Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Slysavarnargátlisti heimilisins

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Til að tryggja öryggi ungra barna á heimilinu þarf að gera athugun á því hvort þekktar hættur séu á heimilinu og þær síðan lagfærðar í kjölfarið.

Gott er að styðjast við gátlistann en hann byggir á íslenskri rannsókn á slysum á börnum á heimilum. Listinn er einfaldur í notkun en hér að neðan er að finna frekari skýringar og leiðbeiningar um hvernig hægt er að lagfæra þessi atriði. Það tekur u.þ.b. 15 til 30 mínútur að gera skoðun á heimilinu. Ráðlagt er að gera þetta áður en þetta barnið verður 3 mánaða. Í kjölfarið laga það sem þarf en öruggast er að klára það áður en barnið nær 5 mánaða aldri.

Eldhús

Eru hnífar, skæri og þess háttar áhöld geymd í hirslu með öryggislæsingu?

Öryggislæsingar fyrir skúffur og skápa þurfa að standast staðal EN 16948 en á markaði eru margar læsingar sem ekki standast ströngustu kröfur og því afar auðvelt fyrir börn að opna þær.

Er eldavélin fest við vegg?

Frístandandi eldavélar þurfa að vera festar við vegg. Ef barn opnar bakaraofninn og klifrar upp á opna hurðina á bakaraofninum getur eldavélin fallið yfir barnið með alvarlegum afleiðingum. Aftan á öllum eldavélum eru göt fyrir festingar, auðvelt er að taka af þeim mynd og ráðfæra sig við byggingarvöru verslun um hvaða festingar skuli nota.

Ef bakaraofninn er hluti af eldhúsinnréttingu þarf að kanna hvort hann sé ekki örugglega fastur við innréttinguna. Algengt er að þeir séu lausir en börnum hefur tekist að toga ofninn út og hann dottið á þau með alvarlegum afleiðingum.

Hitnar hurðin á bakaraofninum að utan?

Ef ofninn er ekki með kælikerfi eða með góða einangrun þannig að hurðin og glerið hitnar óeðlilega mikið þarf að hindra aðgengi barnsins að honum. Til dæmis er hægt að láta útbúa plexígler plötu sem passar frama á ofninn. Plexíglerið einangrar mesta hitann og ver barnið gegn bruna. Einnig eru fáanlegar öryggis grindur til að festa framan á ofninn.

Eru takkar á eldavél varðir þannig að barn komist ekki í þá?

Hægt er að fá læsingu sem sett er yfir takka til að barninu takist ekki að kveikja á eldavélinni. Flestar nýrri eldavélar eru með barnalæsingu sem hægt er að virkja til að koma í veg fyrir að barn geti kveikt á eldavélinni.

Er öryggislæsing á hurð bakaraofns?

Flestir nýlegri ofnar eru með barnalæsingu til að koma í veg fyrir að börn geti opnað þá. Ef ofninn er ekki með læsingu er hægt að kaupa örugga læsingu sem hægt er að koma fyrir utan á ofninum. Notið einungis læsingu sem stenst EN 16948

Eru eingöngu aftari hellurnar notaðar við matargerð?

Öruggast er að nota aftari hellur á helluborði, ef það er hægt, en það minnkar líkurnar á að barnið geti togað potta og pönnu yfir sig. Góð regla er að tryggja að ung börn séu ekki að leika sér nálægt eldvélinni þegar hún er í notkun.

Eru heimilistæki staðsett þannig að ung börn komist ekki að þeim?

Góð regla er að taka heimilistæki úr sambandi eftir notkun ef þau eru látin standa frammi. Gætið þess að rafmagnssnúrur hangi ekki út fyrir borðplötuna. Hægt er að stytta snúrur til dæmis með því að vefja þeim saman og setja á þær teygju.

Eru efni fyrir uppþvottavél og önnur hreinsiefni í efri skáp eða læstri hirslu?

Koma þarf öllum hættulegum efnum fyrir í efri skáp þar sem þau vekja síður athygli barnsins. Setjið öryggislæsingu á skáinn sem stenst EN 16948

Eru lyf og vítamín í efri skáp eða læstri hirslu?

