Áhugavert

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur
Norðurlandameistarar í fiskneyslu

Norðurlandameistarar í fiskneyslu

Fiskur er hollur og góður. Íslendingar borða mest allra Norðurlandabúa af fiski en betur má ef duga skal. Mælt er með því að borða 2 til 3 fiskmáltíðir í viku hverri en í dag borða Íslendingar fisk tvisvar í viku og ungar konur borða aðeins fisk einu sinni í viku. 

Embætti landlæknis

Heilkornavörur geta lengt lífið

Heilkornavörur geta lengt lífið

Neysla á grófu brauði tvöfaldaðist frá 2002 til 2011. Samt sem áður eru gróf brauð aðeins lítill hluti brauðneyslunnar í öllum aldurshópum beggja kynja, eða sem samsvarar hálfri grófri brauðsneið á dag að meðaltali. Rúgbrauð eru stór hluti grófu brauðanna. Heilkornavörur tvisvar á dag er það sem mælt er með. Neysla á heilkornum tengist minni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini og dauða af völdum fjölda sjúkdóma.

 

Hafragrauturinn á siglingu

Hafragrauturinn á siglingu

Hafragrautsneysla tvöfaldaðist á milli áranna 2002 og 2011 enda grauturinn góð uppspretta trefja og næringar. Grauturinn í sinni einföldustu útgáfu samanstendur af hafragrjónum og vatni. Svo eru hinar ýmsu útfærslur til af grautnum. Bæta má ýmsum öðrum grjónategundum í grautinn ásamt þurrkuðum eða ferskum ávöxtum, berjum, hnetum, möndlum eða bara því sem fólki dettur í hug. Svo eru það þeir sem hræra egg og nota í staðin fyrir vatnið í grautinn og taka þetta jafnvel á pönnunni. Svo er bara spurningin um hvenær þetta hættir að vera hafragrautur!!

Embætti landlæknis

Maturinn, buddan og umhverfið

Maturinn, buddan og umhverfið

Fyrir flesta eru matarinnkaupin stór hluti af útgjöldum heimilisins. Það er því mikilvægt að fara vel með þann mat sem keyptur er og nýta hann allan. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar er að um 30% af þeim mat sem framleiddur er fari til spillis og hér á landi er talið að 25% af innkaupum einstaklinga endi í ruslinu þannig að sóknarfærin eru mörg í að nýta matinn betur. Það er siðferðilega rangt að á meðan stór hluti mannkyns hafi ekki nægan mat hendi aðrir mat í stórum stíl.  Það kemur sér vel fyrir fjárhaginn að fara betur með matinn en ennþá mikilvægari eru þó umhverfisáhrifin. Framleiðsla á mat veldur losun gróðurhúsalofttegunda, hún er landfrek, efna- og vatnsnotkun er mikil. Af þessu hlýst mengun sem hefur áhrif á heilsu og umhverfi. 

Inná vefnum matarsoun.is er finna góð ráð til þess að draga úr matarsóun.

Færðu nóg D vítamín?

Færðu nóg D vítamín?

Mataræði meðal Íslendingsins gefur aðeins þriðjung þess D vítamíns sem ráðlagt er. Yfir sumartímann getum við fengið D vítamín úr sólarljósi en á veturna er nauðsynlegt að taka lýsi eða D vítamín töflur til að fá nóg D vítamín.

D vítamín er í lýsi, feitum fiski eins og síld, laxi, silungi, sardínum og lúðu og í eggjarauðum. D vítamíni er bætt í fjörmjólk, stoðmjólk og D vítamínbætta léttmjólk. 

Embætti landlæknis

Fæðubótarefni

Fæðubótarefni

Mikið framboð er af fæðubótarefnum á markaðnum sem sögð eru gera kraftaverk á heilsu og líðan fólks. Þau eru meðal annars sögð bæta svefn, meltinguna og heyrn, losa fólk við verki og jafnvel lækna alvarlega sjúkdóma. Staðreyndin er hins vegar sú að ef þú borðar hollan og fjölbreyttan mat í hæfilegu magni eru fæðubótaefni óþörf nema D vítamín yfir vetrartímann og fólat fyrir konur á barneignaraldri.

Fólk sem haldið er ákveðnum sjúkdómum eða eldra fólk getur þurft að nota bætiefni samkvæmt læknisráði. Önnur notkun á fæðubótarefnum er í besta falli skaðlaus peningasóun en í versta falli skaðleg heilsunni.

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.