Rafsígarettur

Rafsígarettur hafa verið til sölu hér á landi síðustu ár, en fyrstu rafsígaretturnar komu á markað fyrir um tíu árum. Könnun sem gerð var árið 2015 sýndi að 2,5% fullorðinni sögðust nota rafsígarettur, aðeins færri karlar (2%) en konur (3%). Það sem vekur athygli er að hlutfallslega fleiri 15 ára börn (33%) hafa prófað rafsígarettur en fullorðnir einstaklingar (5%). Það vekur ugg því rannsóknir sýna að börn sem fikta við rafsígarettur eru líklegri til að byrja að reykja venjulegar sígarettur.

Rafsígarettum líkt við sígarettur

Sígarettur voru markaðssettar á árunum eftir seinna stríð. Þær voru kynntar til sögunnar sem tískuvara og gerðar að tákni um hraustleika. Jafnvel læknar mæltu með reykingum.

Þótt rannsóknir sýndu að sígarettur væru lífshættulegar tók það um hálfa öld að afsanna falskar fullyrðingar tóbaksframleiðenda um hið gagnstæða. Og enn er til fólk sem reykir þrátt fyrir að vita að sígarettur drepa bæði þann sem reykir og þá sem standa hjá. Því þegar menn ánetjast tóbaki getur verið mjög erfitt að hætta.

Nú eru rafsígarettur markaðssettar alþjóðlega á sama hátt og sígarettur fyrir meira en hálfri öld. Þær sýna bæði glæsilegar konur og karla sem reykja rafsígarettur. Fræga fólkið er fengið til að auglýsa rafsígarettur til að skapa rétta ímynd. Skilaboðin eru þau að þér muni líða betur með þig ef þú reykir þær.

Rafsígarettur eru jafnvel markaðssettar fyrir börn. Rafsígarettur með hlaupkúlum og brjóstsykri eru ekki beinlínis það sem fullorðnir kjósa helst. Þeir sem hagnast á sölunni vita sínu viti. Því fyrr sem fólk byrjar að fikta við rafsígarettur sem innihalda nikótín, því líklegra er að það ánetjist því. Sérstaklega fyrir tuttugu ára aldur, áður en heilinn er fullþroskaður.

Hvað er rafsígaretta?

Rafsígaretta er rafhlöðuknúið úðatæki sem líkir eftir sígarettureykingum. Hún skiptist í rafhlöðuhylki, hitara og munnstykki — með vökvahylki og skammtahólfi. Vökvinn samanstendur af própýlenglýkóli og, eða glýseróli. Hann inniheldur gjarnan nikótín, sem getur verið allt upp í 36 grömm í hverjum lítra. Þá hefur verið sýnt fram á að í vökvanum leynast oft ýmis önnur skaðleg efni. Þegar vökvinn hitnar leysist hann upp í örsmáar agnir, sem fara niður í lungun.
Í dag má fá um 500 mismunandi tegundir af rafsígarettum og um 8.000 bragðtegundir af nikótínvökva. Sumar þeirra hafa reynst gallaðar og hafa sprungið framan í fólk, með alvarlegum afleiðingum.

Nikótínvökvi í sælgætisbúningi er slysagildra

Ungum börnum, sérstaklega undir fimm ára, stafar bráð eitrunarhætta af nikótínvökva. Mjög lítið magn af vökvanum þarf til að barn fari í öndunarstopp, sem getur valdið varanlegum skaða eða jafnvel leitt til dauða. Hann ber því að geyma þar sem börn ná ekki til.

Áhrif nikótíns á fóstur

Ef verðandi móðir neytir nikótíns í einhverju formi á meðgöngu getur barnið orðið fyrir þroskaskerðingu, ásamt því að líkur aukast á bæði fyrirburafæðingu og andvana fæðingu. Þá eru vísbendingar um að unglingar sem neyta nikótíns geti orðið fyrir skaðlegum áhrifum á heila. Sjá meira um áhrif nikótíns á fóstur hér.

Rafsígarettur innihalda oft skaðleg efni

Það er ljóst að rafsígarettuvökvi inniheldur í flestum tilfellum skaðleg efni, þar með talin krabbameinsvaldandi efni sem geta valdið skemmdum á erfðaefni fruma.

Hversu skaðlegar rafsígarettur hins vegar eru, er enn ekki hægt að fullyrða, því þær komu fyrst fram fyrir aðeins um áratug síðan. Það mun taka nokkra áratugi áður en hægt verður að draga afdráttarlausar ályktanir um skaðsemina.

Skaðleg efni í umhverfi þeirra sem reykja

Þá er enn ekki vitað hversu skaðlegt það er að anda að sér óbeinum rafsígarettureyk. Skaðsemi óbeinna sígarettureykinga var staðfest mörgum áratugum eftir að skaðsemi beinna reykinga lá fyrir. Þó er nú þegar ljóst að skaðleg efni í rafsígarettureyk berast í umhverfi þeirra sem reykja þær.

Rafsígarettureykur er ertandi fyrir lungun

Lungu unglinga og ungs fólks eru enn að taka út þroska og þar af leiðandi eru þau viðkvæmari en ella fyrir efnum sem finnast í rafsígarettum.

Engin töfralausn

Sumir telja að rafsígarettur séu líklegri en önnur nikótínlyf til að hjálpa reykingafólki að hætta, þar sem þær líkja eftir sígarettureykingum. Enn hafa rannsóknir ekki stutt þá tilgátu. Árangurinn er svipaður. Meira en 90% þeirra sem skipta út sígarettum fyrir rafsígarettur byrja aftur að reykja. Það er svipaður árangur og með nikótínplástrum.

Athugum að góðum árangri í tóbaksforvörnum á Íslandi var náð löngu áður en rafsígarettan kom til sögunnar. Þegar hún kom fyrst á markaðinn var hún hugsuð fyrir reykingamenn sem ekki gátu hætt að reykja með öðrum leiðum. Þeim var svo ráðlagt að draga smám saman úr notkuninni og hætta henni loks alveg. Það hefur breyst.

Tóbaksframleiðendur yfirtaka rafsígarettuiðnaðinn

Í dag eru stóru tóbaksfyrirtækin óðum að yfirtaka rafsígarettuiðnaðinn. Þau beina spjótum sínum að börnum og unglingum.

Markaðsfé þeirra hefur hátt í tuttugufaldast á síðustu þremur árum og tóbaksrisarnir hafa ekki gefið út neinar yfirlýsingar um að markmiðið sé að útrýma sígarettureykingum eða nikótínfíkn.

Þar ræður því eitthvað allt annað för, en umhyggjan fyrir þeim sem eru að reyna að hætta að reykja.

Varasamt að byrja að fikta

Það er því afar varasamt að byrja að fikta við rafsígarettur. Notkun þeirra er aldrei saklaus og líkur eru á að hún skapi varanlega og heilsuspillandi nikótínfíkn.

Því má spyrja sig:
Er það þess virði að taka sénsinn? Og eiga það á hættu að verða þræll nikótínsins? Þú veist betur.

Hvað veistu þú um rafsígarettur? Taktu prófið!

Efnið í þessum kafla er unnið af Krabbameinsfélaginu – birt með góðfúslegu leyfi þeirra. Meira um rafsígarettur er að finna á www.mottumars.is

Hvað er rafsígaretta?
Hvað getum lært af sögunni?

Þessi grein var skrifuð þann 27. apríl 2017

Síðast uppfært 08. ágúst 2017