Koma þarf öllum hættulegum efnum fyrir í efri skáp þar sem þau vekja síður athygli barnsins. Setjið öryggislæsingu á skápinn sem stenst EN 16948

Er tóbak og nikótín vörur geymd í efri skáp eða læstri hirslu?

Koma þarf öllum hættulegum efnum fyrir í efri skáp þar sem þau vekja síður athygli barnsins.

Eru plastpokar og plastfilmur í geymslu sem börn ná ekki til?

Ung börn og ættu ekki að leika sér með plastpoka og plastfilmur þar sem köfnunarhætta er af þeim. Börnum getur dottið í hug að setja pokana yfir höfuðið á sér en hafa svo ekki vit á að taka þá af sér aftur og eru þar af leiðandi hætt komin af súrefnisskorti. Plastfilmur eru einnig hættulegar því að börn setja þær stundum upp í sig en þær hafa valdið köfnun.

Uppfyllir matarstólinn nýjustu öryggiskröfur?

Matarstólar framleiddir fyrir 2013 eru mjög valtir og því þarf að hafa þá upp við vegg til að koma í veg fyrir að barni takist að spyrna sér frá boðinu og detta aftur fyrir sig. Eining er hægt að fá sérstakar festingar til að festa stólinn við. Stólar framleiddir eftir 2013 eru með spyrnuvörn og því erfitt fyrir börnin að spyrna sér í borðið og falla aftur fyrir sig. Notum ávallt beisli í matarstólinn.

Er öryggislæsing á ísskápnum?

Ef lyf eða önnur hættuleg efni eru geymd í ísskáp er ráðlagt að setja á hann öryggislæsingu sem stenst EN 16948

Er hitastillir á blöndunartækjum í eldhúsi?

Til að koma í veg fyrir bruna af völdum hitaveitu vatnsins, sem er með hættulega hátt hitastig á mörgun stöðum á landinu, þarf að hafa hitastillt blöndunartæki á eldhúsvöskum.

Er oddi hnífa og hvassra áhalda snúið niður við frágang í uppþvottavél?

Sumar uppþvottavélar eru með körfu undir hnífapör. Hnífar, gafflar og aðrir oddhvassir hlutir ættu að snúa niður (handfangið upp). Alvarleg slys hafa orðið þegar lítil börn eru nálægt á meðan verið er að taka úr eða setja í vélina og þau dottið á hnífaparakörfuna.

Baðherbergi

Eru rakvélar og þessháttar áhöld geymd í hirslu með öryggislæsingu eða í efri skáp?

Best er að hafa einn skáp á baðherberginu með öryggislæsingu sem uppfyllir gildandi staðal EN 16948. Þar sem rakvélar og önnur áhöld sem geta valdið litlu barni skaða eru geymd.

Eru snyrtivörur og hreinsiefni í hirslu með öryggislæsingu eða í efri skáp?

Margar snyrtivörur innihalda alkóhól, til dæmis andlitshreinsar og ilmvötn. Börn geta orðið fyrir eitrun ef þau innbyrða þessa vökva. Gæta þarf þess að setja öryggislæsingu sem stenst gildandi staðal EN 16948 á skápinn þar sem þessar snyrtivörur eru geymdar.

Er hálkumotta/strimlar í baðkari/sturtubotni?

Fallslys eru algeng á baðherbergjum vegna rakamyndunar. Gott er að hafa eina stama mottu fyrir framan sturtuna/baðkarið og aðra í botni sturtunnar/baðkarsins til að koma í veg fyrir fall. Best er að hafa mottuna í botninum úr gúmmí sem er með góðum sogkoppum til að tryggja að hún sitji föst.

Er hitastillir á blöndunartækjum í sturtu, baði og handlaug?

Til að koma í veg fyrir bruna af völdum hitaveitu vatnsins, sem er með hættulega hátt hitastig á mörgum stöðum á landinu, þarf að hafa hitastillt blöndunartæki í sturtu, baði og handlaug.

