Áhugavert

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur
Af hverju heitir þetta bólusetning?

Af hverju heitir þetta bólusetning?

Bólusetningar draga nafn sitt af bólusóttinn. Árið 1796 benti breskur læknir, Edward Jenner, á að kúabólusetning kæmi í veg fyrir bólusótt. Bólusótt var mjög skæður sjúkdómur sem drap þriðjung þeirra sem sýktust og segja má að bólusóttin hafi næstum gert út af við þjóðina á öldum áður. Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða til að hefja bólusetningar gegn bólusótt en það var árið 1802. Þjóðum heims tókst á 200 árum að útrýma bólusótt og hætt var að bólusetja gegn þessum alvarlega sjúkdómi á áttunda áratug tuttugustu aldar.

Hvernig virkar bólusetning?

Hvernig virkar bólusetning?

Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin sjálf valda litlum einkennum en vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að börnin veikist af sjúkdómnum sem bólusett er gegn.

Úr botnsætinu í það fyrsta

Úr botnsætinu í það fyrsta

Á 150 árum hafa Íslendingar farið úr því að vera með mesta ungbarnadauða á Norðurlöndum í það að vera með minnsta ungbarnadauða í heiminum. Árið 1846 sló öll met þegar 654 börn af hverjum 1000 fæddum dóu á fyrsta ári. Meðaltal áranna 1841-1850 var 345 látin börn af hverjum 1000 fæddum. Þetta var tvöfalt meiri en í nágrannalöndum okkar á þessum tíma. Í dag er ungbarnadauði á Íslandi sá minnsti sem um getur í heiminum meðaltal áranna 2004 til 2013 var 1,9 látin börn af hverjum 1000 fæddum. 

Bólusetningar barna eiga stóran hlut í þessum árangri en öflug meðgönguvernd, ung- og smábarnavernd og almennt gott ástand í þjóðfélaginu eiga vitaskuld stóran þátt í þessum frábæra árangri.

Ó, Jesú bróðir besti

Ó, Jesú bróðir besti

Skírnarsálmurinn sem margir þekkja er ortur af Páli Jónssyni, presti í Viðvík í Skagafirði (1812-1889).

Veturinn 1884 var séra Páli og Önnu konu hans sérlega erfiður. Í janúar herjaði barnaveiki á barnahópinn þeirra og á níu daga tímabili um mánaðarmótin janúar og febrúar létust 3 barna þeirra úr sjúkdómnum. Þau voru á aldrinum fjögurra til sjö ára þegar þau létust. Í óbilandi trú sinni á forsjá Guðs settist skáldið niður og orti sálminn og bað börnunum blessunar Jesú.

Ó, Jesú bróðir besti
og barna vinur mesti
æ, breið þú blessun þína
á barnæskuna mína

Barnaveikin leikur börn og foreldra þeirra ekki lengur svona grátt. Þökk sé bólusetningum.

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.