Heilsuvernd skólabarna

Heilsuvernd skólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðvum sjá um heilsuvernd skólabarna. 

Markmið heilsuverndar skólabarna er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. 

Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar. Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Embættis landlæknis um heilsuvernd grunnskólabarna.

Starfsfólk heilsuverndar skólabarna vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð nemenda að leiðarljósi. 

Skimanir

Skimanir eru framkvæmdar í 1., 4., 7. og 9. bekk og felast í mælingu á hæð, þyngd og sjónskerpu. Nemendur í öðrum árgöngum eru skimaðir eftir þörfum. Niðurstöður skimana eru skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar.

Viðtöl um lífsstíl og líðan

Þegar skimanir fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk ræðir hjúkrunarfræðingurinn við nemendur um lífsstíl og líðan. Markmið þessara viðtala er að styrkja vitund nemenda um eigin lífsstíl og líðan. Eins að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur. Grunnupplýsingar úr lífsstílsviðtali eru skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar.

Bólusetningar

Bólusett er í 7. bekk við mislingum, hettusótt og rauðum hundum og í 9. bekk við barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt. Stúlkur í 7. bekk eru einnig bólusettar gegn HPV (Human papilloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini. Áður en kemur að bólusetningu er sendur tölvupóstur til foreldra með upplýsingum um tímasetningu.

Hafið samband við skólahjúkrunarfræðing ef:

  • Nánari upplýsinga er óskað.
  • Talið er að barn sé ekki að fullu bólusett.
  • Óskað eftir því að barn sé ekki bólusett. 

 Það er á ábyrgð foreldra að láta bólusetja börn sín. Bólusetningar eru skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar.

Heilbrigðisfræðsla

Skipulögð heilbrigðisfræðsla er framkvæmd í öllum árgöngum og er áherslan að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar um hvað fjallað var um í tölvupósti. Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um starfsemina má finna á heimasíðu viðkomandi heilsugæslustöðvar.

Einnig: Leiðbeiningar um heilsuvernd grunnskólabarna

Þessi grein var skrifuð þann 21. ágúst 2017

Síðast uppfært 10. júlí 2018