Að búa við ofbeldi á heimili sínu er óviðunandi ástand og því ekki óeðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvaða leiðir eru færar í stöðunni. Það er líka ljóst að það hentar ekki það sama öllum til þess er mannfólkið of fjölbreytilegt.
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands rannsakaði áhrif meðferðarúrræðis sem beitt er hjá Heimilisfriði. Niðurstöðurnar eru áhugaverðar.
„Þegar konurnar voru spurðar út í ofbeldi af hendi maka bæði áður og eftir að hann hóf viðtalsmeðferðina kom í ljós að verulega dró úr ofbeldi af hendi maka eftir að meðferðin hófst. Síðustu þrjá mánuði áður en maki eða kærasti hóf meðferð hjá Körlum til ábyrgðar sögðust 83% kvennanna einhvern tíma hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi af hendi maka, um þriðjungur hafði verið beittur kynferðislegu ofbeldi og níu af hverjum tíu höfðu verið beittar andlegu ofbeldi. Á undangengnum þremur mánuðum sögðust aftur á móti 15% kvenna hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi af hendi maka, 11% kváðust hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi á þessu tímabili og 50% sögðust hafa verið beittar andlegu ofbeldi.“