Tölum um kynlíf

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Samskipti eru mikilvægur hluti allra sambanda. Með því að tala saman deilum við tilfinningum, skoðunum og leysum vandamálin saman.  Talið um það sem þið gerið, það sem ykkur langar að gera og hvernig ykkur líður. Ef þú hefur áhyggjur af einhverju sem snertir kynlífið er besta leiðin að ræða málin. Með því móti geta pör leyst málin saman og fundið leiðir sem henta. Heilbrigt samband byggir á forsendum beggja og það á við um kynlífið líka.

Hvenær og hvernig á að hefja umræðuna?

Margir eiga erfitt með að sjá fyrir sér hvar sé rétti staðurinn og stundin til að tala um kynlíf. Það þarf að velja rétta tækifærið til þess. Þið þurfið að hafa frið og vera ein. Það er ekki heppilegt að fara að ræða kynlífið og mögulega það sem angrar þig í rúminu þegar þú ert ekki í stuði fyrir kynlíf og þreyta dagsins situr í þér. Sumir óttast að særa maka sinn ef þeir ræða kynlífið opinskátt og segja mögulega eitthvað sem kemur illa við makann. Ef þú ert í hamingjuríku sambandi en ert ekki sátt/ur við kynlífið, ætti að vera í góðu lagi að ræða það. Vandaðu val orðanna og vertu hreinskilin/n. Segðu það sem þú meinar og meinaðu það sem þú segir. Ekki tala þvert um hug þinn. Í góðu sambandi getur fólk fundið farsælar lausnir í sameiningu. 

Virtu tilfinningar maka þíns

Þú getur borið upp áhyggjuefni þín án þess að særa maka þinn. Sýndu nærgætni í orðavali og spurðu maka þinn hvort hann deili þessum áhyggjum með þér. Þar með opnar þú á umræðu en skellir ekki bara fram þinni skoðun á málinu eða ásökun. Hlustaðu vel á hverju maki þinn svarar. Er hann ef til vill sammála þér eða horfir hann öðruvísi á málið? Í mörgum tilvikum ná pör að ræða hlutina og komast að niðurstöðu en náist það ekki er ef til vill rétt að leita til ráðgjafa og fá hjálp. 

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.