg og þurfa tíma til að takast á við breyttar aðstæður. Foreldrar ættu að sýna sjálfum sér þolinmæði og mildi á þessum tímapunkti. Þessar tilfinningar koma ekki í veg fyrir að þeir geti stutt við barnið sitt. Gott er að finna sér vettvang til að vinna úr þessum tilfinningum og reyna eftir fremsta megni að hlífa barninu við þeim.

Jafnvel þó þetta komi nánum aðstandendum ekki á óvart, þá geta samt sem áður vaknað upp áhyggjur varðandi öryggi, hamingju og framtíð barns. Flestir nánir aðstandendur upplifa ákveðinn vanmátt og vanþekkingu á málefninu. Þeir hafa áhyggjur af hvernig þeir geta leiðbeint og hjálpað barninu/ungmenninu sem dæmi gagnvart jafnöldrum, skólaumhverfi, systkinum, stórfjölskyldu og samfélaginu.

Í byrjun getur þetta verkefni verið yfirþyrmandi og upplifa nánustu aðstandendur gjarnan að upphaf þessa ferðalags sé erfiðast. Óöryggi getur fylgt því að koma barni í réttan farveg og margar spurningar vakna, er varða heilbrigðiskerfið og trans ferlið. En með tímanum og aukinni þekkingu og stuðning verður ferlið auðveldara.