Eru hárþurrka og önnur rafmagnstæki geymd þar sem börn ná ekki til?

Skiljum ekki rafmagnstæki eftir í sambandi við rafmagn. Öruggast er að ganga frá þeim strax eftir notkun og koma þeim fyrir í efri skápum til að hindra að ung börn nái ekki til þeirra.

Er skiptiborðið stöðugt?

Gæta skal þess að skiptiborðið uppfylli gildandi staðal EN 12221 en þetta er til að tryggja fyllsta öryggi barnsins. Ekki er nauðsynlegt að vera með skiptiborð en ekki má nota skiptimottu sem er uppi á borði eða kommóðu. Það er í fullkomnu lagi að skipta á barninu á gólfinu.

Er skemill fyrir barnið við vask stöðugur?

Til að koma í veg fyrir fall er gott ráð að nota stöðugan skemil fyrir barnið til að standa á við vaskinn.

Er öryggislæsing á klósettsetu?

Ungum börnum finnst gaman að sulla og verður klósettið oft fyrir valinu þar sem það er aðgengilegt. Hægt er að setja öryggislæsingu á klósettið til að koma í veg fyrir þetta. Best er velja öryggislæsingu sem stenst staðalinn EN 16948

Barnaherbergi

Eru skápar, hillur og kommóður fest við vegg?

Börn elska að klifra eða hanga á húsgögnum. Því þarf að festa alla skápa, kommóður, tækjaskápa, skenka, bókahillur og frístandandi fataskápa við vegg. Hægt er að fá festingar í byggingavöruverslunum til að festa þessi húsgögn við vegginn.

Eru loftljós í barnaherbergi úr óbrjótanlegu efni?

Notum ekki loftljós úr gleri í barnaherbergjum og leikrýmum á heimilinu. Þegar börn leika sér með bolta eða henda leikföngum upp í loft sér til skemmtunar gætu kastað í lampann og brotið hann sem valdið hefur alvarlegum skurðum og áverkum á augum.

Er lampi við rúm barnsins fastur við vegg?

Öruggast er að nota vegglampa við rúm ungra barna. Lausir lampar eru oft notaðir í leik en börn hafa brennst illa þegar þau hafa sett lampa í rúmið og sofnað. Snúrur í vegglömpum þurfa að vera huldar. Öruggast er að nota snúru lista. Snúrur hafa valdið hengingu þegar barnið hefur verið að fikta með snúruna og vafið henni um hálsinn á sér.

Eru mottur á gólfi stöðugar?

Setjum skriðnet undir allar mottur á heimilinu til að koma í veg fyrir að þær renni til þegar börn eru að hlaupa um í leik.

Eru leikföng heil og hæfa þroska og aldri barnsins?

Öll leikföng þurfa að standast gildandi staðal EN71 og þurfa að vera CE merkt. Leikföng eru framleidd fyrir mismunandi aldur og eru umbúðir þeirra merktar með aldri barna. Börn ættu aðeins að leika sér með leikföng sem hæfa aldri þeirra. Þrátt fyrir að leikfangið sé öruggt getur það verið hættulegt fyrir barn sem ekki hefur náð þroska til að leika sér að því. Sérstakar varúðar merkingar eru á leikföngum sem ekki eru ætluð börnum yngri en 3 ára.

Stenst ungbarnarúmið eða vaggan gildandi staðal?

Ungbarnarúm og vöggur þurfa að standast gildandi staðal EN 1130 og dýnurnar í þennan búnað þurfa að standast staðalinn EN 16890

Oft er verið að nota gömul rúm og vöggur. Ef vagga eða ungbarnarúm er eldra en 25 ára er það ekki öruggt þar sem nýjar kröfur um öryggi hafa tekið gildið. Ungbarnarúm og vöggur yngri en 25 ára eru flestar í lagi. Ef þessi búnaður hefur verið tekin í sundur og skrúfur og upprunalegar festingar hafa glatast má reyna að hafa samband við framleiðanda til að fá réttar festingar. Ef kaupa þarf nýjar dýnur í þennan búnað þarf að kaupa þær frá framleiðanda ungbarnarúmsins eða vöggunnar til að tryggja að dýnan passi og sé öndunarprófuð til að tryggja öryggi barnsins sem best. Aldrei má láta framleiða sérstaka dýnu fyrir ungbarnarúmið af dýnuframleiðendum hér á landi þar sem dýnurnar þurfa að uppfylla öndunarprófun en framleiðandi ungbarnarúmsins eða vöggunnar lætur framleiða þær sérstaklega fyrir sig til að tryggja öryggið sem best.

