Af hverju þarf að bólusetja börn?

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin fullyrðir að engar aðgerðir séu mönnum eins hagkvæmar og bólusetningar. Bólusetningar hafa verið almennar hér á landi í marga áratugi og þátttaka í þeim er mikil, einkum í bólusetningu barna.  Þetta er mjög mikilvægt þar sem farsóttum verður ekki haldið í skefjum nema þorri fólks sé bólusettur. Brýnt er að bólusetningar barna nái til nær allra barna í hverjum árgangi.  Með því móti er unnt að mynda svonefnt hjarðónæmi gegn skæðum smitsjúkdómum. Ónæmi gegn þeim verður nægilega algengt í landinu til þess að hindra útbreiðslu sjúkdómanna, jafnvel þótt vart verði við einstök tilfelli.

Markmiðið með bólusetningum er að koma í veg fyrir alvarlega sjúkdóma, einkum hjá börnum. Bólusetningar hindra einnig farsóttir og draga úr hættulegum afleiðingum smitsjúkdóma. Í sumum tilfellum er mögulegt að útrýma sjúkdómum með öllu. Margir barnasjúkdómar, svo sem mislingar, barnaveiki, kíghósti og lömunarveiki, sjást afar sjaldan nú orðið. Ungabarnadauði vegna þessara sjúkdóma var þó algengur á 19. öldinni og framan af 20. öldinni. Reynsla margra Austur- Evrópuríkja sýnir að þessir sjúkdómar geta komið aftur ef slakað er á bólusetningum barna.

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.
Senda ábendingu til vefstjóra