Börnin og skjárinn

Börn í dag alast upp í umhverfi sem er hlaðið tækjum og tækninýjungum. Þróunin er hröð og því eðlilegt að foreldrar velti fyrir sér hvernig best sé að standa að góðu uppeldi í sátt og samlyndi við skjáinn. Skjárinn, hvort sem það er tölva, snjalltölva, leikjatölva eða sími, er snjall í að grípa og halda athygli ungra barna.

Það er einkum málþroski, hreyfiþroski og félagsþroski barna sem þarf að huga að í tengslum við skjánotkun. Hér koma nokkur ráð til að stuðla að góðu skjá-uppeldi ungra barna.

Gott skjá-uppeldi 0-5 ára barna

 • Lágmarkið skjánotkun barna fram að 18 mánaða aldri.
 • Leitist við að horfa á skjáefni með barninu og veljið gott efni á móðurmáli barnsins.
 • Setjið ykkur inn í leiki og smáforrit sem börnin eru að nota.
 • Fáið barnið til að ræða um það sem þau sjá og upplifa (örva málþroskann).
 • Gætið þess að hafa sjónvarpið ekki stöðugt í gangi, því það grípur athygli og stöðvar eðlilega hreyfiþörf barnsins.
 • Gætið þess að nota ekki skjáinn sem einu leiðina í að róa barnið. Því barnið þarf að læra að stjórna tilfinningum sínum.
 • Skipulegðu skjálausar stundir með barninu þínu.
 • Hugaðu að þinni eigin skjánotkun sem foreldri og fyrirmynd. Börnin þurfa stundum óskipta athygli foreldra sinna.

Gott skjá-uppeldi skólabarna

 • Skjátími - hvað á hann að vera langur? spyrja foreldrar gjarnan. En skjátími er ekki allur eins. Reyndu að stuðla að fjölbreyttri skjánotkun og lærdómstækifærum. Það krefst þess að þú setjir þig vel inní skjánotkun barnsins.
 • Gerðu það að reglu að spyrja barnið hvað það er að gera í sinni skjánotkun, sýndu því áhuga og ræðið.
 • Styrktu jákvæða skjáhegðun t.d. með því að hrósa barninu:
  • Þegar það velur áhugavert og lærdómsríkt skjáefni.
  • Þegar það hefur frumkvæði að því að stýra sínum skjátíma sjálft í viðunandi hóf.
  • Þegar það "hættir í leiknum" þegar þú biður það um að hætta.
 • Kenndu barninu að spyrja þig leyfis áður en það gefur upp persónuupplýsingar eins og nafn, síma, netfang, heimilisfang, lykilorð, skóla eða myndir.
 • Þegar fjölskyldan kemur saman er gott að stuðla að skjálausum stundum, t.d. við matarborðið.
 • Slökktu á sjónvarpinu þegar enginn er að horfa. Því sjónvarp sem er stöðugt í gangi truflar góð samskipti foreldra og barna.
 • Tryggðu nægan svefn. Börn á skólaaldri þurfa um 10 klst svefn. Því getur verið góð regla að hafa engin skjátæki í svefnherbergjum barna.
 • Hugaðu að fyrirmyndinni, hvernig ert þú að nota skjátækin þín? Börnin fylgjast með þér og læra af þér. 

Áhyggjur af netfíkn?

Ef þú hefur áhyggjur af óhóflegri netnotkun barnsins þíns getur þú skoðað kaflann um netfíkn.