Stigar

Er öryggishlið fyrir stigaopum, bæði uppi og niðri?

Stigar eru mjög hættulegir fyrir lítil börn. Setja þarf öryggishlið fyrir stigaop bæði uppi og niðri.  Öryggishlið þarf það að standast gildandi staðal EN 1930 til að tryggja að það virki. Athugið að sum hlið eru einungis framleidd fyrir notkun á efra stiga opi og önnur einungis fyrir opið að neðanverðu. Þessar upplýsingar er að finna í leiðbeiningum með hliðunum. Mörg alvarleg slys hafa orðið þegar röng hlið hafa veri sett fyrir efra opið.

Eru þrep í stiga stöm?

Stigar geta verið hálir. Veljum því hreinsiefni sem gera þrepin ekki hál. Hægt er fá sérstaka hálku strimla ef þau eru hál.

Ef op eru á milli þrepa, eru þau minni en 9 cm?

Stigar inni í íbúðum eru stundum hönnuð með opi á milli þrepa. Alvarleg slys hafa orðið þar sem þrepin eru opin sem gera börnum kleift að troða líkamanum í gegnum bilin. Bil sem eru stærri en 9 cm geta því reynst hættleg. Hægt er að setja öryggishlið sem hindrar það að barnið komist að opnu þrepunum. Ef stiginn er hannaður þannig að það er ekki hægt þarf að loka fyrir opin.

Er handriðið hannað þannig að barn getur ekki klifrað í því?

Sum handrið eru með láréttum pílárum eða mynstruðum pílárum. Þessi handrið eru mjög hættulega þar sem þau gera ungum börnum auðvelt fyrir í að klifra yfir handriðið. Klæða þarf utan um pílárana þannig að barn geti ekki náð fótfestu á þeim. Handrið í eldri húsum eru oft lág. Til að tryggja öryggi barna þarf hæð á handriði verð að lágmarki 110 cm. Algengt er í dag að þau séu 120 cm.

Er lágmarkshæð handriðs 110 cm?

Handrið í eldri húsum eru oft lág. Til að tryggja öryggi barna þarf hæð á handriði verð að lágmarki 110 cm. Algengt er í dag að þau séu 120 cm. Hægt er að hækka handriðið með því að smíða ofan á það til að hækka það upp eða klæða það með plötum sem eru hærri en handriðið sem fyrir er.

Gluggar og gler

Eru opnanleg fög á gluggum minni en 9 cm?

Í nýlegum húsum eru oft innbyggðar öryggislæsingar en skoða þarf hvort öryggislæsingin heimili einungis 9 cm opnun. Ef það er í lagi er glugginn öruggur. Ef þetta er gluggi sem auðvelt er að galopna þarf að setja sérstaka glugga öryggislæsingu á öll opnanleg fög. Öryggislæsingin þarf að standast staðalinn EN12209.

Er öryggisgler í hurðum, speglum, sturtuklefum og á borðum með glerplötu?

Ef ekki er öryggisgler í hurðum, speglum, sturtuklefum og borðplötum þarf að filma glerið með sérstöku öryggisplasti sem minnkar líkur á alvarlegum slysum ef glerið brotnar.

Er búið að stytta snúrur í gardínum eða setja upp öryggisfestingu?

Strimlagardínur eru með löngum böndum. Hægt er að setja upp fánanál við gluggann til að hægt sé að stytta snúrurnar þannig að ung börn komist ekki að þeim. Ef um perlukeðju snúru er að ræða, sem eru með lykkju, þarf að nota sérstaka festingu til að hún sé föst við innri ramma gluggans.

