HPV

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

HPV-veiran (Human Papilloma Virus) er aðalorsök forstigsbreytinga og krabbameins í leghálsi. Veiran er mjög algeng og er talið að um 80% kvenna smitist af henni einhvern tímann á ævinni. Veiran smitast við kynmök og er einkum algeng hjá ungu fólki sem lifir virku kynlífi.

HPV-veiran hefur meir en 100 undirtegundir. Um það bil 40 þeirra geta valdið sýkingum í kynfærum bæði karla og kvenna og þar af eru 15-17 stofnar sem tengjast krabbameini. Sýking af völdum ákveðinna tegunda veirunnar getur valdið forstigsbreytingum í leghálsi og leghálskrabbameini. Þessar sömu tegundir geta einnig valdið sýkingum í öðrum líffærum. Þær geta þróast yfir í krabbamein, s.s. í endaþarmi, leggöngum og í ytri kynfærum bæði kvenna og karla. Veiran getur einnig valdið krabbameini í hálsi og berkjum og smitast þá við munnmök.

Í flestum tilvikum eyðir ónæmiskerfi líkamans veirunni en hjá minnihluta kvenna getur sýkingin orðið viðvarandi. Við það eykst mjög hætta á alvarlegum forstigsbreytingum og krabbameini í leghálsi. Mikilvægt er að bólusetja stúlkur áður en þær hefja kynlíf, en meðalaldur íslenskra stúlkna þegar þær eiga fyrstu kynmök sín er 15,6 ár.

Faraldsfræði
Leghálskrabbamein er næstalgengasta krabbameinið hjá konum um heim allan. Á Íslandi greinast árlega um 1700 konur með forstigsbreytingar í leghálsi og 14-17 konur með leghálskrabbamein. Meðalaldur kvenna með forstigsbreytingar er um 30 ár og kvenna með leghálskrabbamein um 45 ár og lifa um 80% þeirra síðarnefndu í fimm ár eða lengur frá greiningu.

Aukin hætta á HPV-smiti stúlkna tengist:

  • Ungum aldri þeirra þegar þær eiga sín fyrstu kynmök
  • Fjölda þeirra sem stúlkur/konur eiga kynmök við
  • Reykingum
  • Öðru kynsmiti, svo sem klamydíu-smiti
  • Veikluðu ónæmiskerfi

Einkenni
Tíminn frá smiti þar til krabbamein myndast getur verið mislangur, allt frá nokkrum vikum upp í marga mánuði eða jafnvel mörg ár. Sýkingar af völdum veirunnar geta verið þrálátar en í langflestum tilfellum eyðir ónæmiskerfi líkamans þeim án nokkurra afleiðinga. Hins vegar aukast líkur á forstigsbreytingum og síðar krabbameini í leghálsi ef sýking af völdum krabbameinsvaldandi tegunda veirunnar er viðvarandi og ekkert er að gert.

Forstigsbreytingar í leghálsi valda ekki augljósum einkennum um sýkingu en hafi breytingarnar þróast yfir í krabbamein geta komið fram einkenni eins og:

  • Blæðing úr leggöngum eftir samfarir
  • Óeðlileg útferð úr leggöngum
  • Verkir í kynfærum

Þessi einkenni eru ekki bara bundin við leghálskrabbamein. Sýkingar af öðrum orsökum geta valdið samskonar einkennum. Verði þessara einkenna vart er nauðsynlegt að leita til læknis þrátt fyrir að síðasta leghálsstrok kunni að hafa verið eðlilegt.

Meðferð
Engin meðferð er til við HPV-sýkingum en hægt er að greina forstigsbreytingar krabbameins með frumustroki frá leghálsi. Ef forstigsbreytingarnar eru vægar er fylgst með þróun þeirra og hvort ónæmiskerfi líkamans vinnur á sýkingunni. Það er gert með reglulegri læknisskoðun þar sem tekið er frumustrok frá leghálsi sem er sent frumurannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins til nánari skoðunar undir smásjá.

Alvarlegar og/eða þrálátar forstigsbreytingar eru meðhöndlaðar með keiluskurði en hafi krabbamein þegar myndast er þremur meginaðferðum beitt, þ.e. skurðaðgerð, geislum og lyfjameðferð.

Forvarnir
Bólusetningin er fyrst og fremst fyrirbyggjandi en læknar ekki sjúkdóma sem orsakast af HPV-sýkingum. Bóluefnið er gefið í tveimur sprautum með að minnsta kosti 6 mánaða millibili. Til að fá sem mesta vörn er mikilvægt að gefa sprauturnar tvær innan árs. Bólusetningar hófust haustið 2011.

Þar sem ekki fæst full vörn með bólusetningunni er mikilvægt fyrir konur að fara reglulega í leghálskrabbameinsleit. Tekið er frumustrok frá leghálsi til greiningar forstigsbreytinga eða krabbameins á byrjunarstigi.

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.