Hurðir

Er klemmuvörn á útidyra- og svalahurð?

Ef útidyr opnast út getur myndast hættulegt bil. Þar sem mikið er um gegnumtrekk hér á landi þá geta hurðir skellst illa aftur. Stundum er nauðsynlegt að setja lista fyrir opið en hægt er að fá slíkan búnað eftir máli.

Er pumpa á svalahurð? Er öryggislæsing á svalahurð?

Mikilvæg er að koma fyrir krók fyrir svalahurðir sem myndar rifu til að lofta rýmið út. Gæta skal þess að bilið sé aldrei stærra en 9 cm en lítil börn geta ekki smeygt sér í gegnum bil minni en 9 cm. Eining er hægt að nota sérstaka pumpu sem er stillanleg og hægt er að hafa hurðina opna mismikið þrátt fyrir þetta. Alltaf er öruggast að koma fyrir krók til að engin hætta sé á að barnið geti stækkað rifuna á hurðinni. Setjum barnalæsingu á svalahurð eða hafa á henni lás sem ungt barn getur ekki opnað.

Er klemmuvörn eða fingravinur á innihurðum sem skellast í gegnumtrekk?

Ung börn átta sig á því að hægt er að skella hurðum og fara þau oft að leika þennan leik. Mörg börn hafa orðið fyrir alvarlegum áverkum á fingrum þegar fingur þeirra hafa orðið á milli. Hægt er að fá svokallaða fingra vini eða klemmuvarnir til að setja á innihurðir til að koma í veg fyrir þessi slys.

Rafmagn og rafmagnstæki

Virkar lekastraumsrofinn á heimilinu?

Skylt er samkvæmt lögum að hafa virkan lekastraumsrofa í öllum mannvirkjum. Allir heimilismenn þurfa að vita hvar hann er staðsettur og viti hvernig hann virkar. Lekastraumsrofi er öryggisbúnaður sem vaktar rafmagnið á heimilinu allar innstungur ljós og fleira. Ef rafmagnstæki er bilað og því er stungið í samband slær lekastraumsrofinn út til að koma í veg fyrir slys. Lykilatriði er að þeir virki og að gert sé við þá um leið og þeir bila.

Eru innstungur öruggar (ekki hægt að stinga inn í þær skörpum hlutum)?

Flest heimili hér á landi eru með öruggar innstungur en lög um öryggi innstungna tóku í gildi fyrir um 50 árum síðan. 

Rúm 10 ár eru síðan sömu kröfur voru gerðar til fjöltengja. Farið vel yfir fjöltengin að þau séu örugg og takið þessu hættulegu úr umferð. Ekki er nauðsynlegt að nota öryggislæsingar í innstungur í vegg ef þær eru öruggar því þær eru með innbyggðu öryggi.

Er sjónvarpstækið fest á flötinn sem það stendur á eða á vegg?

Öll sjónvarpstæki þurfa að vera föst ofan á þeim fleti sem þau standa á. Einnig þarf húsgagnið sem notað er undir sjónvarpstæki að vera fest við vegg. Mörg sjónvarpstæki í dag eru fest við vegg með sérstökum veggfestingum til að auka öryggi barna.

Er þvottaherbergið læst?

Ef sérstakt þvottaherbergi er á heimilinu er mikilvægt að hafa það læst þar sem þar eru geymd þvottaefni og þvottavélar og þurrkarar aðgengilegir, auðveldast er að læsa þessum rýmum af. Ef þvottavélar og þurrkarar eru aðgengir þarf að gæta þess að festa þau við vegg. Gæta þarf að því að hafa hurðir lokaðar á þessum vélum þar sem litlum börnum hefur tekist að skriða inn í vélarnar og læsa sig þar inni.

Eru rafmagnssnúrur veggljósa fastar við vegg?

Á heimilum þar sem eru lítil börn er mikilvægt að gæta þess að veggljós með snúrum séu tryggilega fest við vegginn og að snúrur séu einnig festar við vegginn. Hægt er að fá sérstaka snúru lista í byggingavöruverslunum.

Almenn öryggisatriði á heimilinu

Eru skarpar brúnir á miðstöðvarofnum?

Hægt er að fá gúmmí til að líma á þessar brúnir en eining má setja  grindur fyrir ofna til að koma í veg fyrir að börn lendi ekki á skörpum brúnum þeirra ef þau detta.

Eru öryggishlífar á skörpum hornum á húsgögnum?

Hlífar fyrir hvöss horn á húsgögnum eru nauðsynlegar á heimilum lítilla barna. Ef barnið dettur koma þau veg fyrir slæma áverka.

Eru hillusamstæður og skápar fest við vegg?

Mikilvægt er að festa þennan búnað við vegg með sérstökum festingum eða vinkiljárnum sem hægt er fá í byggingavöruverslunum.

Eru skotvopn geymd óhlaðin og í læstum byssuskápum?

Vopnalög eru í gildi á Íslandi en geyma skal skot og skotvopn í sértökum byssuskápum.

Er sjúkrakassinn á aðgengilegum stað á heimilinu?

Í byggingarreglugerð er gerð sú krafa að öll heimili eigi að vera með einfaldan sjúkrakassa á heimilinu. Kassinn verður að vera á vísum stað og allir á heimilinu að kunna á innihaldi hans. Mikilvægt er að innihald hans sé endurnýjað reglulega.

Eru mottur á gólfum stöðugar og ekki undið upp á hliðar/enda?

Sumar mottur eru hálar og því mikilvægt að setja undir þær skriðnet. Eining eru þykkar mottur sem auðveldlega breyttist uppá á endum líklegri til að valda falli þar sem fætur geta auðveldlega flækst í þeim. Slíkar mottur hæfa ekki í göngurými heimila.

Eru eldspýtur og kveikjarar í hirslu með öryggislæsingu eða í efri skáp?

Börn fram eftir öllum aldri eru heilluð af fikti við eldfæri. Það er því mikilvægt að koma þessu fyrir í læstum hirslum. Kenna þarf börnum snemma að eldfæri séu hættuleg og að þau leiki sér aldrei með þau.

Er til flóttaáætlun fyrir heimilið, til dæmis ef eldsvoði kemur upp?

Hér er má sjá upplýsingar um eldvarnir á heimilinu sem gott er að kynna sér vel.

Eru reykskynjarar á heimilinu og eru þeir virkir?

Hér má finna upplýsingar um fjölda reykskynjara, hvar þeir skulu staðsettir á heimilinu og hversu oft þarf að kanna hvort þeir virki.

Eru slökkvitæki á heimilinu sem virka?

Hvert heimili þarf að vera með slökkvitæki. Slökkvitæki eru til í ýmsum gerðum en einnig þarf að velja staðsetninguna vel.

Er eldvarnateppi á heimilinu?

Hvert heimili þarf að vera með eldvarnateppi og allir á heimilinu þurfa að kunna að nota það rétt. Einnig skiptir rétt staðsetning þess miklu máli. Nánar um eldvarnarteppið.

Er virkur gasskynjari á heimilinu (þar sem gastæki eru notuð)?

Gasskynjarar eru afar nauðsynlegir og að gastengingar innanhúss séu öruggar og uppfylli ströngustu kröfur þar um. Hér má sjá nánari upplýsingar.

Er neyðarnúmerið 1-1-2 auðveldlega aðgengilegt í símanum?

Mikilvægt er að setja þetta númer inn í símann til að hægt sé auðveldlega að hringja á hjálp.

Eru reglur um hvar farsímar eru geymdir á heimilinu?

Oft hafa komið upp tilfelli á heimilum þar sem foreldrar eru einir heima og barnið slasar sig eða verður alvarlega veikt. Margar tilkynningar hafa borist um að foreldrar hafi ekki fundið símann sinn. Því er það öryggisatriði að heimilismenn finni stað þar sem símum er komið fyrir strax eftir notkun og ávallt sé hægt að ganga að honum vísum.